Fara í efni
Umræðan

Látum oss blaðra

Ágætu lesendur. Nú veit ég ekki fyrir víst hvað má flokkast undir málvernd og þjóðernisást því búið er að skekkja og glæpavæða svo margt í máli og menningu okkar að maður myndi t.d. aldrei voga sér að tala um þjóðerniskennd eða stolt yfir landi, þjóð og tungu. Lengi vel var þetta þó talið heilög þrenning eins og lýsa má í ljóði:

Heilög er þessi þrenning:
þjóðin, tungan og menning.
Landið í lífsins svala;
listin er sú að tala
málið sem guðinn oss gefur
og gróið með þjóðinni hefur.

Íslenskan verður vonandi áfram fyrsta mál og opinbert tungumál á Íslandi en hún mun auðvitað þróast og breytast og gerir það ansi hratt núna. Ég telst seint íhaldssamur íslenskukennari enda legg ég blessun mína yfir slettur í hæfilegu magni, breytingar á orðaforða, beygingakerfinu og fleira í þeim dúr og hvet fólk til þess að leika sér með málið í stað þess að leiðrétta og tuða í sífellu. Vissulega er samt dapurlegt þegar unga fólkið finnur ekki íslensk orð yfir þau hugtök sem það er með í kollinum á ensku.

Svo lengi sem við lifum á storð
og láninu ekki sviptir.
Skjótt við finnum á íslensku orð
um allt það sem máli skiptir.

Íslenska í öllum myndum hlýtur að eiga rétt á sér og við þurfum að venjast mismunandi framburði og orðaforða eins og aðrar tungur. Fjölbreytileikinn á heima hér, á sviði tungumálsins eins og öðrum sviðum mannlífsins. Rétttrúnaður gæti haft í för með sér stöðnun og loks dauða íslenskunnar ef eftir standa aðeins staðlausir stafir og forpokað regluverk.

Þessir staðlausu stafir
og stjarfklofna mál.
Þetta tannhjól í tíma
sem týnt hefur sál.

Dauði tungumála er vissulega ekkert einsdæmi, þeim fækkar um tugi á hverju ári. Fámenn málfélög eru í mestri hættu, ekki síst í nábýli við jarðýtumál eins og enskuna. Kannski er ráð fyrir Íslendinga að hætta að amast svo mjög við enskunni en taka þess í stað upp tvö opinber mál, íslensku og ensku, þannig að uppvaxandi kynslóðir verði tvítyngdar. Ég held að niðurstaðan gæti orðið mun betri ef þetta væri markvisst og opinbert í stað þess að fleygja spjaldtölvum í börnin eða planta þeim fyrir framan skjá og fyllast svo stolti yfir því hvað barnið er skyndilega orðið sleipt í ensku og duglegt að horfa á alls konar myndbönd. Við megum ekki glata menningararfinum.

Þetta er minning um mætan arf,
mælskuna, hugsun og ljóðin.
Gleymdum að iðka það stöðuga starf
að standa með tungunni, þjóðin.

Þjóðin sem afrækir eigin börn
og elur þau upp á neti.
Finnst mér það ansi vesæl vörn
að vísdóminn þannig meti.

Tölvur og snjallsímar hafa komið að góðum notum í samfélaginu og breytt kennsluháttum í mörgum skólum á þá lund að stagl og utanbókarlærdómur er á undanhaldi en upplýsingaleit og úrvinnsla hefur komið í staðinn. Þetta hugnast mér vel, þetta er nútíminn. Þess vegna hef ég lengi stutt það að nemendur taki gagnapróf og megi nota öll hjálpartæki og bjargir. Hins vegar tel ég ekki tímabært að áhorf og hlustun komi algjörlega í stað þeirrar göfugu iðju að lesa enda er lestur enn forsenda þess að geta notið menningararfsins og heimsbókmenntanna. Hinn stafræni heimur og máltæknin mun hugsanlega breyta því þegar fram í sækir en mér finnst svo sorglegt hve margir missa af ómetanlegum bókmenntaperlum.

Að eiga tungu og yrkja ljóð með rími
er arfur þjóðar, um það má ei deila,
svo hyggjast menn á hollustunni beila,
hefðunum kasta og segja nú er tími

til þess að breyta, þroska mál og þróa,
þóknast þeim öllum sem við tungu glíma
og skulum núna stjórnlaust áfram stíma
uns stolt og virðing er fokin út í móa.

Vörumst slíkt mein að ótti andann kæfi,
áfram við höldum að rækta vora tungu
og breytingum örum er blessað málið háð.

Einnig skal varast, heimska hugann svæfi,
hyggindin koma oft með fólki ungu,
í minningu verður markmiðinu náð.

Nei, við þurfum hvorki að yrkja hefðbundin ljóð né tala gullaldarmál til að viðhalda tungumálinu. Ljóðformið hefur verið togað og teygt og tungumálið sömuleiðis. Slíkt er af hinu góða og heldur málinu lifandi. Við þurfum að lesa, skrifa og blaðra heil ósköp á móðurmálinu til að viðhalda því. Málfarslöggur á netinu gera held ég frekar ógagn en hitt og algjört skeytingarleysi er líka skaðlegt málinu. Tungumálið er eins og barn sem þarf öryggi, ramma og einhver mörk en líka frelsi til að leika, skapa og þróa.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni þótt margt sé ósagt. Eiginlega er þessi pistill kynning á því að ég var að gefa út – á netinu – ljóðabókina Dauði ljóðsins. Brot úr bókinni eru notuð í þessari grein. Bókina má finna hér: https://sites.google.com/view/stefnr/dau%C3%B0i-lj%C3%B3%C3%B0sins?authuser=0

Því miður kann ég ekki að einfalda hlekkinn því ég hef ekki keypt mér lén en þið getið líka gúglað „Dauði ljóðsins“ eða „Ljóðasetur Stefáns Þórs“ en þar má finna fleiri ljóðabækur og tækifæriskveðskap. Niðurhal er frjálst og ókeypis en bókin er tvískipt, annars vegar ýmis nýleg ljóð og hins vegar þessi bálkur um stöðu ljóðsins og tungumálsins, í frjálsu formi og bundnu. Svo svara ég alltaf tölvupósti stefan@ma.is og get sent bókina í pdf-formi til þeirra sem þess óska.

Að lokum vil ég vekja athygli á nýju smásagnasafni mínu Grímur sem fæst í Pennanum Eymundsson. Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og skáld

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00