Fara í efni
Umræðan

Rokkið og kvótinn

Þegar ég flutti norður á Akureyri fyrir ca 18 árum síðan, áttaði ég mig á því að á Ísland búa allavega tvær þjóðir. Já, já sólin skín og allt það og alltaf gott veður á Akureyri og rigning fyrir sunnan, en ég tók eftir fleiru. Í Listagilinu kynntist ég menningarlífi Akureyrar, músík, gjörningalist, myndlist og öllu þessu dásamlega fólki og list þeirra sem fóðraði andlega heilsu mína.

Rokkið kom sérstaklega á óvart

Ég alin upp í Reykjavík, Melarokkið, Rokk í Reykjavík, kjallarinn í Tunglinu, tónleikarnir í höllinni, konsertarnir á Gauk á stöng, bönd eins og Purrkur Pillnikk, Fræbblarnir, Risaeðlurnar, Spilverkið, Taugadeildin, The Bodies og Baraflokkurinn sem er svo Akureyrískur, við eignuðum okkar hann, sorry krakkar.

Á Akureyri var rokk sem ég þekkti ekki neitt. Alls kyns bönd að spila með snilldar tónlistarfólki. Á meðan Bó Hall var með afmælisveislu í Hörpunni var rokk-kóngur Akureyrar, Kristján Pétur Sigurðsson sama kvöld í kjallaranum á menningar apparatinu Populus Tremula að halda upp á sitt sextugs afmæli, Kristján í öllu sínu veldi, hvert einasta kíló magnþrungið rokki og sögu rokks Akureyrar. Magnað kvöld. Akureysk bönd sem ég eins og áður sagði þekkti hvorki haus né sporð á eins og LOST, nú auðvitað Hvanndalsbræður, Toy Machine, Dægurlaga pönk hljómsveitin Húfa, Helgi og hljóðfæraleikararnir voru glæný fyrirbæri fyrir mér. Ég furða mig enn á þessu.

Og það er fleira sem kona kemst að er hún flytur út á land, hið ósýnilega vald sem engin talar um. Sveitarstjórnin hefur vald til þess að framkvæma að einhverju leyti en með samþykki hins ósýnilega eiganda samfélagsins. Fasteignaeigandinn, veitingahússeigandinn og þessi sem á fiskinn í sjónum. Þessi kúgun birtist allt um kring, umvefjandi sem gaddavír, fáir tala opinskátt um, nánast engin þó svo skoðanakannanir sýni að um 70 prósent þjóðarinnar vilji róttækar breytingar á kvótakerfinu, vill fá fiskinn sinn til baka. Fólk lítur yfir öxl sér og hvíslar, í stað þess að opna kjaftinn og segja hug sinn og hampar þeim í staðinn kvótagreifunum sem umlykja allt hér norðan heiða. Kvótagreifarnir henda aurum í skíðalyftur og einhverjar dýnur í fimleikahúsinu, bærinn þarf að gera, græja og borga rest, en þeir taka allt kreditið, státa sig af þessum krónum sem eru smámynt í hlutfalli við heildarmyndina, arðinn sem er með réttu fyrir börn og börn barnanna okkar en svo er nú ekki nema við breytum kerfinu með einföldum lögum og leyfum fólkinu, lýðræðinu að ráða för.

Þetta er veruleikinn sem er hulinn augum okkar, eins og rokkið í Reykjavík og rokkið á Akureyri, tveir heimar sem við búum við, hinn huldi sem enginn talar um og þessi þar sem alltaf er gott veður.

Afar mínir voru báðir á sjó, annar var skipstjóri og hinn bátasmiður. Ég hef því miður aldrei verið á sjó en alltaf langað að prófa, langar að kunna að veiða og fiska og verka fiskinn. Mín framtíðarsýn fyrir mig og börnin mín og börn barnanna minn er sú að geta veitt í soðið á duggunni minni, geta róið út við dagrenningu, ein með sjálfri mér og stönginni, að sjávarplássin verði aftur sjávarpláss með lífi á höfninni í kringum landið. Og auðvitað rokkið, að allir landsmenn fái að kynnast öllu rokkinu sem er um allt land. Þetta er sú framtíðarsýn sem Sósíalistaflokkur Íslands er með líka, heppin ég og heppin þú kæri lesandi, að við erum risin upp og munum getað fiskað og róið, rokkað og rólað hvar sem er á landinu.

Draumurinn um Ísland, hið hreina og fagra, óspillta og kröftuga tóku kvótagreifarnir og halda fast. Nú er komið að okkur að hreinsa til.

Guðrún Þórsdóttir skipar þriðja sæti á lista Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum á morgun.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00