Fara í efni
Umræðan

Kerfið sem át einstaklinginn

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) rekur einu heilsugæsluna sem starfrækt er á Akureyri, þó húsnæðið sé nýtt og glæsilegt var það sprungið áður en það var tekið í notkun, en það er vegna þess fjölda sem heilsugæslan þjónustar. Fyrir nokkrum árum var sú ákvörðun tekin af þáverandi heilbrigðisráðherra að fyrir Akureyri og nærsveitir þyrfti að halda úti tvær heilsugæslustöðvar. En síðan þá hefur hringl og vandræði varðandi staðsetningu og útboð framkvæmdanna þvælst fyrir uppbyggingu á seinni heilsugæslunni. Ekkert hentugt húsnæði er í sjónmáli.

Þróunin á sér stað

Tveir heimilislæknar sem starfað höfðu lengi á HSN á Akureyri réðu sig fyrr í vetur til starfa hjá Heilsugæslunni Urðarhvarfi í Kópavogi. Þau vildu þó áfram búa á Akureyri og þjónusta stóran skjólstæðingahóp sinn sem telur um 1000 einstaklinga búsetta á Akureyri. Í fyrstu veittu þeir þjónustu frá aðstöðu sinni á Læknastofum Akureyrar en Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) kröfðust þess að þau störfuðu einungis í Urðarhvarfi. Nú þjónusta heimilislæknarnir skjólstæðinga sína með aðstoð tækninnar eða þá að bæði læknarnir og skjólstæðingarnir fara suður til að hittast þar í Kópavogi. Þá hefur heilsugæslan nýlega tilkynnt um kaup á vitjanabíl læknis, þar sem heimilt er að vitja skjólstæðinga á heimili sínu.

Forsvarsmenn heilsugæslunnar hafa ítrekað óskað eftir samtali við SÍ frá því í mars til að leysa þessa furðulegu stöðu, þar sem læknunum er meinað að starfa á starfsstöð á Akureyri en erindinu hefur ekki enn verið svarað. Þetta er spurning um veitingu á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu við fólk og ekki verður við þetta ástand lengi unað.

Kreddur og pólitík

Það er því ekki óeðlilegt að forsvarsmenn heilsugæslunnar velti því fyrir sér hvort kreddur um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og pólitískar skoðanir heilbrigðisyfirvalda séu að þvælast fyrir því að eitthvað þokist áfram í þessum málum.

Á Alþingi hef ég, ásamt þingmönnum þingflokks Sjálfstæðisflokksins, ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að fara í útboð á annarri heilsugæslunni sem til stendur að opna á Akureyri.

Í fréttatilkynningu frá HSN þann 18. október 2023 kom fram að HSN og heilbrigðisráðuneyti ætli sameiginlega að gera greiningu á því hvort hyggilegt sé að stofnunin reki báðar stöðvarnar eða hvort rekstur annarrar þeirrar verði boðin út. Þetta kom mér ánægjulega á óvart svo ég fylgdi þessu eftir í mars með fyrirspurn á heilbrigðisráðherra um framvindu greiningarinnar. Mikil voru vonbrigðin þegar svarið leiddi í ljós að enginn ákvörðun verið tekin af hálfu ráðherra að bjóða út reksturinn og því engin greining farin af stað, þrátt fyrir fyrri fyrirheit.

Betra kerfi fyrir alla

Það er mikilvægt að stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir fagmenntað heilbrigðisstarfsfólk svo við missum ekki dýrmæta þekkingu og reynslu af svæðinu eða jafnvel landinu. Auk þess þarf að tryggja að allir hér njóti framúrskarandi heilbrigðisþjónustu og að kerfið bjóði upp á raunverulegt valfrelsi einstaklinganna til að skrá sig á þá heilsugæslustöð sem þeim hentar.

Einstaklingurinn á að vera hjartað í heilbrigðiskerfinu okkar. En hér virðist sem að um 1000 skjólstæðingar séu algjört aukaatriði í skipulagi þjónustunnar sem miðar allt að kerfinu en ekki einstaklingunum.

Að lokum skora ég á heilbrigðisráðherra að gera það sem rétt er í þessu fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem hér eru undir og bjóða út rekstur annarrar heilsugæslunnar á Akureyri tafarlaust.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00