Fara í efni
Umræðan

Lúðrasveit Akureyrar 80 ára

Á annan í páskum þann 10. apríl klukkan 14:00 verður efnt til tónleika í Hofi á Akureyri í tilefni af því að 80 ár eru síðan Lúðrasveit Akureyrar lék fyrst opinberlega og að 130 ár eru síðan fyrst var stofnaður hornaflokkur á Akureyri.

Það var vorið 1893 að Magnús Einarsson, kirkjuorganisti á Akureyri, fór til Kaupmannahafnar að afla sér frekari þekkingar á tónlistarsviðinu og meðal annars að læra undirstöðuatriði í hornablæstri. Magnús hafði fengið styrk frá bæjarstjórninni á Akureyri til fararinnar og ritaði henni bréfí júlí það ár þar sem hann greindi frá því að hann hefði lagt stund á harmini-fræði (teori) og hornablástur því ‚bæði ég og fleiri hafa lengi þráð að hornleikarafélag myndaðist á Akureyri‘.

Það má svo hafa til marks um þann áhuga sem var á málinu meðal íbúa á Akureyri að meðan Magnús dvaldi í Kaupmannahöfn söfnuðust 270 krónur með almennum samskotum og sem ágóði af söngskemmtunum sem nota skyldi til að kaupa hljóðfæri. Til viðbótar lagði bæjarstjórnin 30 krónur sem dugði til að kaupa sex lúðra sem Magnús kom svo með frá Kaupmannahöfn í lok september þetta sama ár. Til samanburðar má horfa til þess að verg landsframleiðsla á hvern einstakling á Íslandi árið 1893 var líklega um 268 krónur. Fjárfesting af sambærilegri stærðargráðu nú til dags væri um 8 milljónir.

Ólafur Tryggvi Ólafsson (1874 – 1961), verslunarmaður og hornleikari. Kjartan Ólafsson (f. 1974), félagsfræðingur og hornleikari.

Strax eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn stofnaði Magnús Hornaflokk Akureyrar og ritaði bæjarstjórn Akureyrar bréf í október 1893 þar sem hann óskaði eftir að hornaflokkurinn fengi að æfa í barnaskólanum og greindi frá því að þeir hefðu fram að því æft í fangahúsinu, þegar svo hafi staðið á að enginn fangi hafi setið inni. Hornaflokkur Akureyrar lék svo opinberlega í fyrsta sinn við jarðarför í febrúar árið 1894 og reglulega næstu árin. Hornaflokkurinn varð hins vegar ekki langlífur. Um aldamótin fluttu fjórir blásaranna til Vesturheims og sá fimmti fór til sjós. Þarmeð var starfseminni sjálfhætt.

Magnús endurvakti sveitina hins vegar árið 1907 og gaf nafnið Hekla, líkt og kórinn sem hann hafði stofnað um aldamótin og farið með í fræga söngför til Noregs haustið 1905. Lúðrasveitin Hekla starfaði svo óslitið undir hans stjórn til ársins 1924 er Hjalti Espólín tók við stjórninni. Árið 1929 fluttist Karl Ottó Runólfsson til Akureyrar, þá nýlega kominn frá tónlistarnámi í Kaupmannahöfn. Hann hafði ráðið sig sem tónlistarmann á Hótel Akureyri og tók jafnfram að sér að stjórna og kenna hjá Lúðrasveitinni Heklu. Auk þess veitti hann tilsögn í fiðluleik og varð úr því til Hljómsveit Akureyrar. Um tíma var þannig vísir að tónlistarskóla á Akureyri og var Karl Ottó því sem næst í fullu starfi við kennslu og stjórnun. Bæjarsjóður Akureyrar studdi við starfsemina með árlegu 500 króna framlagi og sem aftur má setja í samhengi við að verg landsframleiðsla á mann á þeim tíma var um 1.745 krónur. Má að því leyti jafna framlagi bæjarins við um 2,5 milljónir í samhengi okkar tíma. Á móti framlagi bæjarsjóðs komu tekjur af skemmtunum og tónleikahaldi ásamt beinum fjárframlögum einstaklinga sem mætti telja jafngildi 7,5 milljóna nú til dags.

Lúðrasveit Akureyrar í kröfugöngu 1. maí árið 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Án efa hafa vonir staðið til þess að stuðningur bæjarsjóðs myndi aukast með tímanum en það gerðist hins vegar ekki. Það harðnaði á dalnum í atvinnulífinu og í ársbyrjun 1933 var orðið ljóst að bæjarsjóður myndi ekki geta stutt áfram við starfsemina. Í framhaldinu fluttist Karl Otto frá Akureyri og hljómsveitarstarfið lognaðist að mestu útaf.

Meðlimir Lúðrasveitarinnar Heklu horfðu hins vegar til þess að tækifæri gæfist til að endurvekja starfsemina og árið 1942 var ákveðið að blása aftur til leiks. Flestum heimildum ber saman um að þar hafi verið fremstur í flokki Ólafur Tryggvi Ólafsson verslunarmaður hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Hann hafði leikið á horn í Lúðrasveitinni Heklu því sem næst frá stofnun og þegar starfsemin lagðist af þá varðveitti hann þau hljóðfæri sem voru til og keypti jafnvel þau sem voru í einkaeign svo þau væru til taks þegar stofnuð yrði ný lúðrasveit. Það var svo vorið 1942 að honum sýndist rétt að láta til skarar skríða. Hann hafði fengið til liðs við sig Jakob Tryggvason sem þá hafði nýlega tekið við starfi organista í Akureyrarkirkju sem væntanlegan stjórnanda og kallaði saman fund í maí 1942 þar sem ákveðið var að kanna málið betur. Það varð úr að láta slag standa og hófust æfingar sunnudaginn 25. október sama ár.

Það var svo á páskadag árið 1943 að leikið var fyrst opinberlega og var það gert ‚sunnanundir kirkjunni‘. Á efnisskránni voru sálmalög og sönglög. En vorið 1943 var líka stofnað á Akureyri tónlistarfélag með það að markmiði að efla hverskonar tónlistarstarfsemi og tónlistaráhuga í Akureyrarbæ. Eitt fyrsta verkefni tónlistarfélagsins var að taka lúðrasveitina undir sinn verndarvæng og tryggja rekstrargrundvöll hennar. Með sameiginlegu átaki ýmissa aðila tókst að tryggja Lúðrasveitinni veglegan rekstrarstyrk frá ríki og Akureyrarbæ sem lagði traustan grunn að starfseminni. Tónlistarfélagið hafði líka á stefnuskrá sinni að stofna tónlistarskóla og sá draumur varð að veruleika í janúar 1946. Að baki tónlistarskólanum stóðu músíkfélög og kórar bæjarins en ólíkt því sem gerst hafði í þrengingum kreppuáranna þá kom bæjarsjóður að starfseminni og með sífellt myndarlegri hætti eftir því sem tímar liðu.

Með tilkomu tónlistarskólans varð til sá sjóður sem er verðmætari en nokkuð annað þegar kemur að því að starfrækja lúðrasveit, það er að segja hópur fólks með kunnáttu í að leika á hljóðfæri. Afraksturinn má sjá á tónleikunum þann 10. apríl því þau sem þar koma fram eiga það ekki bara sameiginlegt að hafa ástríðu fyrir blásaratónlist heldur eiga þau flest að baki langt tónlistarnám og sum eru jafnvel atvinnutónlistarfólk. Með því að taka þátt í starfsemi Lúðrasveitar Akureyrar vilja þau heiðra draum frumkvöðlanna um lífið sé ekki bara saltfiskur.

Kjartan Ólafsson er hornleikari og býr á Akureyri. Langafi hans var Ólafur Tryggvi Ólafsson

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00