Fara í efni
Umræðan

Rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila

Að undanförnu hefur farið fram nokkur umræða um málefni aldraðra eftir að Akureyrarbær ákvað að segja sig frá samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem annast málefni sjúkratryggðra fyrir hönd ríkisins. Ákvörðun bæjarstjórnar kemur í kjölfar hallareksturs undanfarinna ára á rekstri heimila er annast hjúkrunar- og dvalarþjónustu fyrir sjúkratryggða í umboði SÍ en án formlegs samnings til fjölda ára.

SÍ bera ábyrgð á fjármögnun rekstrar að mestu leyti og verður að telja undarlegt að allan þennan tíma hafi ekki tekist að ná sátt um þennan rekstur, þjónustustig og eðlileg samskipti bæjarins og SÍ, sem leitt hefur til þess að Akureyrarbær hefur tekið á sig þau útgjöld sem SÍ hafa ekki talið sér skylt að greiða. Svo virðist sem orkunni sé eytt í hnútukast milli aðila og málefnum aldraðra kastað á milli líkt og fjöreggi í stað þess að ganga til lausnamiðaðrar vinnu.

Eftir þessa ákvörðun bæjarstjórnar hefur verið greint frá hugmyndum um nýjan rekstraraðila til að taka við þessum málaflokki.

Um tíma átti Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka við verkefninu, en nú er farið að leita eftir aðilum sem gætu verið reiðubúnir að taka þetta verkefni að sér. Það sætir verulegri furðu að svo sé komið að best sé að láta „einhverja“ aðila sinna þessu viðkvæma verkefni í stað þess að ganga til verka um lausn. Slíkar aðilabreytingar losa um réttindi starfsmanna og auka á fjarlægð milli þjónustunnar og annarra þjónustu sem bæjarfélagið er veita.

Í skýrslu KMPG sem gerð var 2016 fyrir Akureyrarbæ um þjónustu við aldraða kemur fram að fyrirkomulag rekstrar dvalar og hjúkrunarheimila sé m.a. með eftirfarandi hætti:

  • Sjálfseignarstofnanir (Eir, Grund, Skjól, Hrafnista)
  • Einkarekstur (Sóltún)
  • Rekstur Sveitarfélaga (ÖA, Grenilundur)
  • Rekstur á vegum ríkisins (Sunnuhlíð, Sólvangur)

Mikill halli er á rekstri margra hjúkrunarheimila, en ekki allra. Nokkrum rekstraraðilum hefur tekist að standa svo að rekstri þessarar þjónustu að verkið hafi skilað þeim mun skárri afkomu.

Bæjarfélagið hefur fjölþættar aðrar skyldur við aldraða sem verður að sinna. Hafa ber í huga að þessi þjónustuhópur er lítt fær um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jafnframt eru fasteignir í eigu bæjarins undir í þessu verkefni, sem hafa því miður ekki fengið nauðsynlegt viðhald og uppfylla ekki viðmið um aðbúnað. Undantekning frá því er sú glæsilega aðstaða sem hjúkrunarsjúklingum er veitt í Lögmannshlíð.

Með fjölgun aldraðra eykst þörf fyrir nýjar áherslur í heimaþjónustu og fjölþættar hugmyndir hafa komið fram um þær úrlausnir til að draga úr þörf fyrir fjölgun dvalar- og hjúkrunarrýma. Bæjarstjórn Akureyrar á að vera virkur aðili í þeirri umræðu svo kostnaður við breytta þjónustu leggist með réttlátum hætti á bæjarfélagið. Fjölþættir möguleikar til að auka öryggi, sjálfstæði og vellíðan fólks á eigin heimilum er verkefni sem sinna þarf af krafti og af hagkvæmni.

Það er óásættanlegt að ekki sé hægt með skýrum hætti að sjá hvaða frávik voru að valda því að rekstur sjúkratryggðra færðist með auknum þunga á sveitarfélagið (sveitarfélögin). Stjórnvöld geta ekki gengið svo frá borði gagnvart fortíðinni að uppsafnaður hallarekstur sé ekki fullkomlega skýrður og bæjarfélagið verður jafnframt að skýra það fyrir skattgreiðendum hvers vegna það hefur ekki náð tökum á rekstri, ef satt reynist. Fortíðinni má ekki sópa undir teppið, bæjarbúar eiga rétt á því að þessi mynd sé skýrð á fullnægjandi hátt.

Nú þegar SÍ telja að hægt sé að semja við þriðja aðila um rekstur þeirra þjónustuþátta sem fellur undir þeirra svið, hlýtur að vakna sú spurning af hverju er ekki hægt að gera slíkt hið sama gagnvart sveitarfélaginu. Það hlýtur að vera umhugsunarvert ef SÍ finna aðila sem eru reiðubúnir til að veita þessa þjónustu við aldraða í stað Akureyrarbæjar miðað við óbreytt framlög. Við þekkjum af langri reynslu að sú aðferðafræði að úthýsa þjónustu hefur sín takmörk og leiðir ekki endilega til bættrar þjónustu né lækkunar kostnaðar. Það ætti því að vera jafn auðvelt fyrir SÍ að semja við Akureyrarbæ gagnvart framtíðinni, eins og við aðra aðila.

Þó undirritaður sé talsmaður einkaframtaks þá getur það vart staðist að einkarekstur geti náð hagkvæmari samningum við SÍ, en Akureyrarbær þegar horft er til arðsemi og áhættu af því að yfirtaka slíkan rekstur, nema með því móti að samnýta þjónustu hjá stærri aðila og þá væntanlega á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ekkert sjálfgefið við það að sveitarfélög annist rekstur öldrunaheimila, en vegna víðtækrar annarrar þjónustu við aldraða mætti álíta að ákveðin samlegðaráhrif slíkrar nærþjónustu væri heppilegt rekstrarform. Aldraðir eiga þann rétt að samfélagið taki á þeirra málum af festu og öryggi, búi þeim sem besta aðstöðu. Akureyrarbær hefur sinnt þessu verkefni í áratugi og á að hafa metnað til að sinna þessu verkefni áfram.

Bæjarstjórn verður að skýra það fyrir skattgreiðendum hvers vegna hallarekstur hafi verið látinn viðgangast til fjölda ára og ekki gripið til aðgerða fyrr en nú. Jafnframt verður að skýra af hverju hefur þjónustunni verið sinnt án samnings við SÍ í meir en áratug.

Sú leið að rjúka upp á nef sér og kvarta undan skilningsleysi SÍ og takmarkaðs samningsvilja leiðir ekki til lausnar.

Bæjarbúar eiga rétt á því að vita hvað veldur því að SÍ sjá ekki sömu augum og bæjaryfirvöld ástæður langvarandi rekstrarhalla. Bæjarbúar eiga líka rétt á því að vita af hverju bæjarstjórn hefur til fjölda ára greitt úr þeirra sjóði framlög til þessara stofnana. Bæjarsjóður er ekki uppspretta auðs og ekki hlutverk hans að greiða rekstur ríkisins í þessum málaflokki, ef rétt reynist.

Sigurður J. Sigurðsson er fyrrverandi bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar.

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Franz Árnason skrifar
25. janúar 2025 | kl. 06:00

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa

Hlín Bolladóttir skrifar
24. janúar 2025 | kl. 17:30

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30