Íþróttahús almennings á félagssvæði Þórs
Með því að reisa íþróttahús á starfssvæði Þórs leysast ekki bara aðstöðuvandamál KA á Brekkunni heldur opnast algjörlega nýr möguleiki fyrir almenningsíþróttir í bænum. Það er vegna þess að skólaíþróttirnar á svæðinu eru nú þegar í eigin húsnæði. Íþróttahús á félagssvæði Þórs væri íþróttahús fullorðna fólksins á Akureyri. Frá morgni fram yfir síðdegiskaffið væri húsið helgað íþróttastarfi fullorðinna með áherslu á 60 ára og eldri. Lýðheilsuhús Akureyrar hvaðan lýðheilsustarfið í bænum yrði gert út. Betri heilsa, aukin hreyfing þeirra sem hverfa af vinnumarkaðinum.
Sjáðu það fyrir þér. Íþróttahús, þar sem fullorðnir geta komið saman, eytt hluta úr degi í fallegu umhverfi þar sem veitingasala færi fram, hvar við gætum haft selskap, stundað hreyfingu eða æft íþróttir á meðan dimmu vetrarmánuðirnir ganga yfir. Hús sem gefur fullorðnum Akureyringum tækifæri á að stofna með sér íþróttafélag og efnt sér til ánægju til íþróttamóta við önnur bæjarfélög. Íþróttastarfið á daginn þarf ekki að vera undir merkjum Þórs en Þór myndi opna deildirnar sínar, þjálfun og aðstöðu þannig að Akureyringar gætu á daginn lagt stund á körfubolta, fótbolta, handbolta, göngufótbolta, körfuboltaþrautir, handboltaþrautir, badminton og pílukast auk nýrra möguleika í ýmsum greinum sem orðnar eru keppnisgreinar meðal fullorðinna í Evrópu eins og Cornhole, Ten-Pin Bowling, Skittles. Hvers vegna eru fullorðnir á Akureyri ekki hluti af þessu íþróttasamfélagi fullorðinna sem fer vaxandi út um allan heim?
Bardagadeildir Þórs, taekwondo og hnefaleikar opnar fullorðnum á daginn, en það færist í vöxt að fullorðnir æfi þessar bardagaíþróttir sér til heilsueflingar. Og svo auðvitað þær íþróttir sem stækka hvað mest í heiminum í dag, rafíþróttir. Það styttist í að fyrstu Lan-spilarar landsins fari af vinnumarkaði og innan Þórs er öflug rafíþróttadeild. Það er auðvelt að sjá fyrir sér ávinninginn af því að opna jafn fjölbreytt félag og Þór er almenningi, hvað mikið ávinnst með lítilli fyrirhöfn. Svo vill nú til að frjálsíþróttafélagið UFA deilir keppnis- og æfingasvæði með Þór og þangað er hægt að sækja enn frekari möguleika í ástundun fullorðinna Akureyringa. Innri hlaupabrautir UFA á útisvæðinu eru upphitaðar og þar hefur almenningur verið að ganga sér til heilsubótar auk þess sem Boginn knattspyrnuhús hefur verið vinsælt til slíks. Þetta er allt hægt að tengja saman við gönguleið í íþróttahúsinu og lengja hringinn. Á veturna er venjulega töluvert snjóalag á svæðinu og þá væri hægt að leggja skíðagöngubrautir.
Leggðu þetta saman, þetta eina hús og sú starfsemi sem nú þegar er á svæðinu, og við höfum umbylt allri umgjörð fullorðinna Akureyringa til að rækta líkama og sál sem leiðir af sér betri heilsu þeirra og hamingjusamari tilveru. Svo vill til að þetta er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í lýðheilsumálum.
En hættum ekki hér, göngum lengra í hugmyndinni. Háskólinn á Akureyri, sem er í næsta nágrenni, hefur verið að auka námsframboðið á svæðinu í gegnum samstarf við Háskólann í Reykjavík. Þetta hús myndi opna á möguleika Háskólans á Akureyri að bjóða upp á metnaðarfullt íþrótta- og þjálfunarnám Háskólans í Reykjavík hér fyrir norðan. Það myndi lyfta upp öllu íþróttastarfi allra félaga á svæðinu. Það er jafnvel hægt að sjá fyrir sér kennslustofur og fyrirlestrarsal í tengslum við húsið.
Þetta eina hús á Þórssvæðinu er sú einstaka aðgerð í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem getur af sér margfaldan ávinning langt út fyrir hefðbundið starf íþróttafélaganna. Að reisa það ekki er beinlínis fjandsamlegt íþróttastarfinu í bænum. Upp komið þá leysir það aðstöðuvanda Þórs og það leysir aðstöðuvanda KA á Brekkunni. Það er orðið aðkallandi að leysa úr húsnæðisvandræðum Bogans með geymslur, sturtuaðstöðu og snyrtingar fyrir áhorfendur en húsið leysir það. Húsið yrði miðstöð lýðheilsumála í bænum og stuðlar að betra og heilsusamlegra lífi 60 ára og eldri og minnkar álag á heilsuþjónustuna í bænum. Húsið gæti orðið vettvangur nýs háskólanáms sem myndi styrkja allt íþróttalíf í bænum. Húsið yrði íþróttavettvangur fullorðinna Akureyringa allt árið. Þetta eina hús.
Að þessu sögðu, hvers vegna ættum við ekki að gera þetta? Og hvers vegna ættum við að bíða með að framkvæma þetta?
Og hvers vegna ættum við ekki að semja við fasteignafélag um fjármögnun? Við myndum leigja húsið af þeim til 15 ára og eignast það að loknum leigutímanum.
Hvers vegna ættum við ekki að taka fyrstu skóflustunguna í haust?
Getur einhver svarað því?
Geir Hólmarsson er áhugamaður um íþróttastarf
Smelltu hér til að lesa fyrri grein Geirs, Akureyrarbær og íþróttamannvirkin