Líkan af Húna – Watnehúsið – saga skipasmíða á Akureyri
Í dag er dagurinn sem við ákváðum að byggja líkan af Húna ll.
Það hefur oft á undanförnum árum verið rætt að gaman væri að eiga líkan af þessu skipi og heiðra með því minningu þeirra manna sem hér á síðustu öld störfuðu hjá skipasmíðastöð KEA en eins og allir vita var Húni byggður þar.
Ástæða fyrir því að lagst er í þetta verkefni að smíða líkan af bátnum er í raun margþætt.
- Fyrst ber að nefna að Húni ll er eini báturinn sem enn er til óbreyttur af þessari gerð á Íslandi og því sannarlega verðugt verkefni að eiga líkan af honum.
- Báturinn var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963.
- Verndun Húna á sínum tíma var mikil menningar-björgunaraðgerð sem margir komu að, fyrst ber að nefna hjónin Þorvald Skaftason og Ernu Sigurbjörnsdóttur sem segja má að hafi varðað veginn og svo eftir að Húni kom hingað í bæinn hafi einstaklingar, félög sem og Akureyrarbær tekið við kyndlinum og allar götur síðan að skipið kom til Akureyrar hafi það fengið ótrúlega ástúð og væntumþykju hjá Hollvinum Húna og það er alveg dásamlegt að vita að svona félagskapur sem Hollvinir eru, skuli vera til. Ég segi hiklaust að þótt við séum að heiðra minningu þeirra manna er vörðuðu veginn í skipasmíðum hér á Akureyri fyrrum, er þessi framkvæmd sem við nú skrifum undir í dag ekki síður þakklætisvottur til Hollvina Húna fyrir elskuna sem þeir hafa sýnt skipinu alla tíð. Þær þakkir eiga þeir svo sannarlega skilið.
Elvar Þór og Tryggvi
Það var mikill fengur fyrir okkur að fá Elvar Þór Antonsson á Dalvík til að taka að sér að smíða líkanið fyrir okkur og það verður gaman að að sjá þetta verk færast fram skref fyrir skref.
Það var einkar ánægjulegt að hitta Elvar Þór þegar við ámálguðum þetta verkefni við hann. Elvar sagði okkur frá sögu af því þegar hann var að smíða fyrsta bátslíkanið sem hann gerði, en það var árið 1990. Það var af bátnum Eyrúnu EA 58 frá Hrísey sem smíðaður var árið 1954 í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Elvar þurfti að fá teikningar af bátnum sem Tryggvi Gunnarsson skipasmiður var með og þótti Tryggva einkar vænt um að leitað væri til hans, og tók hann loforð af Elvari að leyfa sér að sjá líkanið af Eyrúnu þegar það væri búið.
Eins nefndi Tryggvi það við Elvar Þór þá að hann yrði einhverntíma að smíða líkan af Snæfellinu eða Húna, en bæði þessi skip voru einmitt smíðuð í skipasmíðastöð KEA á sinni tíð, Snæfellið 1943 og Húni var sjósettur þann 22. júní 1963 og Tryggvi vann við smíði beggja skipanna og var svo einmitt yfirsmiður þegar Húni var byggður. Greinlegt var að Tryggva þótti einkar vænt um Húna.
Í Iðnaðarsafninu er til glæsilegt líkan að Snæfellinu.
Það er því ákaflega ánægjulegt að sjá það verða nú að veruleika að óskir gamla höfðingjans og skipasmíðameistarans Tryggva Gunnarssonar séu að verða að veruleika og með því heiðrum við minningu hans sem og allra annarra báta- og skipasmiða er hér á Akureyri störfuðu á síðustu öld og minnumst þess að Akureyri var sannarlega vagga bátamíða hér fyrrum.
Húni sextugur á næsta ári
Við sem stöndum að þessu verkefni stefnum svo að því að sýna nýjan Húna smíðaðan 60 árum eftir að sá fyrri var smíðaður, einmitt á afmælisdaginn 22. júní árið 2023, og við höfum talað um það að sú athöfn fari fram um borð í Húna ll sem næst þeim stað í sjónum er hann snerti hafflötinn í fyrsta sinn, við Skipasmíðastöð KEA og þar sem Wathnehúsið stóð á eyrinni.
Til að þetta geti gerst hafa nokkrir aðilar, fyrirtæki, félög og einstaklingar lagt fjármagn til þessa verkefnis og það ber svo sannarlega að þakka, án þessa stuðnings værum við ekki í þessum sporum hér í dag.
Athygli er þó vakin á því að söfnunin fyrir líkaninu er enn í gangi og ætlum við að trúa því að við munum ná í land í þeim efnum eins og upp var lagt með. Margt smátt verður að líkaninu.
Watnehúsið – Skipasmíðastöð KEA
Það er einmitt táknrænt að við skulum skrifa hér undir samning um byggingu líkansins af Húna hér við stafninn á þessu húsi, Wathnehúsinu, húsinu sem hýsti skipasmíðastöð KEA í áratugi á Oddeyrartanga, og örugglega hafa fyrstu já og mörg handbrögð við smíði Húna fyrir tæpum 60 árum verið unnin hér inni í þessu húsi. Þetta hús geymir því mikla sögu ekki síður en skipin sem þar voru smíðuð og það er mikill vilji okkar og draumur og að þetta hús verði varðveitt og endurbyggt í upprunalegri mynd og jafnvel taki aftur við því hlutverki sem það hafði á Oddeyrinni, vera verkstæði þeirra sem vilja dytta að bátum sínum, lagfæra þá og þar með vernda þetta merkilega hús sem byggt var á þar síðustu öld, eða árið 1895.
Við skorum því á bæjaryfirvöld á Akureyri að leggja nú þegar til upphafsfjármagnið sem þarf í að koma húsinu á varanlegan grunn hér við Iðnaðarsafnið og í framtíðinni verði stefnt að því að sjávarútvegshluti sem og skipasmíðaiðnaðarsaga Akureyrar, svo stór og merkileg sem hún er, verði varðveitt hér í Wathnehúsinu.
Kæru félagar.
Okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja þetta verkefni nú formlega.
Vil ég biðja Elvar Þór Antonsson að koma hingað til mín og undirrita þennan byggingarsamning, og þá má alveg geta þess svona til gamans að það eru sennilega orðin nokkur ár síðan að byggingarsamningur vegna skipasmíði var undirritaður hér í bæ.
Sigfús Ólafur Helgason er safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Hann flutti þetta ávarp í dag þegar skrifað var undir samning við Elvar Þór Antonsson um að smíða líkan af Húna II.