Fara í efni
Umræðan

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Kæri Einar.
 
Ég er örlítið eldri en þú, fædd 1963, og þegar hér er komið við sögu hef ég kennt í 36 ár og hef ýmsa fjöruna sopið á þeim vettvangi. Starf kennarans er yfirgripsmikið og flókið og ekki síst í nútímanum. Það snýst um allskyns fræði en það snýst líka að miklu leyti um mennskuna, að mæta mun yngra fólki þar sem það er statt í þroska. Það segir sig sjálft að samfélagið í heild hefur mikil áhrif á skólastarf. Staðan er þannig í nútímanum að mörgum börnum líður illa, af allskonar ástæðum og það er margt sem hefur áhrif á þau. Því verður ekki undan því vikist að maður sé sjálfur þokkalega ærlegur einstaklingur og reyni að gera sitt besta til að móta einstaklinga sem eru sjálfsöruggir og fara út í lífið með kærleika, tillitsemi og sanngirni „að vopni.“ Það er nauðsynlegt til að samfélag virki á jákvæðan og trúverðugan hátt þannig að allir geti vel við unað. Undanfarið höfum við haft áhyggjur af vaxandi ofbeldi í íslensku samfélagi og þær áhyggjur eru raunverulegar því við höfum þurft að takast á við hræðilega atburði og það ætti að vera okkar stærsta verkefni nú að greina hversvegna við erum komin á þessa braut. Er íslenskt samfélag orðið svo sjálflægt að við getum ekki mætt náunganum í kærleika? Er orðin svona mikil mismunun í samfélaginu okkar að almenningur sé orðinn reiður?
 
Ræðan sem þú fluttir kennurum við pallborðsumræður á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í vikunni hefur valdið mikilli reiði. Enn og aftur eru kennarar að berjast fyrir afkomu sinni, eðlilegum launum miðað við menntun og ábyrgð og þú sem æðsti yfirmaður kennara í Reykjavíkurborg lést þig hafa það að tala niður til þúsunda starfsmanna og gera lítið úr störfum þeirra, og þú hafði marga með þér sem klöppuðu fyrir ofbeldinu.
 
Ef þessi staða hefði komið upp í kennslustofu hjá mér, segjum bara að nemandi stæði upp og gerði lítið úr öðrum og stór hluti af bekknum léti sig hafa það að klappa með til að líta betur út í augum þess sem bæri með sér hrokann þá myndi ég gera úr því stórmál! Ég myndi taka nemandann á eintal til að ræða hegðunina, ég myndi hringja heim og ræða við foreldra viðkomandi og boða þá á minn fund og ég myndi boða til almenns foreldrafundar til að ræða atvikið og þátttöku þeirra sem voru viðhlægjendur. Vegna þess að ég vil ekki að skjólstæðingar mínir fari út í lífið með hrokann „að vopni.“ Það verður engum að gæfu! Starfsfólk skóla gerir sér almennt grein fyrir að það þurfi margþátta samstöðu til að uppræta ofbeldi. Börn nefnilega læra það sem fyrir þeim er haft og börn fylgjast með því sem gerist í samfélaginu!
 
Mögulega er ég orðin of gömul til að finna til reiði vegna ummæla þinna. Ég finn frekar til sorgar og samúðar og velti fyrir mér hvernig þú hafðir það í þér að gera þetta sem háttsettur valdamaður. Þú varst ekki að segja neinn sannleika þarna heldur afhjúpaðir þú vanþekkingu þína á skólastarfi! Þú hefðir getað farið svo margar aðrar leiðir, t.d. að hafa áhrif á að starfið njóti virðingar, boðist til að kynna þér hversvegna kennarar þurfi að hlaupa svo hratt í störfum sínum sem raun ber vitni, hversvegna þeir brenna lífskertið svona hratt og hversvegna kennaramenntað fólk er ekki að skila sér inn í skólana. Mögulega getur þú borið við reynsluleysi í starfi og/eða beðið þúsundir manna afsökunar á hrokanum, sem fæðist yfirleitt í fáfræði, eða ákveðið að næra viðhlægjendur þína áfram og sjá til hverju það skilar við næstu kosningar! En altént þá óska ég þér farsældar við ákvarðanatöku í framtíðinni.
 
Bestu kveðjur,
Hlín Bolladóttir grunnskólakennari
 
Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00