Hver er Akureyri framtíðar?
Akureyri er blómlegur bær, með öll lífsins gæði; er mikilvæg miðstöð þjónustu og skýr valkostur fyrir þau okkar sem vilja búa í þægilegu borgarumhverfi á þessu landshorni frekar en öðru. Þannig viljum við örugglega öll hafa það og á þeim forsendum viljum við, held ég flest, að bærinn haldi áfram að vaxa og dafna. En hvað þarf til, og hvað getur komið í veg fyrir að bærinn sé og verði besta útgáfan af sjálfum sér?
Allskonar
Hæfir stjórnendur vita það mæta vel að alls konar er ekki stefna, og án stefnu er harla erfitt að örva vöxt og bæta samkeppnishæfni. Samfélög lúta alveg sömu lögmálum. Þau samfélög sem móta sér skýra sýn á hvernig þau vilja þróast áfram, og hvers konar bæjarlíf þau vilja skapa sér, sjá undantekningarlaust aukinn árangur af sinni vinnu. Það sem meira er, þegar vel er haldið á málum þá þróast atvinnulífið iðulega eftir slíkri sameiginlegri sýn. Þá þarf að vera til leiðarvísir og aðgerðaráætlun, sem tengja saman auðlindir, stefnu og frumkvæði til að nýta staðbundinn styrkleika, takast á við áskoranir og fanga tækifærin.
Þurfum við að gera eitthvað?
Ég staðhæfði hér fyrir ofan að alls konar er ekki stefna. Að vona það besta er sannarlega alls engin stefna. Góðir hlutir gerast hægt og við þurfum að hafa fyrir þeim. Eða, kannski gerast þeir hratt en undirbúningurinn er langur. Millilandaflug frá Akureyri er gott dæmi um ávextina sem spretta þegar jarðvegurinn er undirbúinn af kostgæfni. Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki landshlutans settu sér það metnaðarfulla markmið fyrir allnokkrum árum að hér skyldi hefjast millilandaflug og stofnuðu, af töluverðri forsjálni, flugklasa um það verkefni. Með dugnaði og þrautseigju hefur tekist að koma Akureyrarflugvelli á kortið, með tilheyrandi lífsgæðum fyrir íbúa og ótöldum tækifærum fyrir atvinnulífið. Vegalaus staður hefur upp á lítið að bjóða í alþjóðlegri samkeppni. Verkefninu er hvergi nærri lokið og sannarlega ekki tímabært að nema staðar og kasta frá sér verkfærunum.
Þetta á aldrei eftir að raungerast
Ég er afskaplega hræddur um að þetta sé of algengt viðhorf og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa að falla í gryfju sem þessa. Slíkt hugarfar er augljóslega aldrei gagnlegt og sem betur fer hefur þróun bæjarins ekki stjórnast af þannig sofandahætti. Hefði það verið raunin, þá væri Akureyri tæplegast sá blómlegi háskólabær sem hann er í dag. Bærinn væri þá ekki heldur jafn aðlaðandi fyrir þau mörgu þekkingarfyrirtæki sem starfa hér í dag, eða önnur öflug fyrirtæki sem þurfa á fjölbreyttu vinnuafli og þekkingu að halda. Atvinnulífið okkar er sannarlega ekki þjakað af þessu hugarfari. Við sjáum það glöggt á fyrirtækjum eins og Slippnum, sem hefur verið í stöðugri framþróun síðustu ár og sækir stíft ný tækifæri og nýja markaði. Kjörnir fulltrúar eiga að sjálfsögðu að taka atvinnulífið sér til fyrirmyndar og temja sér jákvætt hugarfar gagnvart uppbyggingu og sköpun verðmæta.
Þarf bærinn að stækka?
Hugarfar sem ég hef reyndar skilning á. Ef allt er gott, hvers vegna þá að breyta nokkru – og vill maðurinn í fúlustu alvöru breyta bænum í Reykjavík? Það held ég nú ekki! Auðvitað á Akureyri að þróast á sínum forsendum. Atvinnuvegir eru hins vegar ekki ónæmir fyrir breytingum og þróun bæjarlífs ekki heldur. Breytingar eru óhjákvæmilegar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Svipull er sjávarafli, síldin kemur og síldin fer, eins og sagt er og nágrannar okkar þekkja svo mætavel. Ef við horfum ekki fram á veginn og sjáum sóknarfærin þegar þau gefast, þá er stöðnun næsta vís og hún er helst til gjörn á að bjóða heim hnignuninni. Og það er nú ekki gestur sem við viljum fá í bæinn okkar, því hún er nær alltaf þaulsetin.
Framtíðin ræðst af forsjálni
Framtíðin ræðst af forsjálni. Við þurfum að rýna til framtíðar og móta hana strax á okkar eigin forsendum. Tæknibreytingar eru hraðar, samkeppnin um auðlindir hörð, miklar umbreytingar eru að verða á vinnumarkaði og svo mætti lengi telja. Við eigum að setja okkur vandaða og metnaðarfulla atvinnu- og framtíðarstefnu, með skýrum markmiðum sem byggja á styrkleikum sveitarfélagsins.
Hvar liggja möguleikarnir og hvernig viljum við að bærinn okkar þróist?
Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri