Fara í efni
Umræðan

Heilsuefling og aldraðir

Heilsa er manninum meira virði en nokkuð annað. Heilsa og hreyfing eru tvíburasystur sem bæta hvor aðra upp og eru einhver öruggasta leiðin til að tryggja þeim sem komnir eru á efri ár léttari og lengri lífdaga. Þess vegna eiga yfirvöld að leggja áherslu á heilsueflingu.

Á vef Akureyrarbæjar stendur meðal annars eftirfarandi:

„Akureyrarbær er heilsueflandi samfélag. Meginmarkmiðið með Heilsueflandi samfélag[i] er að heilsa og líðan allra íbúa sé í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum og þannig skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa [...] Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa...“

Svo mörg voru þau orð, en hver er staðan? Þrátt fyrir fögur fyrirheit er eins og bæjaryfirvöld á Akureyri séu aftarlega á merinni þegar kemur að heilsueflingu fyrir eldri borgara. Á vefnum er bent á ýmsa möguleika til hreyfingar í bænum og grennd, sundlaugar, gangstíga, frisbígolfvelli, strandblakvelli í Kjarnaskógi og fjölmargt sem er í boði íþróttafélaga og annarra samtaka. Sumt af þvi hentar eldri borgurum.

Með breyttum lífsháttum hefur öldruðum fjölgað umfram aðra, líftími lengist og heilsufar fullorðinna er annað en fyrir hálfri öld. Til þess að halda heilsu með hækkandi aldri er hreyfing nauðsynleg. Af þessum sökum hafa félög og samtök aldraðra lagt áherslu á að ríki og sveitarfélög séu í liði með þeim og greiði fyrir því að aldraðir eigi auðvelt með að efla heilsu sína.

Það er afar mismunandi hvað sveitarfélög hafa verið viljug að styðja við heilsueflingu. Þegar að er gáð stendur Akureyri að baki mörgum sveitarfélögum hvað varðar aðgerðir til heilsueflingar eldri borgara. Má nefna að á höfuðborgarsvæðinu hefur um árabil verið ókeypis í sund fyrir eldri borgara, þar er líka ókeypis í skíðabrekkurnar í Bláfjöllum og Skálafelli, á skautasvellin auk fjölmargra safna og menningarstofnana. Reyndar má segja að í flestum byggðarlögum landsins sé frítt í sund fyrir eldri borgara. Á Akureyri þurfa þeir að greiða fyrir sundferðir. Sagt er að það sé svo lítið að fólk muni ekkert um það. Árskort fyrir eldri borgara er skv. verðskrá á 5.800 krónur. Það er að sönnu ekki mikið fyrir þá sem hafa efni á því, en fjöldi manna hefur það einfaldlega ekki. Það er rangt, sem kom fram í orðum bæjarfulltrúa þegar felldur var niður afsláttur af skíðaárskortum fyrir eldri borgara, að þessir gamlingjar eigi nóga peninga og geti vel borgað eins og aðrir. Vissulega geta einhverjir gert það en alls ekki allir. Þetta viðhorf er langt í frá vinsamlegt.

Fulltrúar í Öldungaráði Akureyrar hafa með litlum árangri reynt að knýja fram víðtækar aðgerðir til heilsueflingar aldraðra, meðal annars frístundastyrk, en mikilvægt væri að bærinn veiti eldri borgurum styrk til þátttöku í fjölbreyttri líkamsrækt. Vonandi verður unnt að opna augu bæjaryfirvalda fyrir því að aldraðir eiga ekki að vera afgangsstærð. Þeir eiga inni hjá bænum. Þeir eiga það líka inni hjá ríkinu að ekki séu hafðar af þeim réttmætar bætur og launahækkanir, eins og um hefur verið rætt þessar vikurnar.

Þakka ber Akureyrarbæ fyrir að hafa lagt góða gangstíga sem hafa aukið möguleika til gönguferða um bæjarlandið og nágrenni þess. Kostur væri ef bærinn gæfi út kort með gönguleiðum um þetta svæði, allt frá Kjarnaskógi og gömlu brúnum yfir Eyjafjarðará i suðri norður fyrir Krossanesborgir, að meðtöldum leiðum um Glerárdal. Þessir göngu- og hlaupamöguleikar eru ekki öllum kunnir. Auk þess væri afar mikill kostur sem nýtast mundi öllum aldurshópum að koma upp þjálfunartækjum á nokkrum stöðum, á auðum svæðum við gangstíga, álíka þeim sem eru á tækjavöllum víða um Garðabæ. Einnig væri afar kærkomið gangandi fólki, sem hefur ekki fulla heyrn eða sjón, að aðgreina göngustíga og hjólastíga, vegna þess að í hjólaumferðinni, sem aukist hefur gríðarlega, er að miklu leyti kapphjólafólk sem geysist áfram á ógnarhraða og gerir ekki vart við sig með neins konar hljóðmerkjum. Samt kostar tillitssemi ekki peninga.

Rétt er að minna á að lengri lífdagar og bætt heilsa spara bæ og ríki ótaldar fjárhæðir sem annars færu í rekstur sjúkra- og öldrunarstofnana. Aðgerðir til heilsueflingar eru því sparnaður til framtíðar.

Meðfylgjandi er mynd af tækjavelli við göngustíg í Garðabæ. Gott væri að hafa svona tæki við gangstíga hér, ekki endilega fjölda tækja saman heldur jafnvel stök tæki víðar.

Sverrir Páll

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45