Fara í efni
Umræðan

Hið stórfurðulega Tónatraðarmál

Á næsta bæjarstjórnarfundi hjá Akureyrarbæ virðist sem núverandi meirihluti ætli að halda áfram á grundvelli þeirra ófaglegu vinnubragða sem meirihluti bæjarfulltrúa á síðasta kjörtímabili kom af stað. Hér er á ferðinni Tónatraðarmálið þar sem enn virðist stefnt að því að úthluta fjölbýlishúsalóð til eins verktakafyrirtækis án auglýsingar, án þess að nokkur málefnaleg rök liggi fyrir.

Bæjarstjórn klofnaði í afstöðu sinni

Á liðnu kjörtímabili vorum við fimm bæjarfulltrúar sem lögðumst gegn þessari vegferð. Auk mín voru það núverandi formaður skipulagsráðs Halla Björk Reynisdóttir L-lista, núverandi 1. þingmaður kjördæmisins, Ingibjörg Isaksen B-lista, Heimir Haraldsson S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista. Á þeim tíma bentum við á með bókun í bæjarstjórn, að í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis væri eðlilegt að bæjarstjórn tryggi að allir áhugasamir fái jöfn tækifæri til að sækjast eftir lóðum við Tónatröð á breyttum forsendum. Við lögðum auk þess til að svæðið yrði skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst yrði eftir samstarfsaðila vegna vinnu við skipulags reitsins, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð. Sú afstaða mín hefur ekki breyst.

Málefnaleg sjónarmið nauðsynleg

Þegar málið var til meðferðar hjá bæjarstjórn árið 2021 óskaði ég eftir lögfræðiáliti um þetta sérkennilega mál lóðirnar við Tónatröð voru þá og eru enn skipulagðar sem einbýlishúsalóðir, enda hefur formleg lóðaúthlutun enn ekki farið fram. Í lögfræðiálitinu segir m.a. „Ef skipulagsbreytingar ganga eftir eins og vísað er til í lóðaumsókn, er í raun verið að úthluta fjölbýlishúsalóð án auglýsingar...“ Í álitinu er þó bent á eina glufu sem mögulega væri hægt að nýta, en í reglum Akureyrarbæjar um úthlutanir lóða stendur m.a. „..að skipulagsráði sé í sérstökum undantekningartilfellum heimilt að veita vilyrði eða úthluta lóð/lóðum án undangenginnar auglýsingar að fengu samþykki bæjarstjórnar. Endanleg úthlutun geti þó ekki farið fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, sé þeirra þörf.“ Í álitinu kemur þó fram að þar sem lóðaúthlutun sé í eðli sínu útdeiling á takmörkuðum gæðum í eigu sveitarfélagsins séu hún í eðli sínu stjórnvaldsákvörðun og þurfi því að gæta að sjónarmiðum varðandi jafnræði, réttmæti og meðalhóf. Þetta þýðir í raun að ef bæjarstjórn ætlar að nýta þetta undantekningarákvæði, þá þurfi ákvörðunin að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Nýjustu drög Yrki arkitekta um deiliskipulag við Tónatröð.

Hver gætu þessi málefnalegu sjónarmið verið? Er það lóðaskortur? Staða byggingarmarkaðar? Lítill áhugi á lóðunum sem einbýlishúsalóðir? Allt gætu það mögulega verið rök fyrir því að breyta deiliskipulagi á svæðinu, eða auglýsa reitinn sem þróunarreit, en engin rök fyrir því að afhenda einum aðila lóðirnar sem fjölbýlishúsalóðir án auglýsingar. Þess má geta að fyrri bæjarstjórn benti ekki á nein málefnaleg sjónarmið þegar hún tók sína ákvörðun, þrátt fyrir að fyrirliggjandi lögfræðiálit benti á nauðsyn þess.

Fjölbýlishúsalóðir verðmætari en einbýlishúsalóðir

Þetta mál er í heild sinni alveg stórfurðulegt, hið opinbera verður að gæta jafnræðis og hreinlega má ekki ívilna einum aðila umfram aðra án málefnalegra ástæðna, en það gefur auga leið að fjölbýlishúsalóð er verðmætari en einbýlishúsalóð. Þá halda varla þau rök vatni sem einn bæjarfulltrúi nefndi á bæjarstjórnarfundi í umræðu um málið á liðnu kjörtímabili, þ.e.a.s. að formaður skipulagsráðs hafi bent viðkomandi fyrirtæki á þennan möguleika og að hann hafi í kjölfarið sótt um, þess vegna eigi viðkomandi skilið að fá lóðina. Ef það eru málefnalegar ástæður sem standast skoðun, þá er mér hreinlega allri lokið.

Ég vil að það komi skýrt fram að mín gagnrýni snýr ekki að viðkomandi fyrirtæki, heldur að faglegum vinnubrögðum kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins.

Uppbyggingin falli vel að nærliggjandi byggð

Fyrir utan allt lóðaúthlutunarferlið þá hefur orðið nokkur vending í málinu frá því að það var var til umræðu hjá síðustu bæjarstjórn. Minjastofnun féllst ekki á flutning húss úr Tónatröð, nánar tiltekið Tónatröð 8, svokallað Sóttvarnarhús. Húsið er staðsett fyrir miðju þess svæðis sem fyrirhugað var að umrædd fjölbýlishús myndu rísa og er nú horft til þess að tvö fjölbýlishús gætu verið sitt hvoru megin við það hús. Það eitt og sér breytir myndinni talsvert, enda ekki síður mikilvægt að standa vel að lóðaúthlutuninni sjálfri og að tryggja að uppbyggingin falli vel að nærliggjandi byggð.

Hilda Jana Gísladóttir er oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20