Fara í efni
Umræðan

Lífskjarninn enn í gildi

Líf hans hófst í jötu í gripahúsi og lauk á krossi. Á þeirri leið sem lá milli jötunnar og krossins átti hann hvergi höfði sínu að að halla. (John Nelson Darby, þýð. BPB)

Það var með þeim hætti sem Guð snerti jörðina og mennsk hjörtu, í persónu barns sem var hjálparvana í lífsógnandi aðstæðum og lágur stallur afhjúpaði fátækt þess. Í persónu manns á fertugsaldri sem hékk á krossi og blóð hans afhjúpaði sannleikann um leyndardóma tilvistar sem hann færði veröldinni. Guð gerðist maður. Sannleikur sem enn er til umhugsunar í samfélögum mannfólks um heim allan, sannleikur sem enn er til umræðu og getur hvort í senn verið sparkpúði trúarafneitunar ellegar hugljómun trúarjátningar. En burt séð frá því öllu er kjarni jólasögunnar í Betlehem umbúðalaus, síst glyskenndur, hvað þá blekking. Hann er eins raunverulegur og sannur og lífið getur orðið vegna þess að hvert einasta mannsbarn fær tækifæri til að máta sig við hann og meta aðstæður sínar út frá honum. Engin manneskja fetar leiðina milli vöggu og grafar án þess að upplifa það að vera berskjölduð frammi fyrir tilverunni, án þess að upplifa ógn, breytingar, missi, eða aðstæður sem kalla á vangaveltur um stöðu hennar í heiminum.

Fyrir hver jól þarf ég iðulega að spyrja mig, m.a. sem starfandi prestur í prédikunarundirbúningi, hvort ég beinlínis trúi frásögunni í Betlehem og hvort hún hafi einhverja merkingu í lífi mínu. Þá verð ég líka að rifja upp eigin reynslu í leiðinni og máta hana við frásögnina. Það er reyndar grundvallarþáttur í téðum undirbúningi, því hafi ég ekki velt því sjálfur fyrir mér, hvernig í ósköpunum get ég þá miðlað boðskapnum á sannfærandi hátt og hvernig get ég þá ætlast til þess að söfnuðurinn meðtaki skilaboðin þannig að þau hafi einhverja þýðingu fyrir hann. Ég þykist vita að til þess að geta varpað frekara ljósi á forna atburði er nauðsynlegt að setja sig inn í gyðinglegan bakgrunn Jesúbarnsins, sagnfræðina, hinn forna trúarheim gyðinga, spádóma og væntingar, mismunandi merkingar og þýðingamöguleika forngrískra hugtaka þar sem jólaguðspjall Lúkasar var upphaflega ritað á því tungumáli, ólíka heimsmynd, og lengi mætti telja.

En hvað sem því öllu líður þá stendur hin stóra spurning alltaf eftir, hvaða merkingu hefur frásagan af barninu í Betlehem fyrir líf þitt eða hefur hún einhverja merkingu yfir höfuð? Það er auðvitað auðveldasta leiðin að segja bara að allt þetta Jesútal sé þvættingur og hafi helst þann tilgang að valda pirringi.

Í því ljósi er það allmerkilegt við atburðinn að hann lætur okkur sjaldnast í friði, hann kallar stöðugt á hugrenningar og endurmat og gildismat og sjálfsskoðun í margvíslegri mynd, sem kann að valda hinum og þessum tilfinningum, ekki einvörðungu á jólum, heldur allt árið um kring. Eitt og annað hefur þú fyrir augum í umhverfinu sem minnir þig líka reglubundið á barnið í Betlehem og skapar hugrenningatengsl eins og kirkjubyggingar um öll heimsins ból, hefðir og siðir, þjóðfáni og ýmis tákn, samfélagsleg umræða, að ekki sé minnst á þunga samfélagslega reynslu á borð við lífsógnandi veiru sem krefst þess að við horfumst í augu við skort og sannleika og mennsku í sinni tærustu mynd, veiru sem setur heiminn á hliðina, umbreytir lífsháttum okkar og lífsmynstri og leggst hvað þyngst á ástvini okkar sem eru veikastir fyrir. Og ofan í það allt renna skriður á heilt byggðarlag í fögrum firði, þar sem íbúar þurfa að flýja heimili sín í miðjum jólaundirbúningi og horfa á aurskriður hrifsa með sér verðmæti sem hafa djúpstætt tilfinningalegt gildi, breytt bæjarmynd, og óvissa varðandi framtíðina. Áfram munum við þó þakka það að ekkert manntjón skyldi hafa orðið og áfram munum við biðja þess þegar þetta ár 2020 hverfur í aldanna skaut, að það komi alls ekki til baka.

En með alla þá reynslu sem árið 2020 hefur þó skilið eftir sig getum við enn og aftur horft til barnsins í Betlehem og hugsað hversu oft við reynum að pakka veruleikanum inn í umbúðir, hversu oft við reynum að afneita bláköldum staðreyndum lífsins og hversu oft við reynum að láta mennskuna og mannlega reynslu ekki hafa áhrif á okkur og brynjum okkur gegn því öllu. Þá knýr þetta barn dyra í sálarlífinu og segir við þig að enn er lífskjarninn í gildi, í allri sinni nekt og umbúðaleysi, og hann vill hreyfa við þér, fullvissa þig um að þú sért enn á lífi. Enn er það í gildi að hægt sé að lifa lífinu með öðrum hætti en þeim sem kalla mætti „narcissisma nútímans“, sem hampar í sífellu mikilfengleika og athyglisþörf er yfirgnæfir allt sem heitir samkennd og samúð. Enn er það í gildi að þú getir látið náunga þinn þig varða og það jafnvel með því að halda þig í hæfilegri fjarlægð frá honum. Þar er enn ein hlið lífskjarnans að koma þér á óvart rétt eins og Guð sem sýndi sig síst í almætti, heldur birtist í varnarleysi og vanmætti í lágum stalli í Betlehem. Jesúbarnið kallar okkur öll að þeim stalli og staðfestir fyrir hverju og einu okkar að í samfélagi þar sem samanburðarmenning er rismeiri en góðu hófu gegnir, erum við í grunninn venjulegar manneskjur sem fæðumst og deyjum, og höfum það verkefni á höndum á þeirri lífsleið að sýna samstöðu eins og við gerum þegar við viljum hlúa að velferð barnanna okkar eða vernda viðkvæma hópa gegn drepsótt.

Með það í huga er jafnframt vert að minnast þess að það var venjulegt fólk, með venjulegar skyldur og þarfir, sem leit fyrst dýrð Guðs í hvítvoðungnum í Betlehem. Þar voru á ferð fjárhirðar, sem höfðu helgað líf sitt grunnskyldum samfélagsins við að gæta og vernda lífsafkomu þess, menn sem höfðu ekki glatað hjartalagi barnsins, lífskjarnanum.

Gleðileg jól!

Bolli Pétur Bollason er prestur í Digranes- og Hjallaprestakalli í Kópavogi. Hann þjónaði áður í Laufási við Eyjafjörð.

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45