Kæra Sambíó

Við höfum lengi verið saman í þessu. Ég man eftir að hafa séð James Bond og Star Wars þegar ég var sjö eða átta og í hverri viku hékk ég annað hvort með þér eða Borgarbíói. Á menntaskólárunum breyttistu í diskótek og tónleikastað en svo uxum við bæði frá dansinum; Þú varðst aftur bíó og ég hélt áfram að elska bíó.
Á síðustu 15 árum hef ég heimsótt þig eflaust mánaðarlega en í seinni tíð hef ég fengið á tilfinninguna að þú viljir ekki endilega fá mig í heimsókn. Það er eins og þú viljir frekar hanga með krökkum og sýna þeim ofurhetjumyndir.
Bræður þínir og systur í Reykjavík eru meira fyrir gestagang og eru dálítið uppátækjasöm. Upp á síðkastið hafa þau verið að sýna sígildar myndir á borð við Godfather og framundan eru sýningar á Taxi Driver og Butch Cassidy and the Sundance Kid.
Ég viðurkenni að ég veit fátt um þig en þetta er greinilega ekki alltaf auðvelt. Þú hugðist meira að segja leggja upp laupana; gefast upp.
Þú mátt vita að ég kann vel að meta þig. Þú stendur þig vel og krakkarnir í afgreiðslunni standa sig með prýði. En það er pínu eins og þú hafir misst trúna á verkefninu. Kannski ekki skrýtið, miðaldra fólk og eldri virðist hafa gleymt þér.
Um daginn sýndirðu óskarsverðlaunamyndina Conclave. Ég held þú hafir sýnt hana þrisvar. Ég mætti á eina sýninguna og fannst myndin frábær. Ég hugsaði með mér að ef hún hefði verið auglýst betur og ef oblátur og rauðvín hefðu fylgt miðanum hefðu miðaldra Eyfirðingar og nærsveitamenn flykkst í bíó.
Ég veit það ekki. Kannski vantar 20 þúsund manns í fjörðinn svo hægt sér að bjóða upp á bíó sem er dálítið erlendis. Í erlendis bíóum eru stundum hádegissýningar og hægt að fá kaffi og öl. Á Spáni fer eldra fólk mikið í bíó seinnipartinn en þá er miðinn eitthvað ódýrari.
Þú ert vissulega komið á aldur en það er nóg eftir; Möguleikarnir eru óþrjótandi. Bíó eru í sókn. Að horfa á myndband er góð skemmtun en bíóferð er annað og miklu meira. Sum staðar eru leikverk sýnd beint í bíóhúsum, íþróttaviðburðir og óperur. Ég veit, ég veit, kannski kemur enginn. En ég lofa að mæta og draga nokkra með mér.
Við erum saman í þessu.
Þinn
Arnar Már
Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri


Óvissa þegar heimilisbókhaldið gengur ekki upp

OFF – Oflæti, fákunnátta og fordómar

Að komast frá mömmu og pabba

Hættuleg ofnotkun svefnlyfja
