Reisum fallegasta húsið við Norðurgötu
Hér á Akureyri.net hefur lesendum verið sýndar þrjár hugmyndir að löngu tímabærri uppbyggingu við Norðurgötu. Ég tel að Hugmynd 1 sem sjá má á meðfylgjandi mynd sé heppilegasta útfærslan og ætla ég að rökstyðja hér af hverju.
Oddeyrin er eitt dýrmætasta svæðið sem Akureyringar eiga. Þar er sagt að veðrið sé betra en annarsstaðar á Akureyri. Þar er flatasti hluti Akureyrar og besta byggingarlandið þó áskoranir séu næst sjónum. Þar eru mörg og mismunandi hús, þau elstu syðst, mörg hver afar falleg. Oddeyrin er einnig við hliðina á miðbænum, eina hverfið austan við hann, og getur því notið miðbæjarstarfseminnar betur en mörg önnur hverfi. Á sama hátt er Oddeyrin mikilvæg til að styðja við miðbæinn, að á Akureyri sé öflugur miðbær. Að öllu eðlilegu ætti Oddeyrin að vera eftirsóttasta og dýrasta hverfi bæjarins og sérstakt stolt Akureyringa.
Ég er þeirrar skoðunar að Oddeyrin ætti að vera mesta „borgarhverfið“ á Akureyri. Hverfið þar sem auðveldast væri að eiga heima án þess að eiga bíl, þéttasta hverfið og það fallegasta með fallegustu húsunum. Eftirsóttasta hverfið fyrir þá sem vilja ganga eða nota hjól í stað bíls.
Hugmynd 1 er einfaldlega fallegasta útfærslan að þessum þremur og styður best við góða nýtingu á dýrmætu landi Oddeyrarinnar.
En felur hugmynd 1 í sér of háa byggingu fyrir Oddeyrina? Hér á annarri mynd má sjá Gránufélagsgötu 39-41 einnig á Oddeyri ekki svo langt frá. Eins og sjá má er hér um að ræða grunnan kjallara (næstum því hæð en ekki kjallari), tvær hæðir og ris. Í hugmynd 1 er þetta svipað nema í stað risins er hæð undir risi við Norðurgötu. Hæðin undir risi er vissulega hærri en risið með kvistunum í Gránufélagsgötu. En kjallarahæðin virðist vera hærri á Gránufélagsgötunni en í hugmynd 1. Í heildina er hugmynd 1 við Norðurgötu þó líklega aðeins hærra hús en Gránufélagsgata 39-41 en þetta eru samt ámóta hús og ekki hefur verið amast við húsinu við Gránufélagsgötu það ég veit.
Gránufélagsgata 39-41. Ljósmynd: Arnór Bliki Hallmundsson
Ég tel því hugmynd 1 alls ekki innihalda of hátt hús fyrir Oddeyrina. Á Oddeyrinni eru ýmiskonar hús eins og áður sagði og mörg þeirra eru lágreist. Þótt inn á milli séu hús eins og hugmynd 1 og Gránufélagsgata 39-41 mun Oddeyrin samt sem áður verða bjart hverfi. En það á einmitt að vera keppikefli að nýta þá reiti á Oddeyrinni sem gefast og eru ekki þegar byggðir til að byggja á þeim falleg hús í klassískum stíl sem eru nokkrar hæðir og auka þéttleikann í hverfinu.
Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskólann á Akureyri