Fara í efni
Umræðan

Myndlist við ysta haf

Ef leitað er að heimsins nyrsta einhverju er líklegt að upp komi Svalbarði, þar er ótrúlega margt, meðal annars gallerí og listasafn. Ef við höldum okkur við Ísland er næsta víst að nyrsta listasafn landsins sé á Siglufirði. Eftir sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í Fjallabyggð heitir safnið Listasafn Fjallabyggðar og þar er saman kominn safnkostur þessara beggja kaupstaða.

Listasafn Fjallabyggðar er nú öllum til sýnis. Að vísu eru listaverkin ekki uppi á vegg í húsi, hið sameiginlega bæjarfélag býr ekki svo vel að eiga myndlistarhús. Hins vegar hefur safneignin nú verið ljósmynduð og sett á vefinn https://listaverk.fjallabyggd.is/ sem opnaður var 5. mars síðastliðinn, og þar er hægt að sjá öll verkin, merkt höfundum sínum, finna upplýsingar um listamennina og meira að segja geta stofnanir í bæjarfélaginu sótt um og fengið, gegn skilyrðum, lánuð listaverk til allt að 12 mánaða.

Á þessu merkilega listasafni eru um 180 verk eftir sem næst 90 listamenn. Stærsti hluti safnsins er gjöf hjónanna Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur, en árið 1980 gáfu þau Siglufjarðarbæ listaverkasafn sitt, 124 myndir, málverk, vatnslitamyndir, teikningar, þrykk og grafík, sem þau höfðu eignast á löngum tíma, og voru þá að dómi Braga Ásgeirssonar listamanns og gagnrýnanda eitthvert merkasta einkalistasafn á landinu. Þau hjón voru verslunareigendur í Reykjavík, ákaflega listfengin og sóttu listsýningar og keyptu smátt og smátt myndir sem urðu að þessu safni, sem þau ákváðu á fullorðinsárum að færa Siglufirði að gjöf. Ástæða gjafarinnar var sú að þau hjón vildu þakka bænum ómetanlegan stuðning við foreldra Arngríms, sem fluttu til Siglufjarðar úr Fljótum þegar þau urðu að bregða búi vegna heilsubrests bóndans.

Listaverkin sjálf eru geymd í ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði en þar er ekki aðstaða til að sýna nema brot af safninu í einu. Þegar menningarhúsið Berg var vígt árið 2009 var þar sett upp allstór sýning verka úr safni Arngríms og Bergþóru, en nú loks eru þau öll sýnileg á vef safnsins ásamt fleiri verkum.

Safneign Listasafns Fjallabyggðar er sem fyrr segir um 180 verk, en þar bætast við stóru gjöfina önnur listaverk í eigu Fjallabyggðar, þar á meðal myndir eftir Ólafsfirðinginn Kristin G. Jóhannsson og Siglfirðingana Ragnar Pál og Sigurjón Jóhannsson auk margra annarra verka sem bæjarfélögunum hafa áskotnast gegnum tíðina.

Og nú er, eins og fyrr segir, hægt að skoða þetta merkilega listasafn á vef Listasafns Fjallabyggðar, smella á myndir til að stækka þær á skjá. Það er stórmekilegt og þakkarvert, þó að mynd á skjá jafnist aldrei á við að standa andspænis listaverkinu sjálfu og upplifa beint samband við það. En hver veit nema sá dagur komi að Fjallabyggð eignist listhús þar sem hægt verður að sjá alla þessa dýrð.

Sverrir Páll er Siglfirðingur og kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018. 

Landslag, Jóhannes S. Kjarval. Eitt verkanna í eigu Listasafns Fjallabyggðar.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00