Fara í efni
Umræðan

Heilbrigðisstofnanir í úlfakreppu

Undanfarnar vikur höfum við Akureyringar fengið vondar fréttir af starfsemi Heilbrigðisstofnunnar Norðurlands á Akureyri. Eftirvæntingin yfir því að heilsugæslan væri brátt að flytja í nýtt og sérhannað húsnæði hefur því eðlilega dofnað í bænum. Og fólk er uggandi, því hér er um að ræða grundvallarþjónustu hvers samfélags.

Ég treysti mér ekki til að álykta um hvort þessi ólánlega þróun eigi sér orsök í innanhússvandræðum stofnunarinnar eða hvort hún sé fyrst og fremst birtingarmynd stærri þátta heilbrigðiskerfisins.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2024 sýnir ríkisstjórnin algjört metnaðarleysi þegar kemur að rekstri og uppbyggingu heilbrigðisstofnana úti á landi. Þar er ekkert auka fjármagn ef frá eru taldar fjárheimildir vegna verðbólgu og launa.

Viðvarandi fjárhagsörðugleikar heilbrigðisstofnana hafa valdið því að álag á starfsfólk er langt umfram það sem eðlilegt er. Það getur leitt til meiri veikindaforfalla og haft áhrif á starfsanda innan stofnananna – aukið spennu milli stjórnenda og starfsmanna, sem í verstu tilfellum leiðir til þess að starfsfólk gefst upp og hættir. Notendur sitja þá eftir með sárt ennið og þjónustan versnar. Það sem hugsað var sem sparnaður hefur á endanum þveröfug áhrif og kostnaðurinn eykst.

Það er ekki síst alvarlegt fyrir byggðarlög á landsbyggðunum, þegar einstaka stofnanir lenda í úlfakreppu. Þá er ekki í önnur úrræði að leita og búsetuskilyrði verða enn veikari en áður. Það er ólíðandi, í ljósi þeirrar búsetuþróunar sem átt hefur sér stað á síðustu 120 árum – þar sem hlutfall landsmanna búsettra á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið úr 11% í um 65%.

Fyrr á árinu heimsóttum við í Samfylkingunni ótal bæjarfélög um allt land og ræddum við heilbrigðisstarfsfólk og almenning um heilbrigðiskerfið. Markmiðið var að átta sig á því hvar skórinn kreppti og hvað væri vel gert. Upplifun mín var ekki síst að íbúar landsbyggðarinnar væru orðnir hættulega nægjusamir.

Aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu eru hins vegar grundvallar mannréttindi, óháð því hvar fólk velur að búa, og mikilvægur þáttur í að tryggja samkeppnishæfni einstakra byggða. Það er því alltof mikið í húfi nú til að við getum horft uppá heilbrigðisþjónustu bæjarins veikjast. Krafan er sú að stjórnvöld horfist í augu við hina raunverulegu stöðu og fjármagni heilbrigðisþjónustuna þannig að hún standi undir nafni og uppfylli þær kröfur sem henni eru settar með lögum.

Logi Einarsson er þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður þingflokks Samfylkingarinnar

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00