Fara í efni
Umræðan

Meirihluti Akureyringa án heimilislæknis

Þingmenn allra stærstu flokka á Alþingi hafa setið í ríkisstjórnum síðustu 20 árin og heilbrigðisráðuneytinu á þeim tíma verið stýrt af 10 ráðherrum 5 flokka sem spanna allt litróf stjórnmálanna. Sumir þessara flokka hafa verið hallir undir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og beitt sér sem slíkir á meðan aðrir hafa talað fyrir öflugu opinberu heilbrigðiskerfi. Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur frekari einkarekstri heilbrigðiskerfisins og fylgjandi almennu opinberu kerfi. Þrátt fyrir þetta hefur hallað verulega á opinbera kerfið á meðan því einkarekna hefur vaxið fiskur um hrygg á þessu tímabili.

Algjör hnignun

Árið 2012 voru 4 þúsund Akureyringar án heimilislæknis og fjölgaði þeim í 5 þúsund á næstu tveim árum eftir það. Í árslok 2022 voru 9 þúsund Akureyringar hinsvegar án heimilislæknis og lætur nærri að þá hafi annar hver íbúi bæjarins verið án sjálfsagðar og nauðsynlegrar þjónustu heimilislæknis sem við sem þjóð virðumst vilja að sé grunnþjónusta sem allir eiga að hafa aðgang að. Í lok síðasta árs var tveim yfirlæknum Heilbrigðsstofnunnar Norðurlands, sem heilsugæslan á Akureyri heyrir undir, sagt upp og tveir aðrir hættu þar störfum hjá í kjölfarið. Það lýtur því út fyrir að nú sé meirihluti íbúa Akureyrar án heimilislæknis. Þetta hefur gerst á skömmum tíma og að því er virðist án merkjanlegrar fyrirstöðu, hvorki af hendi stjórnvalda né bæjaryfirvalda. Það hafa fáir tekið til varna. Hnignunin er algjör.

Stjórnvöld að skapa glundroða

Ég var lengst af í hópi hinna heppnu Akureyringa sem naut þjónustu afbragðs heimilislæknis þar til um síðustu áramót er lækninum mínum var sagt upp störfum. Ég kaus að fylgja honum milli starfsstöðva, úr opinbera kerfinu í það einkarekna í stað þess að missa af þjónustu hans og verða þannig án heimilislæknis. En nú sýnist mér hinsvegar að ég og fleiri, sé kominn í hóp meirihluta íbúa bæjarins, án heimilislæknis. Heilbrigðisráðherra hefur nú kveðið upp úr með að heimilislækninum mínum til margra ára sé óheimilt að taka á móti sjúklingum sínum á Akureyri eins og hann hefur hingað til gert. Það kann vel að vera að regluverkið um heilsugæslustöðvar sé með þeim hætti að það torveldi með einhverjum hætti heimilislæknum sem ekki hafa starfsstöð á Akureyri að taka á móti sjúklingum í bænum. En það regluverk er manngert og því er hægt að breyta og laga að aðstæðum hverju sinni í stað þess að vinna beinlínis að því að skapa fullkominn glundroða í þessari mikilvægu þjónustu. Nóg er nú samt.

Varnarbarátta

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að haga málefnum heilsugæslunnar á Akureyri með þeim hætti að ríflega annar hver íbúi bæjarins er án heimilislæknis. Það gerðist hvorki óvart né féll það óvænt af himni ofan. En fyrst það er vilji stjórnvalda að fara svona illa með opinberu heilsugæsluna þá verður að gera þá réttlátu kröfu að þau sömu stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir því að bæjarbúar í þessu tilfelli, geti þegið þjónustu heimilislæknis eftir öðrum leiðum í sinni heimabyggð og jafnframt að þau geri það sem gera þarf til að svo geti orðið. Það verður sömuleiðis að gera þá kröfu til bæjarstjórnar og bæjarfulltrúa allra flokka á Akureyri að þeir standi sig í stykkinu sem talsmenn bæjarbúa og verji hagsmuni þeirra með öllum ráðum. Verði ekki tekið til varna af myndarskap, gæti auðveldlega svo farið að í náinni framtíð heyri heimilislækningar sögunni til á Akureyri í þeirri mynd sem verið hefur.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10