Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar
Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggir á menntun íbúa, fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár.
Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn er og verður mikilvægur ekki síst ef takast á að grípa tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar. Um allt land er lagður mikilvægur grunnur í leik-, grunn- og tónlistarskólastarfi en allar byggðir landsins þurfa tækifæri til að byggja ofan á grunninn.
Háskólastarf er lykill dreifbýlisins að vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu
Öflugt háskólastarf byggir á sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélög. Atvinnuþróun og nýsköpun sem sprettur úr háskólastarfi fer fram í sambúð atvinnuvega og skóla en ekki fjarbúð. Til að landsbyggðirnar hafi raunverulegan aðgang að því fjármagni sem ríkið úthlutar nú í gegnum samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun þarf virkt háskólasamfélag.
Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverki í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er á leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (campusa), nokkur útibú eða samstarfsnet, má þar benda á Tromsö í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Kanada og dreifbýli Skotlands.
Tækifærin framundan
Nemendum Háskólans á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2014, og eru nú rúmlega 2.500 eftir að hafa verið um 1.500 árin 2009-2013. Um 60% nemenda skólans eru nú búsettir á landsbyggðinni en um 40% á höfuðborgarsvæðinu.
Fjölgun nemenda kallar á aukið fjármagn. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021 var Háskólanum á Akureyri tryggt fjármagn til að fylgja nemendafjölgun síðustu ára eftir og þar með gert mögulegt að efla mannauð skólans og styrkja starfið.
Það er brýnt að auka tengsl háskólasamfélagsins enn frekar við byggðir um allt land. Möguleg leið til þess er að bjóða upp á tæknifræðinám sem byggir ofan á sterkt verknám framhaldskólanna og sífellt tæknivæddara atvinnulíf. Þá verður að finna leiðir til að þjónusta innflytjendur, þannig að þeir geti bæði bætt við sig þekkingu og nýtt þá þekkingu og hæfni sem þeir flytja með sér til landsins.
Menntamálaráðherra hefur boðað breytingu á lögum varðandi aðgangsskilyrði í íslenska háskóla til að auka jafnræði nemenda sem fara mismunandi námsleiðir í bók- og starfsnámi. Þá geta skapast hvatar fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í mismunandi nám, í samræmi þarfir nemenda og atvinnulífs.
Nýlega undirritaði menntamálaráðherra samning um stofnun háskólaútibús á Austurlandi, með það að markmiði að koma á virku háskólasamfélagi í samstarfi við sveitarfélög og nokkur stór fyrirtæki á svæðinu. Stefnt er að því að kennsla í hagnýtri iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022 og frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. Þetta verkefni er meðal annars unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Það eru spennandi verkefni framundan við að efla háskólastarf á landsbyggðinni ásamt því að styrkja samstarf skóla og atvinnulífs.
Að lokum vil ég hrósa starfsfólki HA fyrir úthaldið og seigluna og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem ásamt Alþingi greip boltann og tryggði fjármagn til eflingar Háskólans á Akureyri.
Þetta gerist ekki af sjálfu sér – áfram veginn.
Líneik Anna Sævarsdóttir er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn.