Fara í efni
Umræðan

Jóni Inga Cæsarssyni svarað

Jón Ingi Cæsarson hefur undanfarið farið mikinn í umræðunni um skipulagsmál á Oddeyri. Ég hef ekki séð ástæðu til að elta ólar við skrif hans hingað til, en færsla hans á blog.is vegna viðtals sem tekið var við mig á mbl.is var svo neikvæð og leiðinleg að ekki varð við unað.

Jón Ingi segir að ég sé svo upptekinn af eigin ágæti að ég sjái ekki að hugmyndum mínum hafi hreinlega verið hafnað. Ég er sjálfsagt full ánægður með sjálfan mig, en ég veit þó ekki til þess að hugmyndunum hafi hreinlega verið hafnað, þótt sumir óski þess. Skipulagsráð auglýsti aðalskipulagsbreytingu þar sem ákveðið var að byggja mætti upp í 25 metra hæð. Ég tel að skipulagsráð hafi ekki skilið tillöguna Seglin við Pollinn þegar ráðið ákvað að auglýsa þá hámarkshæð. Líklegast er því um að kenna að þegar tillagan var fyrst kynnt var hún ekki tilbúin og minnti ekki nægilega á segl. Hugmyndin sem lá að baki tillögunni stendur fyrir sínu og þess vegna höfum við nú rétt af kúrsinn og eigum vonandi eftir að gera enn betur.

Jón Ingi villir fyrir um fólki og talar um 11 hæða kassa. Látum það vera að honum finnist byggingarnar kassalega, en hann fer öldungis rangt með hæð húsanna. Hæsta byggingin er níu hæða og sú lægsta 7 .

Jón Ingi fer einnig með rangt mál þegar hann fullyrðir að tillögunni hafi verið hafnað af flugyfirvöldum. Ég hef reyndar tekið eftir því að margir halda þessu fram og einnig að Akureyrarbær hefur því miður ekki séð ástæðu til að leiðrétta þann misskilning. Það er ámælisvert og mikill ljóður á kosningunni. Isavia, sem fer með flugvallamál á Akureyri, hefur gefið það út að óhætt sé að byggja upp í 30metra. Okkar tillaga er innan þeirra marka.

Ég hef ekki sent bæjarbúum pillu eins og Jón Ingi heldur fram, en ég er ósáttur við hvernig bæjarstjórn hefur staðið að málum. Finnst ákvörðun hennar um íbúakosningu vera tekna í fljótfærni og án ígrundunar og tefla áformum um uppbyggingu svæðisins í óvissu. Afgreiðsla bæjarstjórnar ber öll merki þess að hún vill drepa málinu á dreif og kannski þess vegna treysti hún sér ekki til að láta kjósa um Seglin við Pollinn, tillöguna sem leitt hefði til tafarlausrar uppbyggingar svæðisins.

Skipulagsmál á Eyrinni hafa verið í uppnámi undanfarna áratugi og hamlað uppbyggingu þess. Að enn skuli ekki vera hafnar framkvæmdir samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sýna betur en allt annað að það var byggt á óraunsæi. Enda þótt sátt hafi ríkt um skipulagið var það augljóslega ekki sá rammi sem þurfti til að uppbygging hæfist.

Jón Ingi gerir grín að arkitektum sem stundum gleymi sér í sínum litla hugmyndaheimi við teikniborðið og finnst langsótt að vísa í söguna. Það er dapurlegt að fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar, maður sem vill láta til sín taka á pólitískum vettvangi og sá sem helst hefur haft sig í frammi í mótmælum gegn tillögunni Seglin við Pollinn, skuli tala af svo yfirlæti og vanvirðingu um helstu þætti sköpunar. Er mark takandi á slíkum manni? Án hugmynda væri heimurinn dapurlegur staður, enda eru þær forsenda sköpunar og framþróunar. Sagan nærir hugmyndirnar og gefur okkur stað í tilverunni.

Að gefnu tilefni, vil ég að lokum bæta við að ef einhvers staðar er ástæða til að byggja hátt á Eyrinni, þá er það aftan við Gránufélagshúsið. Það sem þar verður byggt mun blasa við tugþúsundum ferðalanga sem fara um höfnina og því verður hægt að gera ríkari kröfur um vandaða hönnun en innar á Eyrinni. Vegna þess að íbúðir yrðu eftirsóttar væri fjármögnun verkefnisins öruggarari en ella. Seglin við Pollinn myndu draga vagninn í frekari uppbyggingu svæðisins, yrðu ígildi kjölfestufjárfestis, þess sem þarf til að hægt sé að hrinda stórum áformum í framkvæmd.

Nú fer hver að verða síðastur til að kjósa, enda lýkur kosningu í dag. Ég hvet Akureyringa til að kjósa 25 metra tillöguna. Hún ein er grundvöllur kröftugrar uppbyggingar Eyrarinnar.

Virðingarfyllst,

Orri Árnason er arkitekt hjá Zeppelin arkitektum.

Myndband frá Zeppelin arkitektum um Gránufélagsreitinn

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00