Fara í efni
Umræðan

Íslenska, nútími og lestur

Dagur íslenskrar tungu er nýliðinn. Dálítið merkilegt að aðeins einn dagur á ári skuli helgaður tungumáli fámennrar þjóðar, máli sem hvergi er talað annars staðar.

Af og til vakna spurningar um stöðu íslenskunnar. Sumir telja þá að allt sé að fara til andskotans meðan aðrir eru sannfærðir um að seiglan og þjóðarstoltið og menningararfurinn og hvað þett heitir allt saman muni bjarga málinu. Það fari ekki neitt. En hver ætli sé raunveruleg staða málsins núna árið 2020? Ég hef ekki í höndum neina rannsókn og þess vegna er þessi grein dæmi um mér-finnst-vísindi, sem eru ekki endilega verri en önnur. Ég veit það þó að fullyrðingin um að Íslendingar geti einir þjóða lesið miðaldabókmenntir sínar eins og að drekka vatn, er goðsögn.

Á hálfrar aldar reynslu af því að kenna móðurmálið get ég í fyrsta lagi sagt að málhæfni unglinga í framhaldsskólum hefur tekið gríðarlega miklum breytingum. Meðan ekki var neitt annað til en bækur, blöð og tímarit þurftu nemendur að lesa og lesa til að öðlast vitneskju og um leið þroskaðist og jókst orðaforði þeirra og alls kyns æfingar í skólum urðu til þess að nemendur urðu yfirleitt betri málnotendur eftir því sem á leið skólagönguna. Þetta var þegar á heildina var litið gott og öflugt, en alltaf hafa verið til einhverjir sem hafa skotið sér undan að gera það sem á að gera.

Þegar leið nær aldamótum fór að bera á breytingum, hann fór heldur að þyngjast róðurinn hjá sumum nemendum ef þeir voru að lesa fornsögurnar eða heilar skáldsögur eins og Sjálfstætt fólk. Ég man eftir því skömmu eftir aldamótin að hafa verið að lesa þá góðu sögu með næstum tvitugum nemendum í hörkusterkri eðlisfræðideild. Þar á meðal voru nokkrir sem komust ekkert áfram í yfirferðinni og ég settist með þeim, sagðist ekki skilja að þeir, sem væru búnir að vera fjórtán ár í skóla og lesa einhver kynstur af fræðibókum gætu ekki aulast yfir eina tiltölulega einfalda íslenska skáldsögu. Þeir sögðu mér þá, sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei á allri skólagöngunni lesið neitt annað en námsefnið, aldrei lesið unglingabækur, reyfara, skáldsögur. Aldrei farið á bókasafn til að finna eitthvað sem þá langaði til að lesa, þá langaði bara aldrei til þess.

Síðustu tíu til fimmtán árin sem ég kenndi fann ég stöðugt fyrir því og stigvaxandi hvað málskilningi nemenda hrakaði. Orðaforðinn varð minni og einfaldari og ef ég benti á að það mætti nú orða eitthvað á annan háttt urðu augun sífellt meira starandi og svörin að það væri bara ekki hægt að segja þetta öðruvísi.

Ég er nú svo einfaldur að ég held að aðalskýringarnar á þessum vanda séu tvær. Annars vegar að á tímabili lagðist að miklu leyti af að lesa. Heimilin eiga sinn þátt í því. Bækur urðu ekki lengur stofustáss eða hafðar þar sem nemendur sáu þær heima hjá sér. Þær fóru í geymslu og svo á Herinn. Alltaf fóru krakkar á bókasöfn, en kannski aðallega þeir sem yngstir voru. Bækur handa unglingum voru tæplega til. Það var svo sem ekkert nýtt. Það voru fáar unglingabækur þegar ég var að alast upp. Það gæti vel verið að við ættum svo sem tveggja áratuga kynslóð sem hefur ekki alist upp við umtalsverðan lestur. Vonandi er að það lagist því við eigum nú drjúggóðan hóp góðra rithöfunda sem þessi misserin skrifa barna- og ungmennabækur, en þeir mættu vera svo miklu miklu fleiri. Og vonandi kemst aftur í tísku að lesa.

Hins vegar er það menningarbyltingin sem varð með myndböndum og tölvuleikjum, endalausum þáttum sem hlaðið var niður og svo framvegis og allt var það á ensku. Og tíminn sem í gamla daga hefði verið varið í að lesa fór í að gera þetta, sem var svo miklu skemmtilegra en að lesa einhverjar pappírsbækur. Og krakkarnir voru til friðs, bara inni í herbergi, að vísu á ensku, en annars var allt í lagi og ró.

Í skólanum varð ég var við þetta. Meira að segja spurði nemandi minn í íslensku hvort hann mætti ekki skila ritgerð á ensku. Ég spurði hvernig honum dytti það í hug. Hann svaraði að hann ætti miklu auðveldara að segja skoðun sína og koma tilfinningum sínum á framfæri á ensku en íslensku. Nemendur tala sífellt meira saman á ensku en íslensku, skrifa smásögur og yrkja ljóð á ensku og þeir gátu til dæmis rennt í gegnum Lord of the Rings doðrantana á sama tíma og þeir gátu ekki þumlungað sig í gegnum Gylfaginningu. Fólk er í endalausu sambandi í tækjunum sínum, á ensku, og tónlistarfólk, og margt annað listafólk lifir að miklu leyti í enskum málheimi, yrkir enska texta, hlaðvörpin og Instagrömmin og allt það dót er á ensku. Og það er kúl og töff að sletta, jafnvel einföldustu orðum, ekki eingöngu sértæku eða fræðilegu. Þar nægir að hlusta á tónlistarþætti og viðtöl um hvaðeina.

Goðsögnin um að Íslendingar geti lesið miðaldabókmenntir eins og greinar í Mogganum eða Fréttablaðinu er goðsögn vegna þess að þetta geta ekki lengur aðrir er þeir sem hafa lagt á sig að læra það og það eru ekki margir unglingar eða fólk undir þrítugu - fertugu sem hafa gert það. Við hlæjum ekki lengur að Bretum sem geta ekki lesið Beowulf.

Þegar upp koma deilur um íslenskt mál er það helst hvort eigi að segja ég vil og hana langar eða ég vill og henni langar, eða hvort sé rétt að skrifa með ufsiloni eða tveimur n-um. Þetta eru óttaleg smáatriði, en nef margra nær ekki lengra. Miklu nauðsynlegra væri að eyða tíma sínum og orðum í að fjalla um málkenndina, málnotkunina, orðaforðann, það eðli málsins að segja það sama með mismunandi móti og svo framvegis. Ég á við MÁLIÐ sjálft, ekki stafsetninguna, því hún er ekki málið. Málið er það sem við segjum. Svo getum við skrifað það og lesið, það er annar handleggur.

Ég vona að lestrarátak verði langvarandi, mikið verði skrifað fyrir ungt fólk á öllum stigum og skólunum gert kleift að þjálfa íslensku miklu meira og betur en tekist hefur á undanförnum áratugum. Lestur er lykill að orðaforða og málnotkun. En fyrst og fremst liggur ábyrgðin á málhæfni barna hjá foreldrunum, að þeir séu vakandi yfir þessu, lesi með krökkunum, efli með sér metnað til að börnin þeirra nái sem bestum tökum á móðurmálinu. Skólarnir geta þetta ekki einir. Og auðvitað á það líka við um aðra en þá sem hingað hafa flust frá öðrum löndum, þeir eiga vissulega að fá tækifæri til að viðhalda og auka færni sína í sínu móðurmáli. Það má ekki gleymast.

En aftur að Degi íslenskrar tungu. Af hverju er hann bara einn? Eigum við ekki að leggjast á árar og fjölga þessum dögum? Við getum byrjað á því að hafa Dag íslenskunnar einu sinni í hverjum mánuði og þegar við höfum vanist því getum við haft þetta hálfsmánaðarlega og svo vikulega og endað á því að allir dagar verði Dagar íslensku.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00