Fara í efni
Umræðan

Ómenning í fjallinu

Í ár eru 50 ár síðan ég fór fyrst á skíði í Hlíðarfjalli og síðan hefur fjallið verið einn uppáhaldsstaðurinn minn. Óteljandi eru stundirnar sem ég hef notið þess að renna mér í tæru fjallaloftinu með útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörðinn, hitta fólk og njóta þess að slaka á.

Á dögunum brugðum við hjónin okkur norður yfir helgi og fórum á skíði á laugardeginum við nánast fullkomnar aðstæður, vægt frost, sól og logn. Færið eins og best verður á kosið og loksins fengum við að prófa nýju stólalyftuna sem búið var að bíða eftir árum saman. Sem sé dásamlegur dagur á skíðum.

Nema hvað þegar við, eftir ríflega klukkutíma skíðun, ákváðum að hvíla okkur á pallinum við Strýtuna, brá okkur nokkuð þegar við sáum fjölda fólks sitja að áfengisdrykkju í hádeginu. Ýmist með bjór eða freyðivín í glösum. Þarna sat fólk með börnum sínum og jafnvel barnabörnum og teygaði mjöðinn af miklum móð. Þrír ungir menn virtust ætla að eiga langan laugardag, því þeir voru komnir í gírinn, höfðu hátt, reyktu og drukku hratt. Gutti, 10 til 12 ára, kom út úr skálanum með bjórglas í annarri hendi og vatnsglas í hinni, auðsjáanlega sendur til að sækja bjór fyrir einhvern. Maður hafði á tilfinningunni að maður væri mættur á barinn en ekki í fjallið, að viðbættum börnum.

Nú skal tekið fram að ég er enginn bindindismaður eins og þeir vita sem þekkja mig, en ég er hinsvegar á því að flest eigi sinn stað og sína stund. Það á ekki við um áfengisdrykkju á skíðasvæði snemma dags. Hvað þá innan um börn og unglinga sem eru þarna til að njóta heilnæmrar útiveru. Löngum hefur verið talið að útivera og íþróttir séu lykilatriði í að koma í veg fyrir áfengisneyslu ungmenna. Viljum við senda þeim þau skilaboð að skíði og áfengi eigi samleið?

Ekki tökum við börnin með okkur á barinn, en hver er munurinn á því og að fara með þau í fjallið þegar þessi bragur er á staðnum?

Sú var tíðin að flestir voru með kakó og samlokur í nesti, en nú þykir það líklega ekki nógu fínt. Enga sáum við með slíkar veitingar, í staðinn sat fólk að sumbli. Einhverra vegna ákváðu rekstaraðilar í Hlíðarfjalli að selja áfengi og þar með að normalísera áfengisdrykkju í útivistarparadís. En svona er þetta í Ölpunum segja ölþyrstir, þetta er menning. Er það virkilega? Er það menning að blanda saman íþróttaiðkun og áfengisdrykkju?

Það má reyndar benda á að hið fræga après ski er annars eðlis, því après er franska og þýðir eftir. Sem sé eftir skíðun. En drykkja í fjallinu á að mínu mati ekkert skylt við menningu, heldur er ómenning. Sem betur fer hafa staðarhaldarar í Bláfjöllum ekki elt Akureyringa í þessari vitleysu og þar sitja fjölskyldur enn saman með kakóið sitt og samlokurnar. Ég vona að svo verði áfram.

Adolf Ingi Erlingsson er brottfluttur skíðamaður

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00