Fara í efni
Umræðan

Salan á Íslandsbanka stenst enga skoðun

Hvorki fyrri eða seinni salan á hlutum í Íslandsbanka getur talist góð eða sanngjörn fyrir eigandann, okkur þjóðina. Í fyrri sölunni var hlutur í bankanum seldur langt undir raunvirði og nær broslegt hvernig menn hafa slegið sér á brjóst og sagt að með þeirri sölu hafi virði bankans verið aukið fyrir þjóðina.

Skulum aðeins rifja hvernig fyrri salan leit út. Í viðtali við RÚV 8. júní 2021 sagði fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson „að það gætu fengist vel yfir fimmtíu milljarðar fyrir hlutinn sem ríkið hyggst selja í Íslandsbanka. Honum leist vel á stóru erlendu fjárfestingasjóðina sem hafa skuldbundið sig til að gerast kjölfestufjárfestar í bankanum“ og vísaði þar til þess að sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors og RWC Asset Management hafi skuldbundið sig til að kaupa samtals 108 milljónir hluta af þeim rúmlega 600 milljónum sem voru í boði. Allir vita í dag hvað varð um þá kjölfestu.

Bankinn stórlega vanmetinn í fyrra útboðinu

Fyrir þá sem gáfu sér tíma til að rýna þetta í aðdraganda þessarar fyrri sölu mátti vera ljóst að bankinn var í því útboði stórlega vanmetinn eða undirverðlagður. Sjálfur skrifaði ég pistil um það á Facebook þann 8. júní 2021 þar sem ég benti á augljósar staðreyndir um að um undirverðlagningu yrði að ræða ef ráðist yrði í söluna með þessum hætti. Í þeim pistli skrifaði ég m.a.:

„Það þarf ekki mikla rýni til að sjá að verið er að bjóða bankann langt undir raunvirði. Sölugengið gefur til kynna að bankinn sé 150 milljarða virði sem er ekki nema 80% af skráðu eigin fé bankans sem skv. ársreiknin er 186 milljarðar. Allir sem þekkja til bankastarfsemi vita líka að með þeim kröfum sem gerðar eru til fjármálastarfsemi nú þá er það varfærið mat á eigin fé bankans.

Heildareignir bankans eru nú 1.344 milljarðar eftir mikinn vöxt í útlánum bankans og heildareiginfjárhlutfallið samt hvorki meira né minna en 23%.

Eiginfjárkrafa á bankann hefur verið lækkuð á árinu í 17% og því gæti bankinn auðveldlega greitt út nokkra tugi miljarða af eiginfé til eiganda síns án þess að vera í nokkrum vanda. Því til viðbótar kemur að ef bankinn minnkaði lánasafn sitt væri hægt að losa um enn meira af eigin fé bankans og greiða til eigandans.

Bjarni Ben er kátur og segir þjóðina jafnvel geta fengið 50 milljarða fyrir sölu á hlutnum, en ég segi á móti, Þetta er bara í besta falli upphæðin sem ríkið gæti fengið út úr bankanum í argreiðslur og útgreiðslu á eigin fé á næstu 2-4 árum en ætti samt eftir allan bankann.“

Hvað kom svo á daginn. 13. október gerir Þórður Snær grein fyrir því í Kjarnanum að virði hlutabréfa í bankanum hafi aldrei verið hærra en við lokun markaða hafði sá 35% hlutur sem ríkið seldi hækkað um 32,2 milljarða kr eða 58%.

Þórður skrifar: „Virði Íslandsbanka hefur aldrei verið meira en það var við lokun markaði í dag, eða 250 milljarðar króna. Markaðsvirði bankans í heild hefur hækkað um 92 milljarða króna frá því í júní, en íslenskra ríkið á enn 65 prósent hlut í honum. Samkvæmt þessu er virði þess hluta nú 162,5 milljarðar króna.

Sá sem keypti hlut í Íslandsbanka af íslenska ríkinu á eina milljón króna í júní gæti selt þann hlut í dag á 1.580 þúsund krónur“.

Seinni salan einnig ámælisverð

Það þýðir svo sem ekkert að skammast yfir því að seinni salan hafi átt sér stað því hún var eins og sú fyrri skrifuð í stjórnarsáttmála ríksstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þannig átti það því ekki að koma á óvart að salan færi fram þó svo maður væri ekki sammála að fara þá leið.

Framkvæmd sölunnar vekur hinsvegar upp mjög áleitnar spurningar sem svör verða að fást við. Hverjir fengu að kaup og hvers vegna viðkomandi voru valdir. Svör bæði ráðherra ríkisstjórnarinnar og formanns Bankasýslu ríkisins finnast mér rýr.

Eins og að selja eina af bestu mjólkurkúnum í upphafi mjaltaskeiðs

Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn að ekki hafi verið tímabært að ráðst í sölu á hlut ríkisins í bankanum. Bæði vegna þess að raunverulegt virði bankans á eftir að koma fram og einnig vegna þess að við eigum sem þjóð eftir að nýta það einstaka tækifæri sem við höfum haft til að endurskipuleggja fjármálakerfið í heild sinni áður en við færum í að selja það að hluta frá okkur. Þar vísa ég til þeirra tækifæra sem við eigum til að sameina í einum af ríkisbönkunum eða nýjum þjóðarbanka þau lánasöfn sem tilheyra heimilunum í landinu og minni og meðalstórum fyrirtækjum. Með þau viðskipti í banka í þjóðareigu værum við að tryggja okkar þegnum og atvinnulífinu ákveðinn stöðugleika og vernd, meðan fjárfestingastarfsemi og lánveitingar til alþjóðlegra fyrirtækja gætu hæglega verið í þeirri einingu sem við seldum frá okkur að slíkri vinnu lokinni.

Bankinn er ennþá undirverðlagður

Það er mín skoðun að bankinn sé ennþá stórlega undirverðlagður ef horft er nokkur ár fram í tímann. Aðalástæða þess mats míns er að sú eiginfjárkrafa sem gildir um bankastarfsemi í dag mun lækka eins og margoft hefur mátt lesa úr orðum ráðamanna um að sá tími sé í vændum.

Til upprifjunar þá var venjuleg eiginfjárkrafa í fjármálakerfinu fyrir bankahrunið 8% og fór eftir bankahrun nokkuð yfir 20% (23% að mig minnir). Í dag er heildarkrafa eigin fjár á Íslandsbanka 17,8% og að mínu viti mjög líklegt að sú krafa muni innan skamms lækka í 13-14%, sem myndi þýðia bara eitt. Eigandinn gæti þá tekið út tugi miljarða í lækkun á eigin fé bankans án þess að skerða starfsemina.

Skv. ársreikning Íslandsbanka fyrir s.l. ár segir m.a. „samstæðan er mjög vel fjármögnuð og var heildareiginfjárhlutfall hennar 25,3% í loks árs, samanborið við 17,8% heildarkröfu eigin fjár og kröfu um 21,3% eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1. Heildareiginfjárhlutfallið hækkaði um 2,3 prósentustig á árinu þrátt fyrir mikinn útlánavöxt. Þetta kemur til vegna góðrar arðsemi, útgáfu bankans á skuldabréfi undir viðbótareiginfjárþætti 1 í september og lækkunar á áhættugrunni vegna innleiðingar á reglugerð Evrópusambandsins nr. 2019/876 (CRR II) á Íslandi“.

Þá lagði stjórn bankans til við aðalfund að greiddir yrðu 11,9 milljarðar kr í arð til hluthafa eða sem nemur 50% af hagnaði ársins 2021.

Bankinn er heldur ekkert að leyna því sjálfur að hann ætli að koma hluta af eigin fé bankans til eigendanna, en í árskýrslunni segir einnig: „Til viðbótar við arðgreiðsluna, hyggst bankinn leitast eftir heimild aðalfundar og Seðlabanka Íslands til endurkaupa á eigin hlutabréfum og stefnir á endurkaup fyrir 15 milljarða króna á komandi mánuðum. Þetta samræmist stefnu bankans um bætta samsetningu eigin fjár og að skila hluta af umfram eigin fé bankans til hluthafa. Stjórn bankans getur boðað til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu frekari arðs eða kaup á eigin hlutabréfum kann að vera lögð fram ef eigið fé verður áfram umfram markmið bankans“.

Ég spyr því: væri ekki bara „best að eiga bankann“ fram yfir þessa möguleika til útdeilingar á eigin fé bankans.

Það versta við þetta allt er að þegar rætt er um sölu á eignum ríkisins er eins og ekkert breytist þrátt fyrir mikla umræðu og virkar jafnvel á mann eins og samfélagið verði dofið fyrir þessu öllu saman og enginn geri neitt nema bara gagnrýna. Það breytist ekkert.

Bíðið bara þangað til aftur verður farið að reyna að kroppa í orkuauðlindina okkar og stinga uppá því að gott væri að hluta niður Landsvirkjun og losa þar um eitthvert fé fyrir ríkissjóð.

Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri á Akureyri

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00