Fara í efni
Umræðan

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis 70 ára

Samkoma var í menningarhúsin Hofi í dag í tilefni 70 ára afmælis Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Þar flutti formaður félagsins eftirfarandi ávarp.
_ _ _

Í dag fögnum við saman 70 ára afmæli Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis en félagið var stofnað 21. nóvember 1952. Starfssvæði félagsins er frá Siglufirði í vestri og austur að Stóru Tjörnum í Fnjóskadal. Hjá félaginu starfa tveir starfsmenn, starfsmaður á skrifstofu og í móttöku og ráðgjafi á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands.

Við undirbúning þessa erindis hóf ég leit að sögunni og rakst á grein úr Læknablaðinu um sögu og þróun Krabbameinsfélags Íslands sem stofnað var 1951, ári áður en KAON var stofnað. Tilgangur stofnunar félagsins var eftirfarandi:

að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameinum með því að:

  • fræða almenning um helstu byrjunareinkenni,
  • stuðla að aukinni menntun lækna í greiningu og meðferð,
  • fá hingað fullkomnustu lækningatæki og nægt sjúkrarými,
  • bjóða upp á fullkomnustu sjúkrameðferð sem völ væri á,
  • stuðla að krabbameinsrannsóknum hér á landi.

Mér finnst áhugavert að draga þetta hér upp því í megindráttum hefur markmið félagsins og undirfélaga ekki breyst – frekar hafa leiðirnar til þess að ná markmiðum hafa þróast og breyst.

Sem eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands starfar Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis samhliða og styður við markmið KÍ með ýmsum hætti. Helstu verkefni þess er stuðningur og fræðsla við einstaklinga með krabbamein og aðstandendur þeirra ásamt því að standa fyrir námskeiðum og viðburðum. Þá er fjölbreytt hópastarf til staðar hjá KAON sem og fjölbreytt aðstoð í boði fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur á meðan á krabbameinsmeðferð stendur og eftir meðferð líka og má til að mynda nefna að tveir fastir hópar, skapandi handverk og kátir karlar, hittast reglulega þar sem um 10-15 manns hittast í hópastarfinu sem sjálfboðaliðar halda utan um.

Félagið hefur einnig verið sýnilegt á viðburðum í tengslum við Bleikan október og Mottumars sl. ár og í gegnum tíðina veitt ýmsum hópum fræðslu um málefni er varða krabbamein. Nýverið hélt félagið ásamt Norðankrafti, sem er stuðningshópur fyrir krabbameinsgreinda á aldrinum 18-40 ára, kynningarfund fyrir heilbrigðistarfsmenn þar sem ríflega 30 manns mættu og fengu fræðslu um starfsemi félaganna til að hægt sé að koma upplýsingum áfram til krabbameinsgreindra um hvar sé aðstoð að finna.

Þá er einnig samstarf er við Eirberg sem hefur aðstöðu hjá félaginu og sér hjúkrunarfræðingur um að aðstoða konur sem hafa farið í fleygskurð eða brjóstnám með ráðleggingar um gervibrjóst, brjóstahaldara og ermar til að meðhöndla sogæðabjúg.

Og í ár hófum við einnig samstarf við Kraft um afnot af aðstöðu hjá félaginu einu sinni í mánuði fyrir sína félagsmenn og veita stuðning.

Það er sem af árinu 2022 eru rúmlega 330 viðtöl skráð og þar af 76 komur í Eirbergsþjónustuna. Starfsemin hægir aðeins á sér á sumrin og færri að bóka viðtöl en í raun má segja að komur til KAON séu svipaðar og á árinu 2021. Þó má segja að mesti munurinn á milli ára núna er að hópastarf og námskeið fara af stað með mun meiri krafti en fyrir covid.

Félagið gæti þó ekki gert það sem það gerir nema með stuðningi KÍ og ekki síst vegna þess samfélags sem við búum í. Starf Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis byggist alfarið á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja á svæðinu, auk þess sem félaginu er úthlutað styrk úr Velunnarasjóð Krabbameinsfélags Íslands á ári hverju.

Félagsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis eru einnig mikilvægur hlekkur í þeirri þjónustu sem félagið getur veitt og geta félagsmenn KAON fengið niðurgreiðslu á kostnaði vegna dvalar á sjúkrahóteli á meðan krabbameinsmeðferð stendur. Félagsmenn eru núna tæplega 1600 og bættust 77 nýjir við á þessu ári og þakkar félagið kærlega fyrir framlag þeirra.

Við erum með nokkra sjálfboðaliða sem aðstoða okkur reglulega. Þeir hafa ýmis hlutverk eins og að sjá um hópastarf á okkar vegum, taka á móti fólki, hella uppá kaffi og ganga frá eftir hittingana. Það er mjög dýrmætt að hafa sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að aðstoða félagið.

En betur má ef duga skal. Samkvæmt fréttum og viðtali við Höllu Þorvaldsdóttur framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Íslands er talið er að á næstu 13 árum geti krabbameinstilvikum fjölgað hér á landi um allt að 40% og er þar fyrst og fremst öldrun þjóðar og fjölgun hennar sem hefur áhrif.

Ljóst er að ef spá rætist muni hópur þeirra sem sækir þjónustu til KAON og KÍ fara stækkandi og þarf að vinna markvisst að því nú að horfa fram á veginn og undirbúa félagið fyrir aukna starfsemi og umsvif þannig að hægt sé að veita krabbameinsgreindum góðan og mikilvægan stuðning á meðan meðferð stendur sem og áframhaldandi stuðning eftir að meðferð lýkur t.d. varðandi fylgikvilla í kjölfar meðferðar.

Ljósið í myrkrinu er hins vega sú að miklar framfarir eru á sviði vísinda og meðferðarúrræða sem í boði eru og sem betur fer er líka búist við því að vegna þessara framfara muni þeir sem hafa einhvern tímann fengið krabbamein fjölga um 50% og fyrir það ber að þakka.

Þá er það einnig ljós í myrkrinu að núverið bárust fréttir af heimild fyrir hönnun og áætlanagerð vegna byggingar nýrra legudeildarbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri og er þá um leið gert ráð fyrir verulegri endurnýjun á eldra húsnæði sem nýta á í auka dag- og göngudeildarþjónustu sem sinnir m.a. lyfjameðferðum við blóð- og krabbameinum. Án þess að þekkja það sjálf á eigin skinni, hvernig það er að þurfa í krabbameinsmeðferð, þá get ég vel ímyndað mér mikilvægi þess að geta sótt meðferðarúrræði sem næst heimabyggð og þann stuðning sem þar er að finna í stað þess að sækja meðferðir til Reykjavíkur. Reyndar hefur reynslan sýnt okkur það líka, aðilar utan skilgreinds þjónustusvæðis KAON eru sækja meðferðir á SAK og leita þá einnig til félagsins fyrir stuðning. Miðað við áætlaða fjölgun krabbameinstilfella vonast ég til að sjá starfsemina á Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis vaxa og dafna til að unnt verði að styðja við krabbameinsgreinda og aðstandendur á sem bestan hátt.

Mig langar til að ljúka erindi mínu á að þakka stjórn og starfsfólki Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis fyrir samstarfið og vel unnin störf, það er svo sannarlega í mörg horn að líta í starfsemi félagsins og um leið langar mig að þakka sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Ég sagði frá því hér fyrr að okkar samfélag hefur skipt sköpum í starfsemi félagsins og hér í samfélaginu nýtur félagið gríðarlegs stuðnings. Undanfarin 10 ár hafa Dekurdagar verið einn stærsti einstaki bakhjarl félagsins en þá taka fyrirtæki hér í bæ höndum saman fyrir tilstuðlan Ingu í Pedrómyndum og Vilborgar í Centró og standa fyrir Dekurdögum þar sem finna má ýmis tilboð þar sem allur eða hluti ágóðar rennur til félagsins. Verkefni þar sem margt smátt gerir svo sannarlega eitt stórt en stuðningur þeirra á árinu 2021 nam 4,3 milljónum króna og samtals frá árinu 2012 hefur stuðningur þeirra verið ríflega 20 milljónir króna.

Mig langar sérstaklega að þakka þessum kjarnakonum fyrir ómælda vinnu, stuðning og kraft í þágu félagsins – það munar svo sannarlega um minna – svo ekki sé nú talað um hversu dásamlegur yndisarður skapast um allt samfélag þar sem bleikar slaufur gleðja og gleðin skín á fjölmörgum viðburðum tengdum Dekurdögum. Mig langar til að biðja þær um að koma og veita örlitlum þakklætisvotti viðtöku.

Um leið og ég óska félaginu hjartanlega til hamingju með daginn óska ég þess að við eigum hér ánægjulega stund saman og fyrir hönd starfsfólks og stjórnar KAON þakka ég ykkur kærlega fyrir að koma og fagna með okkur í dag.

Selma Dögg Sigurjónsdóttir er formaður Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20