Fara í efni
Umræðan

KS og Kjarnafæði Norðlenska

Í mörg undanfarin ár hef ég valið vörur frá Kjarnafæði þegar ég kaupi unnar kjötvörur í matinn. Ekki síst vegna þess að ég þekki gæskuríki þeirra bræðra Gunnlaugssona, sem með dugnaði og áræðni byggðu upp stöndugt fyrirtæki, enda með öfluga starfsmenn. Þetta byrjaði allt með því að Eiður vinnur minn fór að sletta kjöti á nokkrar flatbökur í bílskúrnum sínum í Þorpinu, „en mjór er mikils vísir“. Flatbökurnar seldust eins og heitar lummur. Úr varð öflugt fyrirtæki, Kjarnafæði, sem Eiður mótaði með Hreini bróður sínum og „Kalli bróðir” var þeim til halds og trausts. Kjarnafæði sameinaðist síðar SAH-afurðum á Blönduósi og Norðlenska matborðinu. Norðlenska var sett á laggirnar á sínum tíma til að yfirtaka rekstur á sláturhúsum og kjötiðnaði KEA og KÞ á Húsavík. Norðlenska var í eign Búsældar, einkahlutafélags um 500  bænda. Þeir bræður, Eiður og Hreinn, voru með meirihlutaeign í sameinaða félaginu. Þeir hafa nú gengið að kauptilboði Kaupfélags Skagfirðinga í þann meirihluta. „Við erum komnir á aldur og tími til kominn að losa sig út úr þessu“, segir Eiður. KS hefur í framhaldi af þessum kaupum gert tilboð í eign bændanna í minnihlutanum. Þeir verða að meta það hver fyrir sig, hvort þeir vilji selja eða vera hluthafar áfram. Það er því enn ekki ljóst hvort KS kaupir öll hlutabréf minnihlutans í KN.

Kaup Kaupfélags Skagfirðinga á sameinuðu félagi Kjarnafæðis og Norðlenska kristallar þá stöðu, að það er ekki gróðavegur að slátra búpeningi og vinna afurðir frá íslenskum bændum. Fyrir vikið er ekki hægt að greiða þeim það afurðaverð sem þeir þurfa, sem leitt hefur til þess að margir þeirra hafa hætt. Þessi þróun hefur átt sér stað á sama tíma og erlendar kjötvörur flæða yfir markaðinn. Kjötvörur sem koma frá stórum vinnslustöðvum, sem orðið hafa til við sameiningar. Þar að auki er verði haldið niðri með niðurgreiðslum úr opinberum sjóðum. Þetta gerðist eftir að talsmenn verslunarinnar vældu niður tollamúra, sem verndað höfðu innlenda framleiðslu. Og talsmenn þeirra væla enn út af kaupum KS á KN og njóta nú til þess stuðnings frá verkalýðshreyfingunni og fréttamiðlum í Reykjavík. Fréttastofa RUV fór ítrekað í loftið í gær með rangar fréttir um málið og lunginn úr fréttatíma Sjónvarpsins í kvöld fór í umfjöllun um málið í „gúrkutíðinni“. Sú umfjöllun virtist fyrst og fremst sett fram til að sverta þau fyrirtæki sem koma við sögu við þennan samruna og sérstaklega að koma höggi á Kaupfélag Skagfirðinga. Vanþekking fréttamanna á málefninu var sláandi og andmælendur þessarar sameiningar fengu að blaðra út í eitt án krítískra spurninga.

Einnig er reynt að gera alþingismanninn Þórarinn Inga Pétursson tortryggilegan, en hann og Hólmfríður Björnsdóttir kona hans eiga 0.06% í félagi bænda, Búsæld ehf, sem á 43% í KN. Hlutur þeirra hjóna í KN er því sennilega nálægt 0.03%. Þessi eign Þórarins hefur verið tíunduð á hagsmunavef Alþingis frá því að Þórarinn tók þar sæti. Eignin hefur orðið til með hlutdeild í innleggi, samkvæmt samningi við bændur þegar Norðlenska var stofnað. Þarna er því í raun um að ræða ógreitt innlegg á óverðtryggðum kjörum. Söluhagnaður verður því í raun enginn ef dæmið er reiknað í heild, kjósi þau hjón að selja hlutinn til KS.

Þórarinn er sauðfjárbóndi og hann kom um tíma að stjórn Búsældar sem átti Norðlenska. Naut Alþingi þekkingar og reynslu Þórarins af framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða við lagabreytingu, sem heimilar afurðastöðvum sameiningu og verkaskiptingu til hagræðingar. Það vita þeir sem til þekkja, að slíkar aðgerðir þurfa að ganga hratt fyrir sig ef takast á að bjarga þessari atvinnugrein; vinnslu og landbúnaði. Það er ekki tími til að láta samkeppnisstofnun þvæla um málið út og suður í marga mánuði. Verklagið á þeim bæ hefur heldur ekki verið traustvekjandi á undanförnum misserum. Eftir lagabreytinguna hafa bændur kallað eftir aðgerðum til hagræðingar sem fyrst, að verkin verði látin tala. Margir þeirra lifa í þeirri von, að það leiði til hærra afurðaverðs, þannig að þeir geti lifað mannsæmandi lífi. Bændur vænta þess einnig, að svigrúm skapist til að lækka verð til neytenda, ekki síst til að styrkja innlenda framleiðslu í samkeppni við niðurgreiddar innfluttar kjötvörur. Það er mat þeirra sem til þekkja, að samlegðaráhrif KS og KN við slátrun og úrvinnslu kjötafurða séu þau áhrifamestu sem völ er á í íslenskum landbúnaði við þessar aðstæður. Samruna þeirra beri því að fagna.

Stjórnendur Kaupfélags Skafirðinga hafa staðið fast í ístöðin á undanförnum árum. Stundum hafa þeir þurft að taka umdeildar ákvarðanir, sem ég ætla ekki að dæma um. Hef ekki þekkingu til þess. En þeir hafa ekki fallið í þá gryfju, að reka kaupfélagið eins og félagsmálastofnun, sem varð fótakefli margra kaupfélaga. Félagið hefur dafnað og haft burði til að styðja myndarlega við landbúnað og atvinnulíf í Skagafirði. Þeir hafa rekið félagið með ríflega 18 milljarða króna hagnaði á undanförnum fjórum árum. Á síðasta ári skilaði félagið hagnaði upp á 5.4 milljarða króna, sem er mesti hagnaður félagsins frá upphafi. Stór hluti hagnaðarins kemur frá sjávarútvegi félagsins. Á sama tíma hafa flest önnur kaupfélög dagað uppi.

KS hefur rekið sláturhús og kjötvinnslu og ekki er vitað annað en félagið ætli að reka KN áfram sem sjálfstæða einingu. En talað er um að meginkosturinn við kaupin á KN sé hagræðing. Það þýðir væntanlega, að allir þættir rekstursins beggja vegna Tröllaskaga verða endurskoðaðir og öllum steinum velt við. Hugsanlega verða einhverjar starfsstöðvar lagðar af. „Nú er það verkefni starfsfólks félaganna að raungera þessa hagræðingarmöguleika íslenskum landbúnaði og neytendum til heilla“, er haft eftir Ágústi Torfa Haukssyni í frétt frá KN.

Þessi kaup KS á KN skapa þessum félögum enga einokunaraðstöðu á markaðnum. Sláturfélag Suðurlands stendur sterkt með gott bakland og framkvæmdastjóri þess hefur fagnað þessum samruna á Norðurlandi. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort þjóðin er lengur sjálfbær í matvælaframleiðslu eftir mikinn samdrátt í kjötframleiðslu vegna fækkunar bænda. Hvað gerum við ef aðflutningsleiðir til landsins lokast vegna stríðsátaka eða sóttvarna? Slíkt gæti gerst miðað við ástandið í heiminum í dag.

Með sólarkveðju,

Gísli Sigurgeirsson er fyrrverandi fréttamaður

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30