Góð leiksvæði eru gulls ígildi
Á Akureyri má finna fjölmörg flott og skemmtileg leiksvæði. Hvort heldur sem um er að ræða leiksvæði við grunnskóla, leikvelli víða um bæ, brettagarða eða folf velli. Gjörbylting hefur orðið á síðustu árum á leiksvæðum við bæði Oddeyrarskóla og Síðuskóla. Gleðin leyndi sér ekki hjá yngri kynslóðinni þegar þau svæði voru tekin í notkun.
Oddeyrarskóli
Síðuskóli
Eitt af því frábæra við þessi svæði er að ekki aðeins gagnast þau nemendum á skólatíma, heldur öllum sem það kjósa, allan ársins hring. Ég hef heyrt að fjölskyldur geri sér ferðir í heimsókn á skólalóðir og hefur fólk m.a. haft það á orði að það sé skemmtilegt hvað svæðinu séu fjölbreytt, enda engin þörf á því að allir leikvellir við alla skóla séu eins. Í sumar var farið í smærri umbætur á lóðum Lundarskóla og Brekkuskóla, en hér má t.a.m. sjá myndir sem tengjast lóðarfrágangi við Brekkuskóla: Brekkuskóli – Tillaga að bættum lóðarfrágangi
Það eru ekki aðeins leiksvæði við grunnskólana, heldur eru leikvellir víða um bæ, sem henta ólíkum aldurshópum, en mikilvægt er að huga að svæðum þar sem börn á ólíkum aldri finna eitthvað við sitt hæfi. Það gæti komið einhverjum á óvart hversu margir leikvellirnir eru, en hér má sjá loftmynd með staðsetningu leikvalla og leiksvæða á Akureyri.
Staðsetning leiksvæða.
Þá er ekki hægt að tala um skemmileg leiksvæði án þess að nefna Kjarnaskóg, þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, en þar var t.d. nýverið sett upp ungbarnaleiksvæði með kanínuþema. Brettagarðurinn við Háskólasvæðið iðar oft af lífi, gleði og tónlist, sem og á folf völlunum sex sem staðsettir eru á Eiðsvelli, Hamarkotstúni, Hömrum, Háskólasvæðinu, Hrísey og í Grímsey.
Kjarnaskógur
Brettagarðurinn við Háskólasvæðið.
Einn af folf völlum bæjarins.
Reyndar hefur nokkuð borið á umræðu um að betur mætti gera í Hagahverfi er við kemur leikvöllum og geri ég ráð fyrir því að við því verði brugðist. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því í fjölskylduvænu sveitarfélagi að í boði séu góð og fjölbreytt leiksvæði sem aðgengileg eru öllum, það veitir gleði og gerir hreinlega bæinn skemmtilegri. Því er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja að viðhaldi þeirra sé sinnt vel.
Hilda Jana Gísladóttir er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri