Rætur
Fjórar ungar konur lögðu leið sína í Hof á sunnudaginn til að spila kammermúsík eða stofutónlist eins og þetta listform heitir á íslensku. Tvær þeirra, Hrafhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari ólust upp á Akureyri og eru „okkar“ nemendur. Með Önnu Elísabetu Sigurðardóttur víoluleikari og Sólveigu Steinþórsdóttur fiðluleikara hafa þær myndað píanókvartett. Þær kynntu sjálfar tónlistina á látlausan en einlægan hátt, og þrátt fyrir vindbyl og grámygjulegt veður var mjög vel mætt.
Kammertónlist krefst geysilegrar færni, samvinnu og samstillingar tóna. Þær spiluðu fyrst eina kammerverk af þessu tagi sem stórtónskáldið Gustav Mahler samdi. Verk sem leiddi svo inn í nútímaverk Aldreds Schnittke, tónverk sem tengdist verki Mahlers. Strax á fyrstu tónum var ljóst að hér væri ekki um venjulegan flutning að ræða. Þar var einhver blanda af mýkt og styrk, tónarnir flæddu milli hljóðfæra eins og fljót af kvikasilfri. Stuttu stefin sem Mahler fléttar svo meistaralega milli hljóðfæra köstuðust mjúklega milli bakka þessa silfurfljóts svo kröftuglega en í senn áreynslulaust að verkið var næstum eins og eilífður straumur. Síðan kom verk Schnittke, sem var meira eins og röð af steinsúlum í hrjóstrugu landslagi. Hugur undirritaðs leitaði óhjákvæmilega frekar til steinsteyptra mannvirkja austantjalds arkitektúrs í fæðingalandi höfundar.
Síðast fyrir hlé var Íslandsfrumflutningur á nútímaverki Judith Weir. Stórkostleg, ögrandi tónsmíð en í senn falleg. Stundum þegar nútímaverk eru flutt með ómstríðum og krassandi hljómum, óvenjulegri notkun hljóðfæra og effekta, verður freistandi að nota ljótari, óvandaðri eða jafnvel falska tóna, en hér var allt flutt af þvílíkri alúð og nákvæmni. Samspilið milli flytjenda var eins og um væri að ræða eitt stórt hljóðfæri.
Eftir hlé var fluttur píanókvartett Schumanns, og var það fallega og innilega flutt og mjög passlegt að skilja á milli hinna verkanna með hléi.
Það er ekki oft að undirritaður mæti á klassíska tónleika og heyri verki í fyrsta skipti, en svo var það fyrir mig með þessa tónleika. Mér leið eins og þegar ég var unglingur og uppgötvaði nýtt klassiskt tónverk í BBC eða á tónleikum. Það var eins og þegar Howard Carter opnaði grafhýsi Tútankhamúns forðum: What can you see? „Things! Wonderful things!“
Það gefur manni trú að starfið sem unnið hefur verið á Íslandi og sérstaklega á Akureyri hafi skilað sér í svo frábæru listafólki. Það eru ýmis ljón á veginum í dag sem ógna því að þessi þróun haldi áfram. Það er okkar að tryggja að hið góða tónlistarstarf fái brautargengi um ókomna tíð.
Michael Jón Clarke er formaður Tónlistarfélags Akureyrar