Fara í efni
Umræðan

Í aðdraganda KSÍ þings

Á fimmtudag síðustu viku birtist grein eftir mig á miðlunum fotbolti.net og Akureyri.net.

Ég var búinn að ákveða fyrir birtinguna að tjá mig ekki frekar um þau mál sem þar var fjallað um. Gerði fyrirfram ráð fyrir að ekki yrðu allir á eitt sáttir við skrifin og jafnvel yrði vegið að höfundi á samfélagsmiðlum og í greinarskrifum annars staðar. Ég er sem betur fer ekki á samfélagsmiðlum þannig að skrif þar sé ég ekki.

Klukkan 15.47 sama dag og greinin birtist fékk ég símtal frá Jóni Rúnari Halldórssyni, stjórnarmanni í Íslenskum toppfótbolta (ÍTF), sem benti mér á að ég færi með rangt mál í greininni. Er mér það bæði ljúft og skylt að upplýsa lesendur og jafnframt að leiðrétta það sem rangt var farið með. Ég sagði sem sagt að í stjórn ÍTF væru 5 einstaklingar, allt karlmenn. Þarna hafði ég hlaupið illilega á mig. Breyting hafði orðið á stjórn ÍTF, líklega nokkrum vikum fyrr (ég finn ekkert um það á heimasíðu ÍTF) og nú eru 7 í stjórninni, 6 karlar og 1 kona. Starfsmenn eru síðan 2 karlmenn. Rétt skal vera rétt og því haldið til haga. Biðst ég afsökunar á þessari yfirsjón.

Ég fékk reyndar „ábendingar“ frá Jóni Rúnari um að margt annað væri rangt í greininni. Ég stend hins vegar við allt annað sem þar kemur fram varðandi framgöngu ÍTF og tel að fyrri ræða Inga Sigurðssonar á ársþingi KSÍ á laugardaginn staðfesti orð mín fullkomlega. Bendi þeim sem ekki hafa heyrt eða séð ræðu Inga að leita hana uppi og hlusta vandlega.

Aðeins meira um símtalið sem ég nefndi hér að framan. Jón er líklega kominn eitthvað á sjötugsaldur eins og ég, þetta var mjög „uppbyggilegt“ símtal.

Augljóst var strax í upphafi símtalsins að grein mín hafði komið illa við einhvern eða einhverja, kannski var samviskan ekki hrein? Ég veit það ekki.

Mér var tilkynnt af Jóni Rúnari að ég væri „mannleysa“ en hann þekkir mig samt ekkert að eigin sögn. Það er líka stórlega ýkt að segja það að ég hafi fengið hógværar ábendingar um það sem rangt væri farið með. Jón kvartaði undan því að hans væri ekkert getið i greininni, spurði hvort það hefði verið sölutrix að geta sín í titli greinarinnar. Fyrirsögnin var: Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætis bílstjóra?

Þrátt fyrir töluvert magn af skítkasti, að mér fannst, mér til handa þá hlustaði ég vel á Jón. Það vel að hann þurfti að spyrja, hvort ég væri farinn. Kannski vanur því að skellt sé á hann.

Auðvitað leið ekki á löngu þar til að ég kvaddi umræddan Jón með þeim orðum að ég hefði ekkert meira við hann að tala og skellti á.

Í þessu stutta símtali, sem stóð í 4 mínútur og 43 sekúndur, náði Jón að kalla mig „mannleysu“ í þrígang fyrir utan annað sem hann lét yfir mig ganga. Ég hlustaði samt.

Samkvæmt orðabók þýðir mannleysa, huglaus og ómerkilegur maður. Ég skila hér með skömminni.

Hvað ætli Jón hafi sagt við Inga Sigurðsson eftir fyrri ræðu hans á KSÍ þinginu? Ekki kom hann i ræðupúltið til þess að láta Inga heyra það. Kannski var Jón ekki á þinginu. Ég veit það bara ekki. Kannski er Jón búinn að hringja í Inga og skamma hann. Kannski kann Jón að skammast sín og hefur hringt í Inga og beðið hann afsökunar. Kannski Jón hafi hringt í Inga og sagt honum í leiðinni hver bjó til ályktunina fyrir hönd ÍTF á stjórn KSÍ í haust. Ekki ætla ég að segja frá því að Jón Rúnar hafi gert það einn og óstuddur.

Jón Rúnar Halldórsson! Þú hefur unnið frábært starf fyrir þitt félag, FH, það verður aldrei frá þér tekið. Kannski ættir þú bara að vinna þar áfram. Það væri flott fyrir alla.

Ég ætla ekki að elta ólar við þig frekar, nema þú hringir í mig aftur, þú kallaðir á þetta svar eftir þetta ósmekklega símtal.

Með knattspyrnukveðju frá Akureyri,

Nói Björnsson.

Nói Björnsson var leikmaður meistaraflokks í knattspyrnu, þjálfari og stjórnarmaður, frá 1977-2021. Hann er heiðursfélagi í íþróttafélaginu Þór og hefur einnig fengið viðurkenningar fyrir störf í þágu íþrótta frá Íþróttabandalagi Akureyrar og Akureyrarbæ.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00