Fara í efni
Umræðan

Mýtur og fólk sem meinar vel

Vinnudeginum er að ljúka. Síminn tekur létt dansspor á borðshorninu og freistar heilans með loforði um endorfínfylltan ánægjuhroll ef ég bara seðja snjallsímafíkninni og kíki á þessi skilaboð sem voru að berast.

Hlekkur á pistilinn „Svona gætu aldraðir svindlað á lífeyriskerfinu ef … ?“ á akureyri.net.

„Er þetta rétt hjá Jóni Hjalta?“ spyr góður vinur.

Nei, það vantar töluvert inn í þessa lýsingu hjá honum þó að ég skilji alveg að þetta geti birst fólki svona. Það er alltaf gaman þegar að fólk sýnir lífeyrisréttindum áhuga, enda er í mörgum tilfellum um stærstu einstöku eign íslenskra heimila að ræða.

En varla hefur það eitthvað upp á sig að svara pistlinum og reyna að fylla í eyðurnar? Taka það á sig að vera uppnefndur „varðhundur kerfisins“ og allt það.

Jæja, reynum.

Af hverju má ekki skipta lífeyrisréttindum eftir 65 ára aldur eða ef annar makinn glímir við sjúkdóma eða heilsufar sem skerða lífslíkur?

Einfalda svarið er að lögin banna það (2. tl. 3. mgr. 14. gr. laga 129/1997 fyrir áhugasama). Flókna og leiðinlega svarið er að í tryggingafræðilegum útreikningum þá myndi slík ráðstöfun kosta auknar skuldir viðkomandi lífeyrissjóðs og þar með minnka réttindi annarra sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir eiga nefnilega nettó ekkert. Það er skuldbinding á bak við hverja krónu sem þeir varsla fyrir skjólstæðinga sína. Loforð um að greiða lífeyri við tilteknar aðstæður. Lög tilgreina hvernig standa skuli að því að veita þessi loforð og frá þeim geta sjóðir ekki vikið.

„Ég veit að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa ætíð brugðist hart gegn öllum hugmyndum um að sjóðsfélagar ættu ef til vill að eiga iðgjöld sín“ las ég í pistlinum.

Nei, ég er ekki alveg þar… Ég hef ekki sérstaka skoðun á því hvers konar réttindi iðgjöld sjóðfélaga eiga veita. Lögin segja okkur að við eigum að trygga tiltekið hlutfall meðallauna í eftirlaun eftir 40 ára starfsævi og líka örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Jú – sjóðfélagar hafa sett samþykktir sjóðsins upp í samræmi við þetta. Allt eins og lögin segja til um.

Svo eiga sjóðfélagar sannarlega réttindin sem iðgjaldið þeirra myndar. Hluti af iðgjöldunum fer í áfallatryggingar eins og lögin segja til um – það hlutfall fer lækkandi eftir aldri. Það er nefnilega dýrt að kaupa tekjutryggingu fyrir ungan einstakling út starfsævina og eftirlaun til viðbótar. Nú er ég örugglega búinn að missa áhuga flestra lesenda – meira að segja harðasta kjarna lífeyrismálafrömuða - en þið getið séð hvernig iðgjaldið skiptist í áfallatryggingar og sjóðssöfnun í töflu I í samþykktum Stapa.

„En getum við ekki fallist á að eftirlifandi maki eða sambúðaraðili haldi áfram að njóta góðs af lífeyrisréttindum hins látna ektamaka og ástvinar? Eða telja oddvitar lífeyriskerfisins réttlætinu þjónað með greiðslu makalífeyris í fimm ár?“ las ég líka.

Ætli ég sé „oddviti lífeyriskerfis“? Set á mig oddvitahattinn – hér eru settar fram spurningar sem þarf að svara.

Ég held að það sé enginn mótfallinn því að áfallatryggingar á borð við makalífeyri verði háar og vari lengi. Það þarf hins vegar að greiða fyrir þær. Og þið munið – lífeyrissjóðir eiga nettó ekkert, þannig að ef ein réttindi eru hækkuð verða önnur að lækka til að sjóðirnir eigi fyrir skuldum sínum. Ef áfallatryggingar á borð við makalífeyri eru hækkaðar þá verður að skerða eftirlaun á móti eða hækka iðgjöld, því auknir fjármunir til greiðslu lífeyris verða ekki til í tómarúmi.

Útfærsla á því þyrfti að koma fram með lagabreytingum og/eða í kjarasamningum. Lífeyrissjóðir eru nefnilega bara framkvæmd á tilteknum ákvæðum í kjarasamningum og lögum. Tryggingarnar sem lífeyrissjóðir bjóða upp á eru ekki geðþóttaákvörðun einhverra fárra aðila sem sitja í reykfylltum bakherbergjum og skammta gæðunum, þó svo að það sé áhugaverð og lífseig mýta. Lífeyrissjóðir úrskurða lífeyri í samræmi við lög og samþykktir sjóðanna. Þeir sem vilja breytingar á því verða að beina athygli sinni að Alþingi eða aðilum vinnumarkaðarins.

Sjóðfélagar eiga heimtingu á því að skilja réttindi sín í lífeyrissjóðum. Skárra væri það nú líka. Þess vegna erum við alltaf til í spjall á mannamáli um lífeyrismál við alla sem hafa áhuga. Stundum fleiri.

Jóhann Steinar Jóhannsson er framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs

  • Grein Jóns Hjaltasonar, sem varð kveikjan að skrifum Jóhanns Steinars, má lesa hér

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00