Fara í efni
Umræðan

Oddeyrin - skortur á framtíðarsýn

Nú liggur fyrir rammaskipulag fyrir Oddeyri og búið að marka línur fyrir svæðið. Þó kom nokkuð hliðarhopp vegna hugmynda verktaka um uppbyggingu sem var í engu samhengi við aðalskipulagið sem samþykkt var fyrir skömmu. En bæjarbúar hafa sagt sína skoðun og aðalskipulagið - og Rammaskipulag fyrir Oddeyri heldur.

En það er ekki nægilegt að búa til fallega pappíra og stinga þeim ofan í skúffu. Orðum verða að fylgja athafnir. Við sem búum á Oddeyri vitum að áhugi bæjaryfirvalda og ráðamanna á Akureyri er í skötulíki með örfáum undantekningum. Innviðir hverfisins þarfnast mikillar uppbyggingar, svo mikillar að nauðsynlegt er að gera tímasetta heildstæða áætlun þar sem ásýnd og ástand hverfisins verði tekið til gagngerðar endurbyggingar og endurnýjunar. Á slíkri áætlun bólar hvergi og auglýsa þarf eftir áhuga skipulagsyfirvalda, umhverfisyfirvalda og bæjarstjórnar. Engan slíkan áhuga er að sjá í vinnu nefnda bæjarins og bæjarfulltrúa.

Langar að nefna örfá atriði sem lengi hefur verið fjallað um án árangurs.

  • Uppbygging gatna, þar er ástandið víða afar slæmt.
  • Gangstéttir og gangstígar.
  • Lýsing og ljósastaurar.
  • Auðar lóðir í gömlum götum (þarf að stuðla að nýtingu).
  • Rusl og vanhirtar lóðir.
  • Byggja upp ímynd hverfisins.
  • Framtíðarsýn fyrir uppbyggingu á Tanganum.

Margt fleira mætti nefna en ætla ekki að fara í smáatriði í þessum stutta pistli. Fyrst og fremst er ég að skrifa þetta og fleira í framtíðinni til að bæta úr tómlæti bæjaryfirvalda á Akureyri gagnvart Oddeyrinni.

Við Oddeyringar vitum hvernig staðið var að endurreisn Innbæjarins sem var ekki í sem bestu standi fyrir fáeinum árum. Núna er staðan til fyrirmyndar á þeim slóðum og Akureyri til sóma. Því miður er staða okkar hverfis verri og ekki til sóma á mörgum sviðum.

Vonandi eykst áhugi bæjaryfirvalda og bæjarfulltrúa á Oddeyri. Skilningur virðist afar takmarkaður á mikilvægi og sögu Oddeyrarinnar og það verður að breytast.

Kannski kemur sá tími að ferðamenn og aðrir gangi um Oddeyrina og skoði menningarverðmæti, sögu og falleg hús eins og um Innbæinn. En því miður er staðan víða þannig að það er ekki að gerast núna. Bæjaryfirvöld hafa sofið á verðinum.

Vonandi lendir nýja skipulagið, Rammaskipulag Oddeyrar ekki í enn einni möppunni á Skipulagssviðinu, og verði þar að minningum um það sem aldrei gerðist.

Ég skora á bæjaryfirvöld og bæjarfulltrúa að vakna af svefninum og búa til framtíðarsýn og uppbyggingaráætlun fyrir Oddeyri.

Við eigum hana öll.

Jón Ingi Cæsarsson er fyrrverandi formaður Skipulagsnefndar Akureyrar.

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30