Fara í efni
Umræðan

Hólar, hús íslenskra fræða

Verið er að að reisa „Hús íslenskunnar“ við Arngrímsgötu á Melunum í Reykjavík. Umræður hafa orðið um nafn hússins. Þegar ákveða skal nafn hússins, ber að hafa í huga, að Íslenska er ekki aðeins málfræði heldur saga, bókmenntir og þróun og þeir sem stunduðu nám í íslensku við Háskóla Íslands á öldinni sem leið stundum nám í „íslenskum fræðum“ og sumir luku jafnvel „meistaraprófi í íslenskum fræðum“, sem fól í sér nám í íslenskri málfræði, gotnesku, sögu Íslands og bókmenntum Íslendinga frá upphafi. Fræðin eru því gömul og hafa verið kennd á Íslandi frá því skólinn á Hólum í Hjaltadal var stofnaður.

Hólaskóli hinn forni

Skóli Jóns Ögmundarsonar á Hólum í Hjaltadal er fyrsti formlegi dómskóli sem stofnaður er á Íslandi því eldri skóla „virðist fremur mega telja einkaskóla”, að því er Jón Jóhannesson segir. Hólaskóli var þegar í upphafi formlegur dómskóli, katedraskóli, og laut lögmálum dómskóla kaþólsku kirkjunnar og var með fyrstu dómskólum sem stofnaðir er á Norðurlöndum.

Í Jóns sögu hins helga segir: „Þá er Jón hafði skamma stund byskup verit, þá lét hann setja skóla heima þar á staðnum vestr frá kirkjudurum ok lét smíða vel og vandliga, ok enn sér merki húsanna”. Í sögunni segir einnig að Þóroddur Gamlason kirkjusmiður var „svá næmr, þá er hann var í smíðinni, þá heyrði hann til er prestlingum var kennd íþrótt sú er grammatica heitir, en svá loddi honum þat vel í eyrum af miklum næmleik ok athuga at hann gerðisk inn mesti íþróttamaðr í þess konar námi”.

Skólameistari á Hólum var í upphafi gauskur maður, Gísli Finnason. Er hann sagður hafa verið vel læður og kenndi grammaticam – eða málfræði –þar með taldar biblíuskýringar. En franskur maður, er Ricini hét, kenndi sönglist og versagjörð. Er því ljóst að kenndir hafa verið hlutar úr bæði þrívegi, trivium, og fjórvegi, quadrivium í hinum forna Hólaskóla.

Einn þeirra sem námu í Hólaskóla var Bjarni prestur Borgþórsson [d 1173] sem nefndur er í fornum rímtölum og samdi ritgerð um tímatal og var lærður í tölvísi, arithmeticae, og stjarnfræði, astronomiae. Bjarni var samtímamaður Stjörnu-Odda Helgasonar í Múla í Reykjadal, sem gerði svo merkar athuganir um sólargang á landinu að hann er talinn meðal helstu stjarnfræðinga á sínum tíma á Norðurlöndum og í Hauksbók Landnámu greinir frá athugunum Stjörnu-Odda á sólargangi. Stjörnu-Oddi mun hafa lært fræði sín í Hólaskóla. Þá sóttu konur skólann og er einnar getið sérstaklega, Ingunnar, dóttur Arnórs Ásbjarnarsonar af Ásbirningaætt. Varð hún svo vel að sér í latínu að hún kenndi hana mörgum. „Allir hinir sæmilegustu kennimenn í Norðlendingafjórðungi voru nokkura hríð til náms að Hólum, þá sem vor aldur mátti muna, sumir af barndómi, sumir á fulltíða aldri,” eins og segir í Jóns sögu helga.

Hólar, hús íslenskra fræða

Þegar tekið er tillit til þess, sem sagt er hér að ofan, er eðlilegt að nefna hið nýja hús við Arngrímsgötu á Melunum í Reykjavík „Hóla, hús íslenskra fræða“.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Hólar í Hjaltadal. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30