Fara í efni
Umræðan

Opið bréf til bæjarráðs Akureyrarbæjar

Fimmtudaginn 11. nóvember sl. var formlegt erindi frá Félagi eldri borgara á Akureyri (EBAK) tekið fyrir í bæjarráði Akureyrarbæjar. Þar var óskað eftir aðkomu bæjarins að byggingu og rekstri þjónustumiðstöðvar fyrir eldra fólk í Holtahverfi-norður. Við lásum á netinu að bæjarráð hefði ekki getað orðið við erindinu en ekkert samband var haft við okkur símleiðis þótt upplýsingar um símanúmer hefðu verið í bréfi okkar, svo það hefði átt að vera auðvelt.

Búfesti lét teikna upp nyrsta hluta Holtahverfis austan Krossanesbrautar árið 2018. Þar var gert ráð fyrir allt að 150 leiguíbúðum, að mestu í fjölbýlis- og raðhúsum. Þar af voru 3 fjölbýlishús sérstaklega ætluð aldurshópnum 60 ára og eldri, samtals með 98 íbúðum, í samstarfi við EBAK. Þá var einnig gert ráð fyrir að þjónustubygging tengdi saman tvö fjölbýlishúsin svo eldri íbúar svæðisins hefðu aðgang að þeirri nauðsynlegu þjónustu, sem öllum bæjarfélögum er skylt að veita lögum samkvæmt. Þarna var hagkvæmni sérstaklega höfð að leiðarljósi, þar sem vitaskuld er skynsamlegra fyrir pyngju Akureyrarbæjar að byggja upp þjónustu sem næst þeim, sem hennar njóta í stað þess að dreifa henni um bæinn. Allt þetta var gert með vitund og jákvæðum undirtektum skipulagsyfirvalda Akureyrarbæjar.

Því miður fékk Búfesti ekki úthlutað nema fjórum fjölbýlishúsum og eru a.m.k. tvö þeirra ætluð fyrir umræddan aldurshóp og á milli þeirra hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir þjónusturými. Umrætt hverfi er ekki hentugt fyrir barnafjölskyldur því fara þarf yfir tvær umferðargötur til að komast í grunnskóla. Hins vegar er það tilvalið fyrir eldra fólk til búsetu, bæði í leigu- og eignaríbúðum, þess vegna er brýn nauðsyn á umræddri þjónustu.

Það fjölgar stöðugt í eldri aldurshópunum og það er sameiginleg ósk allra, í það minnsta á pappírum og í orði kveðnu, að fólk geti búið sem lengst á eigin vegum. Til að það megi takast þurfa allir að leggjast á eitt við að tryggja fjölþætta búsetuvalkosti og viðeigandi þjónustu. Þjónustan er á margra höndum en algjör samhæfing er mjög mikilvæg til að ná sem bestum árangri. Það má kosta miklu til að fresta sem lengst þörf einstaklinga á dvöl á hjúkrunarheimilum, enda er það langdýrasti kosturinn sem til er.

Afsvör frá bænum eru engan veginn ný af nálinni. Þegar fyrst stóð til að EBAK fengi aðstöðu í Bugðusíðu 1 árið 2001 hafnaði félagið húsnæðinu í byrjun vegna þess að það væri of lítið fyrir félagsmiðstöð, en athuga mætti með möguleika á viðbyggingu. Félagar voru þá um 600. Félagið flutti samt með starfsemi sína inn í óbreytt húsnæði 2005. Félagar í EBAK eru nú rúmlega 1.900 og 153 fermetra salur segir ansi lítið fyrir þann hóp og það sama má segja um aðra hluta húsnæðisins. Önnur félagsmiðstöð fyrir fullorðna er staðsett í Víðilundi. Við hvora miðstöð fyrir sig eru tvö fjölbýlishús fyrir eldra fólk. Þar og í næsta nágrenni hafa myndast samfélög þessa hóps. Því miður var þess ekki gætt við skipulag í nágrenni félagsmiðstöðvanna að hafa rými fyrir fleiri fjölbýlishús en raun ber vitni.

Ekkert hefur verið gert til að bæta við húsnæði miðstöðvanna en þau nægja engan veginn til að þjónusta þá sem þangað vilja sækja og hindrar það alla framþróun. Það er því mjög brýnt að fá sem allra fyrst hentugt húsnæði fyrir aukin tómstundastörf eldri borgara, bæði á vegum EBAK og Akureyrarbæjar. Húsnæði sem er í grennd við heimili þeirra sem nýta þjónustuna.

Bæjaryfirvöldum hefur gengið mjög illa að forgangsraða fjármunum í þágu aldraðra og því bíða stór verkefni næstu bæjarstjórnar strax næsta vor. Flest eldra fólk hér í bæ hefur greitt gjöld til bæjarins svo áratugum skiptir og fjöldi 60 ára og eldri nálgast óðum 30% af fjölda íbúa á kjörskrá. Röðin er því komin að þeim að fá þá þjónustu sem þeim ber af hálfu sveitarfélagsins og er lágmarks krafa að hún jafnist á við þá þjónustu sem sveitarfélög af sambærilegri stærðargráðu veita. Stjórn EBAK er ákveðin í að gera það sem henni er unnt á næstu mánuðum til að þurfa ekki að lesa aftur sömu klausuna, „bæjarráð getur ekki orðið við erindinu“.

Hallgrímur Gíslason er formaður Félags eldri borgara á Akureyri.

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30