Lín og Tony Montana
Mér þykir gaman að horfa á gangsteramyndir. Alvöru gangsteramyndir. Ég er búinn að sjá allar þessar helstu sem gefnar voru út fyrir 1995. Þar sem Robert de Niro fer á kostum og Al Pacino sem siðlausi Tony Montana svo eitthvað sé nefnt. Allar þessar myndir snúast um það sama. Völd og peninga, okurvexti, morð og fangelsi.
Svo sá ég einnig „sannsögulega“ heimildarþætti um Clark Olofsson, sænska svikarann sem leikinn er af Bill Skarsgård. En þeir þættir fjalla um uppruna Stockholm heilkennisins.
Þegar ég setti þetta saman þá áttaði ég mig á að þessir gangsterar sem ég hef horft á og gefið tíma minn eru ekkert annað en stórhættulegir fjöldamorðingjar og ættu svo sem ekki að fá athygli frá manni eins og mér sem telur sig vera með þá hluti á hreinu, að vera góður við náungann og sanngjarn. En ég horfi samt á þessar myndir og sækist eftir svipuðum þáttum.
Í einni myndinni sem ég sá þá rukkar mafían mánaðarlegar greiðslur fjölskyldu fyrir að „fá að“ vera með viðskipti á Manhattan eyju. Ef þú borgar ekki þá er tekinn af þér fótur, annar útlimur eða fjölskyldumeðlimur. Sumir þeirra settu hestshaus í garðinn hjá þér til að láta vita að við þeir myndu koma og innheimta og svo kála þeir þér.
Það var ekki ákjósanleg staða að fá hestshaus í garðinn sinn. Alls ekki.
Svo hugsaði ég lengra.
Ef ég tek námslán og greiði af því eins og lagt er upp með þá ætti ég að geta greitt það niður í venjulegum heimi. En i heimi mafíósa ertu skuldsettur ævilangt. Þar greiðir þú þangað til þú ferð yfir móðuna miklu.
En hvað með alla þá sem eru að greiða af námsláninu sínu og lánið hækkar með hverri innborgun? Þeir ná ekki að borga það niður? Er það úrræði Ríkis svo þú þurfir ekki að fara í banka sem klippir af þér fingur reglulega vegna okurvaxta.
Hæ verðandi nemandi! Taktu námslán og komdu þér í skuldafangelsi það sem eftir er. Komdu til okkar. Ríkið. Svona gæti auglýsingin hljómað ef satt yrði sagt í henni.
Hér er spurning.
Er ríkið að gera eitthvað annað en De Niro og Tony Montana gerðu á sínum tima? Er Ríkið að gera eitthvað annað en Clark Olofsson svikahrappurinn frá Sviþjóð sem fékk heilkennið nefnt eftir höfuðstað sínum?
Er Ríkið með námslánum, ekki aðeins á okurvöxtum heldur „þú getur aldrei greitt það niður“ vöxtum að fangelsa ungt fólk viljandi?
Ég spyr þig góður lesandi. Hver er í alvörunni munurinn á Ríkinu þegar þú borgar þeim ekki ofurvextina sem ekki hægt er að greiða niður og Tony Montana og hinum gangsterunum? Er ekki munurinn sá að það var hægt að semja við Tony og losna undan skuldafangelsinu en að sitja í því ævilang?
Er hægt að semja eins við Ríkið og það var við Tony?
Titillinn skrifar sig sjálfur að næstu gangstera þáttaröð: „Íslenska Ríkið – Völd, peningar, okurvextir, græðgi, morð og fangelsi!“
Ásgeir Ólafsson Lie er faðir þriggja barna.