Fara í efni
Umræðan

Ráðumst gegn atvinnuleysinu

Um 21 þúsund manns voru á atvinnuleysisskrá nú um áramótin. Heimsfaraldurinn hefur tekið sinn toll, en við erum farin að sjá ljósið við enda ganganna. Með bóluefni færist lífið vonandi á nýjan leik í eðlilegt horf og flest bendir til þess að komandi ár verði ár viðspyrnu.

Það ríkir sem sagt ákveðin bjartsýni, ekki veitir af, enginn kemur til með að sakna 2020.

Atvinnuleysi er helsta ógn heimilanna

Eitt stærsta viðfangsefni samfélagsins er að minnka atvinnuleysi. Rannsóknir sýna að langtíma-atvinnuleysi er eitt mesta böl sem einstaklingar geta orðið fyrir. Mikilvægt er að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og skapa þannig ný störf. Vísbendingar eru um að ójöfnuður fari vaxandi vegna heimsfaraldursins, verkalýðshreyfingin mun berjast gegn þeirri þróun.

Samkvæmt greiningu Alþýðusambands Íslands gefur það augaleið að atvinnuleysi þýðir verulegt tekjufall fyrir heimilin í landinu.

Nauðsynlegt er að ríkið lengi þann tíma sem fólk getur verið á tekjutengdum bótum, auk þess sem hækka þarf grunnatvinnuleysisbæturnar.

Verðbólgu verður að halda niðri

Það er deginum ljósara að styrkja þarf þá sem lægstar hafa tekjurnar. Beita verður öllum ráðum til þess að verðbólgan fari ekki á flug með afleiðingum sem við þekkjum öll frá fyrri árum.

Gleymum því heldur ekki að vaxtalækkanir á nýliðnu ári, greiðsluhlé lána, úttekt séreignarsparnaðar og fleiri ráðstafanir léttu undir með heimilinum og stuðluðu að aukinni einkaneyslu og komu meðal annars atvinnulífinu til góða. Þessar aðgerðir er ekki hægt að endurtaka ár eftir ár, það segir sig sjálft.

Á þingi Alþýðusambands Íslands í nóvember var rækilega undirstrikað mikilvægi þess að ríkisfjármunum verði beitt af fullum þunga til að milda höggið af faraldrinum og því með öllu hafnað að launþegar eigi einir að bera kostnaðinn af björgunaraðgerðum stjórnvalda.

Alþýðusambandið bendir á að verkefni hins opinbera sé að minnka atvinnuleysi og tryggja að möguleg verðbólga og gengisfall krónunnar valdi ekki afkomu- og skuldavanda fyrir einstaklinga og heimili.

Nærri þriðjungur svarenda hefur misst vinnuna vegna COVID-19

Gallup hefur á undanförnum árum gert umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir fyrir Einingu-Iðju. Margir þættir eru skoðaðir og eru niðurstöðurnar afar gagnlegar fyrir félagið, því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Slík könnun var gerð í vetur og niðurstöður liggja nú fyrir og eru aðgengilegar á vef félagsins, ein.is.

Tæp þrjátíu prósent þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust núna vera án atvinnu eða hafa orðið atvinnulaus hluta ársins vegna afleiðinga af COVID-19.

Svörin eru mismunandi eftir atvinnugreinum, eins og við var að búast er hlutfallið hæst í ferðaþjónustunni. Niðurstaða sýnir vel hversu gríðarleg áhrif faraldurinn hefur haft á launafólk.

Heildarlaun 545 þúsund krónur í september

Gallup spurði um heildarlaun í aðalstarfi í september. Heildarlaun karla voru að jafnaði kr. 574.912 og höfðu hækkað um kr. 13.996 miðað við sama mánuð árið 2019.

Konur voru að jafnaði með kr. 509.884 í heildarlaun í mánuðinum og hækkuðu um kr. 24.253 miðað við sama mánuð í fyrra.

Meðallaunin voru að jafnaði kr. 545.012 í mánuðinum og hækkuðu um kr. 21.738 miðað við september árið 2019.

Þessar launahækkanir má að langstærstum hluta rekja til lífskjarasamninganna svokölluðu. Vinnutími hefur sömuleiðis áhrif á þróun heildarlauna á tímabilinu, svo sem yfirvinna en nokkuð dró úr fjölda yfirvinnutíma.

Hvernig gengur að standa skil á afborgunum af lánum?

Gallup spurði líka hvort fólk hefði átt í erfiðleikum með að standa skil á afborgunum af lánum á síðustu 12 mánuðum.

Tæp tuttugu prósent svöruðu þessari spurningu játandi. Þegar aldursdreifingin er skoðuð, kemur í ljós að 29% á aldrinum 18-24 ára höfðu átt í erfiðleikum með að standa í skilum.

Yfirdráttarlánin voru í flestum tilvikum nefnd þegar spurt var í tegund lána og þar á eftir raðgreiðslulán og húsnæðislán.

Miðað við árið á undan hefur hlutfall þeirra sem segjast vera í vandræðum með að standa í skilum lækkað nokkuð.

Þetta er auðvitað jákvæð þróun, líklega má m.a. rekja ástæðuna til þess að vextir hafa lækkað og í kjölfarið hafa margir breytt húsnæðisskuldum sínum.

Gleðilegt ár!

Sólin hækkar á lofti dag frá degi. Fyrstu Íslendingarnir hafa verið bólusettir fyrir kórónuveirunni og við trúum því að það birti til í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar á þessu ári.

Verkalýðshreyfingin mun standa vörð um hagsmuni launþega og leggja lóð sín á vogarskálarnar, nú þegar hjólin fara að snúast hraðar og þjóðin kemst aftur á réttan kjöl.

Samkvæmt Gallup-könnuninni er mikil ánægja með þjónustu Einingar-Iðju, árangur félagsins byggist á virkri þátttöku félagsmanna.

Fyrir hönd Einingar-Iðju sendi ég félagsmönnum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár.

Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00