Fara í efni
Umræðan

Norðurslóðamiðstöð Íslands á Akureyri

Nú í maí skilar Ísland af sér formennsku í Norðurskautsráðinu sem er mikilvægasti vettvangur samstarfs og samráðs um málefni Norðurslóða. Viðeigandi er að Alþingi marki sérstaka stefnu í málefnum svæðisins. Stefnan kveður á um að Íslandi muni sem friðsamt smáríki, miðja vegu milli norðurskautsríkja taka virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu um málefni norðurslóða sem hefur fest sig farsællega í sessi.

Ísland situr við sama borð og hin ríkin sjö í ráðinu, auk fulltrúa frumbyggja, og hefur tekið virkan þátt í starfi ráðsins. Aðildarríki skiptast á að fara með formennsku og hefur Ísland gengt því hlutverki tvisvar. Núverandi formennska Íslands hófst vorið 2019 og lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík 19.-20. maí 2021.

Brú vísinda og stjórnmála

Ráðið er hvorki alþjóðastofnun né setur almennt bindandi reglur. Því er ætlað að skapa samræður um málefni svæðisins, brúa vísindi og stjórnmál, skila tillögum að samstarfi og pólitískri stefnumótun sem farvegi fyrir samráð og samstarf við aðila utan svæðisins.

Aðildarríki Norðurslóðaráðsins eru auk Íslands, Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk sem fer með málefni Grænlands á norðurslóðum. Alls eiga þrettán önnur ríki áheyrnaraðild að ráðinu, auk stofnana og samtaka.

Samstaða um mikilvægi Akureyrar

Þverpólitískur starfshópur, sem ég átti sæti í, skilaði nýverið tillögum um eflingu Akureyrar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Þær tillögur hafa síðar skilað sér í þingsályktun sem utanríkisráðherra lagði fram og verður vonandi samþykkt á næstu vikum. Í þeim felast mikilvæg og jákvæð skilaboð til Akureyrar og Norðurlands og þeirra mörgu sem hafa starfað þar að norðurslóðamálum í allt að aldarfjórðung. Staðfesting og viðurkenning á faglegu starfi þeirra og treystir áframhaldandi forystu þeirra í þessum mikilvæga málaflokki. Á það sannarlega við um bæjarfélagið Akureyri, því Norðurheimskautsbaugur liggur í gegnum nyrsta byggðakjarna þess, Grímsey.

Þekkingarklasinn um Norðurslóðamál á Akureyri samanstendur af skrifstofum á vegum Norðurskautsráðsins, stofnunum og fyrirtækjum og býr yfir sérhæfingu á málefnum norðurslóða, í bæði innlendu og alþjóðlegu samhengi. Má þar nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem hefur frá árinu 1997 unnið að málefnum norðurslóða, skrifstofu Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) og skrifstofur tveggja af sex vinnuhópum Norðurskautsráðsins, um verndun lífríkis norðurslóða (CAFF) og um málefni hafsins (PAME). Þá hefur Háskólinn á Akureyri verið virkur hluti af háskólaneti norðurslóða (UArctic) og er einn stofnaðila þess. Háskólinn hefur til fjölda ára starfrækt Heimskautaréttarstofnun og þverfaglegt meistaranám í heimskautarétti. Þar er staða gestaprófessors í norðurslóðafræðum sem styrkt er í sameiningu af utanríkisráðuneytum Íslands og Noregs og kennd er við Fridtjof Nansen.

Norðurslóðasamstarf á Norðurlandi

Í klasanum er einnig Norðurslóðanet Íslands sem er vettvangur stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila. Þá hafa norðlensk fyrirtæki samtök sín á milli, „Arctic Services“, sem þjónusta meðal annars Grænland á sviði iðnaðar og tækni. Akureyrarbær hefur tekið virkan þátt í samtökum um eflingu byggðar á norðurslóðum, „Northern Forum“, og vettvangi borgar- og bæjarstjóra á norðurslóðum, „Arctic Mayors“.

Að auki hefur byggst upp á Norðurlandi samstarf um rannsóknir norðurslóða með þátttöku erlendra aðila svo sem Rannsóknastöðin að Kárhóli í Þingeyjarsveit, „China-Iceland Arctic Observatory“, og Norðurljósarannsóknastöð japönsku Pólrannsóknastofnunarinnar og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands á Tjörnesi. Að auki eru á Rannsóknastöðinni Rifi á Melrakkasléttu stundaðar alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum og vöktun viðkvæmra vistkerfa.

Ég er sannfærður um að í þessum þekkingarklasa um Norðurslóðamál á Akureyri felast mikil tækifæri til uppbyggingar. Norðurslóðamiðstöð Íslands styrkir stöðu Akureyrar til langrar framtíðar um leið og verkefnið sjálft laðar fólk til bæjarins í margvíslegum tilgangi, hvort sem er vísindastarfs, ráðstefnuhalds eða annars. Styrkir það aðrar atvinnugreinar í bænum og skapar tækifæri sem við sjáum mörg ekki í andránni.

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00