Fara í efni
Umræðan

Greifavöllur ætti að sjálfsögðu að vera mögulegur heimavöllur

Vegna viðtals sem birtist á fotbolti.net 26. júní er varðaði undanúrslitaleik Þórs/KA og Breiðabliks í Mjólkurbikarnum, tíma-og staðsetningu.

Ég fékk símtal frá fréttamanni netsíðunnar sem spurði út í leikjaálagið og tímasetningu á leiknum. Hvers vegna hann var færður af laugardegi fram á föstudag. Hvort aðrir kostir hefðu verið kannaðir bæði er varðar tímasetningu og leikstað.

Ég hef komist óheppilega að orði eins og oft áður er ég svaraði spurningu um möguleikann á að færa leikinn yfir á Greifavöllinn á Akureyri. Það hefur vakið hörð viðbrögð enda má lesa úr viðtalinu að ég sé að leggja að jöfnu samvinnu eða samstarf félaganna á Akureyri um kvennafótboltann og tilfærslu á leik fyrr í sumar er FH lék heimaleik sinn gegn okkur í Þór/KA á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þessi tilvísun í færslu leiks FH yfir á heimavöll Hauka var algjör óþarfi enda átti ég einungis við að lið þyrfti að færa heimaleik sinn af sínum heimavelli yfir á annan völl sem liðið æfir ekki á. Ég biðst afsökunar á því að þetta hafi komið út eins og samlíking á samstarfi eða samvinnu félaganna í þessum tveim sveitarfélögum. Það var alls ekki meiningin.

Svarið var við spurningu um hvers vegna Þór/KA spilaði ekki leikinn á Greifavellinum. Svarið er að það er ekki völlur sem liðið æfir á og hefur ekki gert síðan í byrjun apríl. Það væri því ekki núverandi heimavöllur liðsins þó hann væri í sama sveitarfélagi.

Ég hef ekkert móti Greifavellinum og hann ætti að sjálfsögðu alveg að vera mögulegur heimavöllur sameinaðs liðs Þórs og KA á Akureyri. Það er umræða sem aðstandendur liðsins og félögin gætu hæglega tekið og skoðað vel. Til þess þyrfti liðið að æfa þar að jafnaði. Fyrir mig sem þjálfara skiptir mestu máli hvað kemur stelpunum best og liðinu. Núna er skráður aðalvöllur liðsins á VÍS-vellinum og Boginn sem varavöllur. Aðstandendur liðsins og stjórnir geta að sjálfsögðu tekið það til endurskoðunar.

Inn í umræðuna blandast vangaveltur um viðhorf mitt og annarra sem starfa með stelpunum í Þór/KA gagnvart öðru félaginu eða leikstað. Ég get fullvissað fólk um að það er ekkert slíkt í gangi. Leikmenn Þórs/KA, þjálfarar og aðrir í kringum liðið vinna fyrst og fremst fyrir stelpurnar í liðinu og liðunum (meistaraflokki, u20 og u16) og að framgangi þeirra í fótbolta. Þær, og við öll erum í sama liði. Hvaða leikstaður sem verður fyrir valinu sem aðalvöllur liðsins verður alltaf okkar heimavöllur.

Ég hef bara mætt góðvild, góðu viðmóti og hjálpsemi frá starfsfólki, félagsfólki og öðrum á Greifavellinum, VÍS-vellinum, í KA og í Þór gagnvart mínu starfi og öllu sem tengist Þór/KA.

Einhverjar raddir voru um að við værum að kjósa erfitt gras fyrir leikinn gegn Breiðabliki þar sem þær væru „gervigraslið“. Aftur minni ég á að við viljum spila á okkar heimavelli. Alltaf. Ef einhver möguleiki er á. Við neyddumst vegna veðurs til að fara inn á varavöllinn okkar gegn Breiðabliki í fyrra í deildinni. Þann leik unnum við 2-0 á gervigrasi. Við hræðumst engin lið það mikið að við förum að nota einhverjar brellur til að eiga meiri möguleika á að vinna. Við viljum bara spila á heimavellinum okkar. Eins og staðan er þá er þetta heimavöllur liðsins.

Undanúrslitaleikurinn gegn Breiðabliki var æsispennandi til loka framlengingar þar sem stelpurnar okkar lögðu líf og sál í verkefnið. Börðust til síðasta blóðdropa og skildu allt eftir á vellinum. Umgjörðin var frábær og eiga allir sem að henni koma heiður skilinn. Vil ég þakka öllum sem lögðu leið sína á völlinn, studdu stelpurnar og tóku þátt í þessu eftirminnilega kvöldi kærlega fyrir. Það svíður alveg ofboðslega að hafa ekki náð að enda leikinn betur og komast á Laugardalsvöll í sjálfan úrslitaleikinn. En ég get ekki annað en hrósað liðinu og stelpunum fyrir að hafa gert allt sem þær gátu til að vinna. Stundum er það bara ekki nóg. En þær rísa upp aftur og koma sterkari til baka.

Þeim þykir nefnilega vænt um liðið sitt og leggja sig allar fram til þess að Þór/KA gangi sem allra best. Við vinnum og töpum saman og svona harkalegar lexíur eins og þær hafa fengið að kenna á í síðustu tveim leikjum herða þær og efla til enn frekari afreka í framtíðinni. Það er alveg öruggt.

Ég vona að við sem að liðinu stöndum, félögin, og aðrir velunnarar fótboltans á Akureyri sameinist enn frekar um stelpurnar okkar í Þór/KA og styðji þær og þeirra framgöngu í baráttunni. Þær og aðrar stelpur sem eru að vaxa úr grasi í félögunum eiga það skilið að við stöndum vörð um starfið. Búum þeim eins gott umhverfi og mögulegt er svo þær megi eiga sem besta möguleika að efla og móta sína hæfileika í fótboltanum. Við hin sem sinnum störfunum í kringum sjálfa leikmennina komum og förum og erum í rauninni bara aukaleikarar sem hafa þó skyldum að gegna. Sviðsljósið er á stelpunum, framtíðin er þeirra og það ber að virða.

Áfram Þór/KA!

Jóhann Kristinn Gunnarsson er þjálfari knattspyrnuliðs Þórs/KA

Ósanngjörn kerfisbreyting

Anna Júlíusdóttir skrifar
04. júlí 2024 | kl. 08:00

Heilbrigðiskerfið á Íslandi

Þorgerður Halldórsdóttir skrifar
27. júní 2024 | kl. 17:45

Almenningssamgöngur við flugvelli

Þóroddur Bjarnason skrifar
20. júní 2024 | kl. 20:00

Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
20. júní 2024 | kl. 13:50

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15