Hæfi – Að gefnu tilefni
Á síðustu dögum hefur mikið verið rætt um vanhæfi Hildu Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúa vegna afgreiðslu mála er snúa að Knattspyrnufélagi Akureyrar og þá sérstaklega vegna samþykktar bæjarráðs á samningi um uppbyggingu á félagssvæði KA.
Við afgreiðslu uppbyggingarsamnings við KA, í bæjarráði 16. desember s.l., vakti Hilda Jana athygli á því að hún kynni að vera vanhæf vegna málsins en bæjarráð taldi svo ekki vera, enda lá fyrir skoðun bæjarlögmanns á því að hún teldist ekki vanhæf á þeirri forsendu að eiginmaður hennar væri í sjálfboðaliðastarfi og ætti því ekki persónulegra hagsmuna að gæta. Því miður var engin bókun lögð fram í fundargerð. Samningurinn var síðan samþykktur samhljóða á fundinum.
Eftir að fram komu fyrirspurnir um hæfi bæjarfulltrúans til setu í fræðslu- og lýðheilsuráði, vegna tengsla hennar við KA, var ákveðið að leita eftir utankomandi áliti lögmanns. Niðurstaða hans var að Hilda Jana væri vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu mála innan fræðslu- og lýðheilsuráðs sem snúa að KA og ennfremur hafi hún verið vanhæf við afgreiðslu á áðurnefndum samningi í bæjarráði. Það var hins vegar álit lögmannsins að þar sem niðurstaða bæjarráðs hefði verið einróma og gerð með vísan til áður samþykktrar fjárhagsáætlunar, væri ekki ástæða til að taka málið upp að nýju.
Svo virðist sem sumir fréttamiðlar vilji beina kastljósinu að bæjarfulltrúa Hildu Jönu og gera störf hennar tortryggileg. Því er til að svara að hún vakti á öllum stigum málsins athygli á mögulegu vanhæfi sínu en hins vegar var það mat bæjarráðsmanna, sem byggði á skoðun bæjarlögmanns, að svo væri ekki.
Í ljósi áðurgreinds álits utanaðkomandi lögmanns þá er ljóst að sú niðurstaða var ekki rétt og á því bera allir bæjarráðsmenn ábyrgð. Almennt er óheppilegt að stjórnarmenn verði oft vanhæfir í málum sem liggja fyrir fundum og þurfi að víkja. Við því hefur verið brugðist, enda bæjarfulltrúum mikið í mun að störf þeirra séu hafin yfir allan vafa.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs og Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar.