Hefðarkötturinn Tommi og Kisukot
Þetta er hann Tommi. Tommi er stór og fallegur högni sem hefur gaman af bílum og alls kyns tækjum auk þess sem hann býður alltaf fram hjálp sína þegar verið er að setja saman húsgögn. Sérstaklega ef húsgögnin koma í kössum. Honum þykir gott að borða og er, eins og margir, á ketó. Hann lítur nefnilega helst ekki við kolvetnum heldur vill bara kjöt, fisk, rækjur og rjóma. Já, og blautmat – ef hann er kolvetnasnauður. Tommi er kominn á efri ár, kominn á sérstakt nýrnafæði, en við vitum samt ekki í raun hversu gamall hann er því fortíð Tomma er óræð. Eins og stundum hendir ketti lenti Tommi nefnilega á vergangi. Ég veit ekki hvort hann flutti út af heimili sínu sjálfur eða hvort honum var hent út. Hann varð alla vega heimilislaus. Þá gerðist hann miðbæjarköttur – hélt sig á djamminu um helgar og sníkti af hverjum sem var. Ekki samt áfengi heldur klapp og kjass. Hann var eins og versti ógæfuköttur; át það sem hann fann og lenti reglulega í slagsmálum við aðra ketti. Sagan segir að hann hafi mögulega drepið kettling í slíkum slagsmálum. Hvort það er satt munum við sennilega aldrei vita.
13. mars 2012 breyttist líf Tomma. Þá var hann svo heppinn að lenda í fellibúri frá Kisukoti – með fyrstu köttunum sem þangað fóru. Margur myndi kannski ætla að það væri ekki gott fyrir útigangskött að lenda í búri en þetta varð Tomma til happs því Ragnheiður Gunnarsdóttir, sem rekur Kisukot, tók hann inn, þreif hann, hjúkraði honum, kjassaði hann, gaf honum nafn og lét svo bæði gelda hann og bólusetja. Og þegar hann var tilbúinn fékk hann gott heimili. Tommi hafði nefnilega vingast við bróðurson minn og kærustu hans sem urðu svo hrifin af honum að þau ákváðu að bjóða honum að búa hjá sér. Þegar þau fóru síðan út í nám kom Tommi til okkar. Þá var hann orðinn feitur og pattaralegur og hvers manns hugljúfi. Pabbi segir meira að segja að hann sé „óvenjugóður af ketti að vera,“ sem er mikið hrós frá pabba – og svo kyssir hann köttinn.
Tommi kom eins og sólargeisli inn í líf okkar og gerir hvern dag ljúfari. Hann er uppátækjasamur, skemmtilegur, ljúfur og kenjóttur en af og til taka sig upp gamlir taktar. Þá gengur hann um hverfið og lætur aðra ketti vita hver sé kóngurinn. Líf Tomma er gott og í tíu ár hefur hann verið dekraður, knúsaður og elskaður eins og kettir eiga skilið. Ef ekki væri fyrir Kisukot og það góða starf sem þar fer fram veit ég ekki hvar eða hvenær dagar Tomma hefðu verið taldir. Ragnheiður gaf honum kost á að snúa frá villu síns vegar og öðlast betra líf. Hún hefur bjargað lífi á annað þúsund katta á þeim tíu árum sem hún hefur rekið Kisukot og komið þeim fyrir á góðum heimilum. Allir kattavinir kunna henni endalausar þakkir fyrir og nú er tími kominn til þess að Akureyrarbær taki þátt í þessu mikilvæga verkefni og útvegi Ragnheiði húsnæði og rekstrarfé því líf vergangskatta er undir.
Kristín M. Jóhannsdóttir er kattareigandi, ellegar þjónn kattarins Tomma.
Tommi nýkominn í Kisukot í mars 2012, skítugur og sár. Ragnheiður Gunnarsdóttir tók myndina.
Tommi í dag - snyrtilegur og alsæll.