Fara í efni
Umræðan

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Bæjarstjórn hefur lagt fram breytingu á skipulagi þar sem Blöndulína 3 er teiknuð sem loftlína heim undir tengivirki við Rangárvelli. Tengivirkið er hannað fyrir jarðstrengstengingu Blöndulínu 3, en Landsnet vill einungis leggja streng rétt út fyrir eigin girðingu, ca. 200m. Ljóst er að loftlína á litla framtíð fyrir sér innan þéttbýlismarka Akureyrar og undrun vekur að ekki skuli við endurskoðun skipulags vera gerð  grein fyrir framtíðarlegu jarðstrengs í Blöndulínu 3.

Fyrr eða síðar þarf þessi lína að fara í jörð og óábyrgt er að lega strengsins sé ekki fest á skipulagi svo önnur áform lagi sig að framtíðar legu strengsins. Með þessari skipulagsbreytingu er bæjarstjórn að festa legu loftlínu innan þéttbýlismarka og þeirri stöðu verður ekki breytt án verulegs kostnaðar fyrir bæjarsjóð. Langvarandi deilur Hafnarfjarðarbæjar við Landsnet um loftlínur í þéttbýli eru þar víti til varnaðar.

Farsælast er að leggja Blöndulínu strax í jörð innan þéttbýlisins og slíkt er í samræmi við opinbera stefnumörkun Alþingis. Blöndulína 3 er leggur í 500 km langri tengingu Fljótsdalsvirkjunar suður til Grundartanga. Akureyri er eina þéttbýlið á línuleiðinni og stefnumörkun Alþingis um lagningu raflína er beinlínis miðuð að aðstæðum á Akureyri þar sem línuleið fer um þéttbýli. Til þessa þátta var litið varðandi strenglögn sunnan tengivirkis Rangárvalla.

  • Fjólubláu fletirnir tákna fyrirhugaða íbúabyggð
  • Bláa breiða línan sýnir tillögu Landsnets um loftlínu, helgunarsvæði er 65 - 85 metrar á breidd
  • Græna heila línan sýnir legu loftlínu en sú brotna græna jarðstrengskost
  • Rauða brotalínan sýnir þéttbýlismörk
  • Rauða línan sem dregin er á myndina sýnir 1 km vegalengd frá loftlínunni og svarta línan sem dregin er á myndina sýnir 500 metra vegalengd frá loftlínunni. Greinarhöfundur telur að svo stutt vegalengd geti orðið til þess að fasteignamat lækki í Gilja- og Móahverfum

 

Ósvarað er þeirri spurningu hvort fyrirhuguð 220 kV loftlína lækkar fasteignamat í Gilja- og Móahverfum. Það gildir um sumarhús víða um land sem eru innan 1000m fjarlægðar frá loftlínum á hárri spennu, samkvæmt reglum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar. Forkólfar Landsnets hafa sagt tækniskýrslu sem fylgdi stefnumótun stjórnvalda um lagningu raflína vera marklaust plagg og möguleikar á strenglögn í Blöndulínu 3 vera mikið minni en þar kemur fram. Sú tækniskýrsla var skrifuð að beiðni stjórnvalda, af sérfræðingi sem óháður er Landsneti. Nauðsynlegt er að fá óháð álit á möguleikum til strenglagna innan þéttbýlis á Akureyri. Það er nægur tími til stefnu. Langt er í land með leyfismál línulagnarinnar í Hörgársveit og Skagafirði og 2 km strenglögn innan þéttbýlis Akureyrar á auðveldu landi er smámál miðað við lagningu 100 km langrar línu um þrönga dali og fjallaskörð vestar á línuleiðinni.

Skipulag verður að sýna framtíðar legu jarðstrengs í Blöndulínu 3. Farsælast er að leggja línuna strax í jörð, sem einnig er í samræmi við stefnu stjórnvalda. Óska verður eftir óháðu áliti um tæknilega möguleika til strenglagna í Blöndulínu 3. Nægur tími er til stefnu þar sem línulögn í bæjarlandinu er óverulegur hluti framkvæmdarinnar. Reynslan segir okkur að varhugavert er að treysta upplýsingagjöf Landsnets um jarðstrengi. Bæjarstjórn virðist hafa fallið í þá gryfju og er það mikil breyting frá þeirri festu er sýnd var í samskiptum við Landsnet sunnan Rangárvallatengivirkis.

Frestur rennur út 25. apríl til að gera athugasemdir við skipulag sem festir loftlínu í sessi innan þéttbýlsimarka og gerir enga grein fyrir framtíðarlegu jarðstrengs. Bæjarbúar eru hvattir til að gera athugasemdir við þetta klúður.

Höfundur er Akureyringur búsettur í Hafnarfirði og þekkir vel skaðann sem loftlínur Landsnets hafa valdið á þróun þéttbýlis. Óþarft er að gera öll þau mistök á Akureyri. Yfirvofandi skipulagsslys virðist bein afleiðing þess að Landsneti tókst að koma samningaferli við Akureyrarbæ inn í lítinn og lokaðan hóp. Reynslan af slíku verklagi er ekki góð. Þessi umræða þarf að fara fram fyrir opnum tjöldum, með þátttöku íbúa. Fá þarf óháða aðila til að yfirfara málflutning Landsnets.

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00