Raforkuverð áfram lágt og stöðugt
Öll sala Landsvirkjunar á upprunaábyrgðum raforku er til fyrirtækja og einstaklinga á meginlandi Evrópu. Árið 2021 voru tekjur vegna sölunnar 1 milljarður kr. og á síðasta ári 2 milljarðar kr. Við gerum ráð fyrir að nær öll sala okkar verði áfram á Evrópumarkaði. Það er því fásinna að halda því fram að raforkuverð á Íslandi rjúki í hæstu hæðir, þótt upprunaábyrgðirnar fylgi ekki lengur frítt með raforkunni til sölufyrirtækja hér á landi.
Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri á Akureyri skrifaði pistil á þennan vefmiðil 9. janúar sl. þar sem hann hélt því fram að kerfi upprunaábyrgða gengi á einhvern hátt gegn hagsmunum okkar sem þjóðar og eigenda orkuauðlindanna og Landsvirkjunar. Því fer hins vegar víðs fjarri. Landsvirkjun, orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar, hefur sífellt meiri tekjur af þessu kerfi og það án þess að lágt og stöðugt raforkuverð hér á landi haggist.
Engin skylda að kaupa
Staðan hér á landi er núna sú, að kaupendur raforku ráða því sjálfir hvort þeir vilja kaupa orkuna án upprunaábyrgða – sem þýðir að rafmagnsreikningurinn þeirra breytist ekkert – eða kaupa orkuna með ábyrgðum og greiða þá hærra verð. Sjálft raforkuverðið er ekki nema um fjórðungur reikningsins um hver mánaðamót. Jafnvel þótt rafmagnið hækkaði um 15-25%, eins og Hólmgeir reiknar sig fram til, þá myndi mánaðarlegur rafmagnsreikningur aldrei hækka sem því næmi. Raunin er sú að hækkun á rafmagnsreikningi meðalheimilis eða fyrirtækis myndi nema um 2%, ef notandi rafmagnsins kysi, af fúsum og frjálsum vilja, að kaupa upprunaábyrgð.
Evrópsku kerfi upprunaábyrgða, sem Ísland tekur þátt í vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu, er fyrst og fremst ætlað að hvetja til grænnar orkuvinnslu. Því er beinlínis ætlað að styrkja hag þeirra orkufyrirtækja sem vinna græna orku þannig að þau fái hærra verð fyrir orkuna. Önnur orkufyrirtæki munu leggja sig fram um að snúa af braut orkuvinnslu með kolum, jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku þegar þau sjá efnahagslegan hvata af grænni vinnslu. Þessi breyting er þegar að verða og vonandi munum við lifa að sjá full orkuskipti raungerast í heiminum.
Bókhaldskerfi
Þar til orkuskipti komast á ætlum við að nota þetta kerfi upprunaábyrgða, sem er ekkert annað en bókhaldskerfi. Þar skiptir engu hvort fyrirtæki á Spáni, sem kaupir upprunaábyrgðir af Landsvirkjun, á möguleika á að fá rafmagnið okkar í innstunguna hjá sér. Meginmálið er að spænska fyrirtækið hefur ákveðið að greiða aukalega til að styðja við græna orkuvinnslu.
Til að koma í veg fyrir að meira sé selt af upprunaábyrgðum en orkuvinnslan segir til um er haldið nákvæmt bókhald. Þegar við seljum ábyrgðir fyrir 100 megavattstunda raforkuvinnslu þurfum við að færa til bókar okkar megin 100 megavattstundir af orkunni á meginlandi Evrópu og í þeim hlutföllum sem þar eru unnar, þ.e. ákveðið magn af kolum, jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. Sú gráa orka færist í kreditdálkinn. Af því að þetta er orkubókhald, algjörlega óháð því hvar orkan á uppruna sinn eða hvort Ísland er beintengt evrópskum orkumarkaði.
Köstum ekki verðmætum á glæ
Landsvirkjun mun ekki láta það viðgangast að verðmætunum sem felast í upprunaábyrgðum og verða sífellt eftirsóttari á alþjóðlegum markaði verði kastað á glæ. Verðmætum sem námu 2 milljörðum kr. á nýliðnu ári og gætu numið allt að 15 milljörðum kr. á ári þegar fram í sækir, haldist verðið svipað og verið hefur undanfarna mánuði. Það fé nýtist til að byggja upp aukna, græna orkuvinnslu, okkur öllum til hagsbóta.
Við ætlum hér eftir sem hingað til að reka orkufyrirtæki þjóðarinnar með sóma. Í því felst að tryggja þjóðinni arð af orkuauðlindinni, hvort sem er með sölu raforku eða upprunaábyrgða.
Valur Ægisson er forstöðumaður Viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun