Fara í efni
Umræðan

Jákvæð sálfræði

Í vetur hef ég stundað nám í Jákvæðri sálfræði (JS) við Endurmenntun HÍ. Margir hafa verið forvitnir um námið og vil ég í eftirfarandi grein segja frá því. Með skrifunum er ég með ákveðinn markhóp í huga sem er fólk við starfslok á vinnumarkaði vegna aldurs og mun ég fjalla um heilsu og hvernig JS getur komið þar að gagni. Jákvæð sálfræði á samt erindi til allra sem vilja auka vellíðan sína og vöxt.

Hvað er jákvæð sálfræði?

Jákvæð sálfræði (JS) er nálgun sem gengur þvert á allar greinar sálfræðinnar og allar fræðigreinar sem fjalla um mannlega hegðun, hugsun og tilfinningar – og samspilið þar á milli. JS byggir á vísindalegum rannsóknum á því sem gengur vel og fær fólk til að blómstra.

Helstu kenningar innan jákvæðu sálfræðinnar eru um velsæld (wellbeing) og eru lykilhugtökin hamingja og/eða farsæld. Einnig eru heilsa, núvitund, hugarfar, tilfinningar, þrautseigja og styrkleikar allt þættir innan jákvæðrar sálfræði sem hafa verið mikið rannsakaðir. Jákvæðar tilfinningar eins og gleði, ánægja, ást, áhugi og þakklæti eru allt tilfinningar sem stuðla að hugrænni, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Þær auka getu okkar til að takast á við erfiðleika með þrautseigju og geta haft jákvæð áhrif á samskipti Rannsóknir sýna einnig að núvitundarþjálfun minnkar ekki einungis líkamlegan og andlegan vanda heldur eykur vellíðan með því að auka meðvitund, athygli, tilfinningastjórnun og samkennd sem hjálpar okkur að bregðast við af meiri yfirvegun og ró í öldugangi lífsins.

Þjóðir heims eru í auknum mæli að innleiða þá stefnu að hafa vellíðan þegnanna að leiðarljósi þegar teknar eru mikilvægar stjórnvaldsákvarðanir eða þegar lög eru sett á sviði stjórnsýslunnar. Það hefur sýnt sig að þjóðfélög sem leggja mesta áherslu á auðsöfnun eru síður að beina kastljósinu á það sem skiptir mestu máli fyrir vellíðan þegnanna. Heldur ættu þau að beina athyglinni á heilsueflingu sem einkennist af forvörnum, umhyggju og jafnræði sem skilar mestum árangri til lengri tíma litið.

Heilsa

Góð heilsa þjónar mikilvægu hlutverki í vellíðan hverrar manneskju og gefur okkur tækifæri til að lifa lífinu til fulls. Heilsa er viðfangsefni hvers einstaklings sem og þjóðfélagsins alls, eins og sýndi sig vel í covid 19 heims faraldrinum. Með samstilltu átaki er hægt að koma miklu til leiðar. Fyrir suma þýðir góð heilsa það að vera laus við sjúkdóma og verki og geta stundað vinnu og áhugamál án mikilla vandkvæða. Fyrir aðra þýðir það að vera grannur og í góðu formi. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbriðisstofnunarinnar (WHO) frá 1948 er heilsa ekki einungis fólgin í því að vera sjúkdómalaus heldur í almennri velferð einstaklings, bæði líkamlegri andlegri og félagslegri. Jákvæð heilsa er svo hæfnin til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum áskorunum í lífinu. Heilsuefling er það ferli sem gerir fólki kleift að hafa aukin áhrif á heilsu sína og bæta hana. Forvarnir eru mikilvægur þáttur í heilsueflingu.

Lífið við starfslok og JS

Líta má á starfslok bæði sem jákvætt eða neikvætt tímabil fyrir þá sem láta af störfum. Vegna þess hve vinnan er mikilvæg í samfélaginu og mikill hluti af lífi hverrar manneskju, líta sumir á starfslok sem efnahagslegan, tilfinningalegan og/eða sálfélagslegan missi. Hins vegar má líta á starfslok með augum jákvæðrar sálfræði sem nýtt upphaf með auknu frelsi og meiri tíma fyrir sambönd og allskyns athafnir.

Það getur verið áskorun að eldast vel. Með hækkandi aldri verða viðbrögðin hægari, fólk verður gleymnara, og hreyfigeta minnkar. Skynfærin sljóvgast og oft gerist þetta hægt og rólega án þess að við veitum þessum breytingum mikla athygli fyrr en þær eru orðnar til vandræða. Margir álíta jafnvel svo að þetta sé eðlileg þróun sem ekkert er hægt að vinna á móti. Heimspekingurinn Susan Neiman segir að Vesturlandabúar einblíni um of á æskuna. Við óttumst að bestu árin séu að baki er við eldumst og hverfum af vinnumarkaði en ef við lítum öðrum augum á það og fögnum árafjöldanum gætu bestu árin verði framundan. Ef fólk vinnur í því að eldast vel með því að þróa með sér hugarfar vaxtar og bjartsýni og hugar að líkamlegu formi er hægt að byggja upp líkamlegan og andlegan styrk fram eftir öllu. Rannsóknir á langlífi sýna að bjartsýnt og hamingjusamt fólk lifir allt að tíu árum lengur en þeir sem eru svartsýnir og óhamingjusamir. Menec 2003, komst að því að tíðni þátttöku í félagsstarfi tengist meiri hamingju, betri virkni og lægri dánartíðni aldraðra.

Verkfæri jákvæðrar sálfræði geta veitt eldra fólki stuðning og geta haft mjög jákvæð áhrif á líf þess og hjálpað því að njóta lífsins á sem bestan hátt. Afrakstur rannsókna innan JS eru s.k. jákvæð inngrip sem eru æfingar eða athafnir sem hafa verið þróuð í því skyni að bæta andlega og líkamlega heilsu einstaklinga og/eða almenna vellíðan. Þessi inngrip eru t.d. að iðka þakklæti reglulega, þekkja og nýta styrkleika sína á jákvæðan hátt, stunda núvitundarhugleiðslu og hreyfingu, eiga í jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum, þróa með sér hugarfar grósku og vera virkt í að læra nýja hluti. Einnig má nefna að þátttaka í sköpun og listum hjálpar til við að komast í flæðis ástand þar sem fólk gleymir sér og öðlast ró og frið frá t.d. erfiðum tilfinningum. Sjálfboðavinna hefur einnig þau áhrif að fólk upplifir meiri tilgang og sjálfsvirðingu. Öll þessi inngrip hafa sýnt að þau geta minnkað þunglyndi, aukið fólki bjartsýni, von og þakklæti, sem sagt bætt almenna vellíðan þess.

Jákvæðum inngripum er hægt að beita í heilbrigðiskerfinu en þau ætti einnig að nota í umhverfi sem þegar er hannað fyrir jákvæð og uppbyggjandi samskipti, svo sem í samfélögum og klúbbum eldri borgara. Nútíma fjölmiðlar eru mikilvægar leiðir til að tengjast og ná til aldraðra. Með því að kenna eldri borgurum grundvallaraðferðir, sem geta leitt til meiri bjartsýni, aukinnar jákvæðrar hugsunar og meiri samfélagslegrar þátttöku, er hægt að auka lífsgæði þeirra. Kerfisbundin endurskoðun á inngripum sem ætlað er að auka vellíðan eldra fólks bendir til þess að hóptengd félgasleg inngrip hafi mjög jákvæð áhrif á geðheilsu þátttakenda og ættu því að vera í forgangi.

Námið mitt í jákvæðri sálfræði hefur verið frábært á allan hátt. Ég hef notið kennslu og leiðsagnar kennara í fremstu röð í heiminum á þessu fræðasviði sem hefur veitt mér innsýn í hvað ég get gert fyrir sjálfa mig og aðra til að öðlast meiri vellíðan. Lífið er línudans hjá öllum og það er mikilvægt að temja sér bjartsýni og vera vongóður því rannsóknir sýna að það eykur vellíðan og langlífi. Allar tilfinningar eiga rétt á sér og það er okkar að reyna að bregðast við þeim á þann hátt að við mjökumst í átt til meiri þroska og sáttar við okkur sjálf og aðra. Að hafa góða heilsu er þjóðfélagslegt samvinnuverkefni allra og hver einstaklingur þarf að taka ábyrgð á heilsu sinni og gera hvað hann getur til að líða sem best líkamlega, andlega og félagslega. Á þessari vegferð hef ég einnig lært ýmis forvitnileg hugtök eins og eitruð jákvæðni, jákvæð heilsa, tilfinningahugrekki, hugarjórtur og áfallaþroski.

Síðast og ekki síst hef ég kynnst mögnuðu fólki í náminu sem ég hef klifið allan tilfinningaskalann með og við sem hópur stefnum á að viðhalda góðum tengslum áfram, sem er dýrmæt uppskera.

Að lokum ein spurning til þín lesandi góður: Hvað ert þú að gera í því að stuðla að góðri heilsu hjá þér, þinni fjölskyldu og/eða í þínu samfélagi?

Þóra Hjörleifsdóttir er tilvonandi útskriftarnemi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun HÍ

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20