Fara í efni
Umræðan

Hundskist úr teignum strax!

Um daginn sat ég undir stýri á bílnum mínum. Ég var á rauðu ljósi. Það var þung umferð í borg óttans. Svakalega getur verið þreytandi að hanga í bílnum og komast ekkert áfram. Ég var að hlusta á útvarpið og þar var maður að tala. Akureyringur held ég. Veit ekki hvort hann var ekta eins og ég. Borinn og barnfæddur. En hann var a.m.k. búsettur þar. Hann sagðist fara fyrir nefnd sem væri að vinna í því eða sækja um að breyta Akureyri úr bæ í borg. Við yrðum að hugsa stórt og værum í dauðafæri. Það þyrftu allir að leggja sitt af mörkum og róa í sömu átt. Akureyri væri jú eiginlega borg. Það þyrfti bara að skilgreina hana. Einmitt!

Sjá hér: Akureyri og nágrenni verði svæðisborg

Ég sperrti eyrun og hugurinn leitaði aftur til ársins 1989 þegar meistaraflokkur KA varð Íslandsmeistari í fótbolta karla. Ég var í 2. flokki KA. Æfði stundum með meistaraflokki og vann á Akureyrarvelli í tvö sumur. Ég veit að ungir meistarflokksmenn KA í dag trúa því ekki en á þeim tíma var þetta einn allra besti fótboltavöllur landsins. Jú, jú, hann var oft aðeins seinn til á vorin en einæra grasið sem Mr. Johnson og Earnest Oskarsson – Hreiðar Jónsson og Hreinn Óskarsson – báru ábyrgð á, var að flestra mati besta gras landsins. Leikmenn elskuðu að koma norður og spila gegn KA eða Þór á þessum iðagræna velli.

Ekki sakaði þegar Mr. Johnson sagði í vallarkerfið: „Varamenn FH, það er stranglega bannað að hita upp í teigunum. Farið strax úr markinu.“ Þetta var náttúrlega ómissandi partur af því að fara á völlinn.

Tveimur árum seinna spilaði ég minn eina meistaraflokksleik í efstu deild á Akureyrarvelli. Við unnum KR 3-2! Ég er ósigraður í deild hinna bestu.

32 árum seinna sit ég í Vesturbænum og skrifa nokkrar línur. Ég er og verð KA-maður sama hvar ég bý. Völlurinn okkar er ónýtur. Hefur drabbast niður og smám saman hef ég séð þetta mannvirki verða að engu. Doldið eins og bærinn sjálfur. Smá saman drabbast hann niður og dregst aftur úr.

Þetta landsvæði sem Akureyrarvöllur stendur á er líklegast með verðmætari landsvæðum sem maður finnur. Að minnsta kosti úti á landi. Ef Valsmenn væru þarna væri sennilega komnar nokkrar nútímalegar blokkir með flottum velli og löglegum fljóðljósum í miðjunni. Áhorfendasvæði fyrir 2-3000 manns. Við myndum spila allt árið. Ímyndið ykkur stemninguna þarna á veturna! Afgangurinn af fjármagninu færi svo í leikmenn sem yrðu áskrifendur að Evrópukeppninni með tilheyrandi umsvifum og uppbyggingu. Þá gætum við farið að tala um borg. Þetta væri ekki borg óttans. Ó, nei. Þetta væri borg fótboltans! Lang langvinsælustu íþróttar í heiminum. Evrópuleikur í miðbænum og skella sér svo á skíði í Hlíðarfjalli daginn eftir. Leikmenn af Reykjavíkursvæðinu myndu borga fyrir að fá að spila með KA. Fljótasta leiðin í atvinnumenskuna segðu þeir!

KR-ingar í Vesturbænum eru að kynna sínar hugmyndir sem gætu orðið að veruleika á næstu árum. Þar þora menn að hugsa stórt.

En mínir menn í KA eiga ekki einu sinni völl. Hvaða bull er þetta?

Samt halda þeir N1-mótið á hverju ári sem dregur til sín þúsundir manna og kvenna sem skilja eftir tugmilljónir í viðskiptum við fyrirtæki á Akureyri. Muniði bara að taka ekki kettina með ykkur norður. Þeim gæti verið komið fyrir kattarnef!

Sjá hér: Lausaganga katta verður bönnuð 2025

Ég var nefnilega að horfa á viðtal við Arnar Grétarsson þjálfara KA í fótbolta.

Sjá hér: Óboðleg aðstaða á Akureyri ...

Hann hefur unnið gríðarlega flott starf fyrir KA síðan hann kom þangað fyrir einu og hálfu ári síðan. Honum hefur tekist að byggja upp flott lið sem gæti gert frábæra hluti. Bara orðið eitt besta lið landsins. Lið sem gæti orðið alvöru borgarlið og unnið öll lið landsins. Bara ef liðið ætti völl. Völl? Já, ég er að tala um fótboltavöll en ekki flugvöll. Bíddu aðeins. Ertu ekki að ýkja? Ertu að segja mér í alvöru að KA sé alls ekki með fótboltavöll? Já, ég er að segja þér að KA er ekki með löglegan fótboltavöll. Það er svo mikið að gera í bæjar-/borgarstjórninni að það er ekki tími til að búa til fótboltavöll. Þess vegna þurfum við að keyra til Dalvíkur til að spila.

Við þurfum að skilgreina okkur, eins og maðurinn sagði.

Ef Arnar Grétarsson og Sævar Pétursson hefðu fótboltavöll til að spila á gætu þeir einbeitt sér að því að búa til meistaralið á Akureyri. Stolt Akureyrar. Svona svipað og Guðjón Þórðarson og Stebbi Gull gerðu á sínum tíma. Þeir höfðu fótboltavöll.

Bærinn byggði tónlistarhúsið Hof á sínum tíma.

Atli Örvarsson tónskáld flutti heim með sína fjölskyldu frá Los Angeles (dreifðustu borg í heiminum). Einn daginn labbaði hann fram hjá Hofi og fór svo að bóka húsið fyrir sinfóníuhljómsveitir og Hollywood-myndir. Pæliði í því hvað gæti gerst ef hann labbaði fram hjá nýjum flottum fótboltavelli.

Arnar Grétarsson segir fullum fetum í viðtalinu að nýi völlurinn sem var búið að lofa sé ekki á leiðinni. Ég bara trúi þessu ekki. Er ekki til eitthvað fólk sem fær laun og er í vinnu þarna á Akureyri? Kannski bara vantar sjálfboðaliða? Bæjarfulltrúar, sem eru verðandi borgarfulltrúar sem róa öll í sömu átt. Í alvörunni. Ég skora á Dalvík eða Húsavík eða Siglufjörð eða einhvern heiðarlegan bæ fyrir norðan að taka yfir þetta bæjarfélag í einum grænum. Þau gætu tekið yfir bæ sem verður síðan borg.

Tómas Hermannsson er bókaútgefandi í Reykjavík, Akureyringur og KA-maður.

Fjórir KA-menn, Hermannssynir fyrir margt löngu. Frá vinstri: Friðfinnur, Árni, Tómas og Jóhann. 

Höfundur greinarinnar heldur líka með Víkingi, þegar sonur hans spilar, sagði Tómas þegar hann sendi Akureyri.net þessa mynd. Hún er tekin þegar Víkingur varð Íslandsmeistari í haust, en Logi sonur hans er einn leikmanna. Frá vinstri: Marinó, Logi, Tómas og Sólvin.

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00