Fara í efni
Umræðan

Heilbrigðiskerfið á Íslandi

Að greinast með ólæknandi sjúkdóm á Íslandi – er heilbrigðiskerfið okkar eins slæmt og virðist birtast almenningi í fjölmiðlum?

Ekki fyrir löngu fékk ég erfiðar fréttir, n.t.t þann 27. maí sl. á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Síðustu mánuði var ég búin að finna fyrir meiri þreytu, hausverk og skjálfta í fótum sem ég tengdi við taugasjúkdóm (e. orthotstatic tremor), sem ég var greind með þremur árum áður. Þessi dagur var þó öðruvísi, ég var óvenju þreytt, átti erfitt með tal, utan við mig og lystarleysið að ágerast með degi hverjum.

Um hádegi hef ég samband símleiðis við yngstu dóttur mína en í umræddu símtali kem ég ekki frá mér einni réttri setningu. Á þeim tímapunkti geri ég mér grein fyrir að eitthvað er að og rétti eiginmanni mínum símann. Dóttir og eiginmaður voru sammála um að bráðamóttakan væri staðurinn sem ætti að heimsækja. Elsta dóttir mín, sem er heilbrigðismenntuð, fer með mig á bráðamóttökuna. Umræddan dag var ég sett í allskyns rannsóknir og um kvöldmataleytið lá fyrsta niðurstaðan fyrir, í heila sáust meinvörp. Ég var lögð inn á SAk á lyflækningadeild. Frekari rannsóknir voru framkvæmdar daginn eftir og fleiri niðurstöður bárust. Illkynja æxli í lungu, miðmæti ásamt meinvarpi í lifur og þá fundust blóðtappar í lungum. Slíkur úrskurður gleymist sennilega engum og eru niðurstöður sem þessar áfall fyrir alla, mig sjálfa, nánustu aðstandendur, vini og ættingja.

Að mörgu er að huga við úrskurð sem þennan, rússibani af ýmsum tilfinningum gera vart við sig og sumpart hræðsla og ótti. Þrátt fyrir þetta ömurlega verkefni sem nú er hafið, þá finnst mér mikilvægt að segja frá minni reynslu af heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Auðmýkt, fagmennska, þakklæti, jákvæðni, englar í manns mynd eru orð sem renna í gegnum huga minn eftir síðustu vikur. Frá heimsókn minni á bráðamóttöku, innlögn á lyflækningadeild, sýnatöku á lungnadeild Landspítalans, almenna göngudeild SAk og lyfjameðferð minni, þá er ég óendanlega þakklát fyrir allt það fagfólk sem við erum svo heppin að hafa. Það er sama við hvern ég hef talað, sjúkraliða, krabbameinslækna, hjúkrunarfræðinga, næringarfræðing, félagsráðgjafa, deildarlækna o.fl., o.fl., þá hef ég frá upphafi rannsókna mætt dásamlegu viðmóti, þjónusta- og rannsóknir hafa gengið hratt fyrir sig og hefur viðmót og ráðgjöf verið upp á tíu. Alltof oft heyrum við neikvæðar fregnir um heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga en ég fyllist stolti, þakklæti og jákvæðni yfir reynslu minni síðustu vikurnar. Heilbrigðisstarfsfólk okkar starfar eftir bestu þekkingu og reynslu og hefur svo sannarlega lagt sig fram til að koma til móts við mig, aðstoða mig og styðja. Ekki má heldur gleyma því viðmóti sem mínir nánustu hafa upplifað en það hefur verið algjörlega framúrskarandi.

Þessi pistill er fyrst og fremst skrifaður til að vekja athygli á jákvæðri upplifun minni á heilbrigðiskerfi okkar, hrósa því dásamlega heilbrigðisfólki sem ég hef fengið að kynnast síðustu vikurnar en ég get með sanni sagt að ég fyllist þakklæti í þessum erfiðu aðstæðum. Ég ætla halda áfram að horfa bjartsýn fram á veginn, þrátt fyrir krefjandi og erfið verkefni sem eru framundan, því ég veit að ég er í góðum höndum.

Þorgerður Halldórsdóttir er ellilífeyrisþegi

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30