Lúpínan í Krossanesborgum
Krossanesborgir er friðlýstur fólkvangur frá árinu 2004.
Hér er fjölbreytt plöntu- og fuglalíf sem markmiðið er að varðveita, þannig að það verði til frambúðar fjölbreytt búsvæði fugla og plantna, sem almenningur hefur greiðan aðgang að til fræðslu og útivistar. Áhersla er lögð á að umgengni um svæðið skerði ekki plöntu- og fuglalíf þess.
Svo segir á síðunni Visit Akureyri og er í fullu samræmi við ákvörðun sem tekin var 2004 þegar svæðið var friðlýst sem fólkvangur. Í þessi tæplega 20 ár hef ég gengið um svæðið og fylgst með því hvernig birkið hefur vaxið og gróðurfar þessa merka svæðis hefur eflst með náttúrlegum hætti. Þrátt fyrir að lengi hafi kerfill og lúpína verið í miklu magni á norðurmörkum svæðisins þá hefur sá gróður ekki náð að ryðja sér braut inn í Borgirnar á þeim svæðum. Lúpína er góðra gjalda verð þar sem hún á við, en væri veruleg ógn við Krossanesborgir og þau yfirlýstu markmið að þarna vaxi og dafni íslenskur gróður á sjálfbæran hátt.
Síðastliðin tvö ár hefur borið á því að lúpína er að ryðja sér leið inn í Borgirnar og svæðið er sannarlega viðkvæmt fyrir slíkri innrás. Nauðsynlegt er að bregðast við og skylda umhverfisyfirvalda að vakta og bregðast við þessari innrás. Ljóst er að á aðeins fáeinum árum gæti ásýnd Borganna gjörbreyst og náttúrlegt séríslenskt yfirbragð tapast.
Síðustu daga hef ég farið um svæðið og augljós breyting hefur orðið vestast á svæðinu og veruleg breyting að eiga sér stað. Ég er minnugur þess hvernig stór bláberjalaut í Hálsskógi austur þar hvarf í lúpínubreiðu á fáeinum sumrum fyrir nokkum árum.
Það er því sannarlega mikil nauðsyn að umhverfisyfirvöld haldi vöku sinni og bregðist við og vakti Krossanesborgir í framtíðinni. Reikna með að allir vilji halda í þau markmið að þarna ráði íslenskur gróður ríkjum og Krossanesborgir haldi gildi sínu sem slíkar.
Lúpínan er ágæt sem slík en ekki þarna. Það er hreinlega ótrúlegt að sjá hversu stuttan tíma það tekur þessa fallegu og öflugu plöntu að taka yfir, sérstaklega þar sem fyrir eru heldur rýrir íslenskir móar eins og eru svo algengir í Krossanesborgum. Einnig er lúpínan ógn við fuglaríkið á Borgunum sem er landsfrægt vegna þess mikla fuglalífs sem þar er. Fáir staðir sem skarta jafn mögum tegundum varpfugla.
Höldum vöku okkar og komum í veg fyrir slys.
Hér fylgja með nýjar myndir úr Borgunum.
Jón Ingi Cæsarsson er fv. formaður skipulagsnefndar Akureyrar