Fara í efni
Umræðan

Gjaldtaka við flugvöllinn

Það þykir kannski ekki mikið að greiða 350 krónur á tímann fyrir bílastæði á flugvelli eða 1.750 krónur fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem bíll stendur þar eða jafnvel 12.000 krónur fyrir eina viku. En þegar það bætist ofan á annað kostnað sem íbúar landsbyggðanna þurfa að bera, af oftar en ekki nauðsynlegu innanlandsflugi, þá er full ástæða til að spyrna við fæti.

Nauðsynleg þjónusta

Akureyrarflugvöllur er mikilvæg tenging íbúa Norðurlands við höfuðborgarsvæðið og alla þá þjónustu sem landsbyggðafólki er nauðsynlegt að sækja þangað. Í því sambandi má m.a. nefna heilbrigðisþjónustu sem ekki er veitt á Norðurlandi, ekki síst þjónustu fyrir börn. Það má færa góð rök fyrir því að allur sá aukakostnaður sem fellur til við að leita nauðsynlegrar læknisþjónustu á höfðuborgarsvæðið auk vinnutaps og annars ófyrirsjáanlegs kostnaðar við þannig ferðalög, sé nægilega mikill svo ekki sé nú bætt í hann með aukagjöldum sem Isavia hefur nú ákveðið að gera. Það sama á auðvitað við um alla þá sem á hverjum einasta degi er nauðugur sá eini kostur að fljúga til Reykjavíkur til að fá aðra nauðsynlega opinbera þjónustu auk þeirra sem sækja vinnu milli landshluta og eða starfstengdra ferðalaga því oftar en ekki lúta störf á landsbyggðunum yfirstjórn frá höfuðborgarsvæðinu hvort sem er í einka- eða opinbera geiranum.

Fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðháttum, þá er flugvöllurinn á Akureyri þannig staðsettur að ekki er auðvelt að komast þangað með góðu móti öðruvísi en á bíl. Þeir sem búa utan Akureyrar hafa svo aðeins einn kost í stöðunni ætli þeir að nýta sér innanlandsflugið, þ.e. að ferðast til Akureyrar á bíl og skilja hann þar eftir þangað til farið er heim aftur.

Veik rök

Meirihluti þeirra sem fara um flugvöllinn á Akureyri flýgur til Reykjavíkur og annarra staða innanlands, jafnvel þó að millilandaflugið hafi vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Það eru því tæplega haldbær rök fyrir gjaldtöku á bílastæðum við Akureyrarflugvöll að þaðan sé af og til flogið á milli landa, ekkert frekar en að borið hafi á því að einhverjir noti stæðin þar til að geyma bíla þar vikum og mánuðum saman. Það hlýtur að vera hægt að leysa það með öðrum hætti en almennri gjaldtöku á alla flugfarþega sem þurfa að fara um völlinn til að sækja nauðsynglega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Það eru heldur ekki góð rök gegn gjaldtökunni að hún verði ekki tekin upp á sama tíma á öðrum flugvöllum t.d. í Reykjavík eins og Isavia hefur nú boðað að verði, enda gerði það gjaldtöku á Akureyri ekkert bærilegri. Gjaldtaka við Reykjavíkurflugvöll væri þó skiljanlegri í þessu sambandi enda hefur sá völlur lítið vægi fyrir þá sem þurfa á almannaþjónustu að halda, sem er að nánast öllu leiti í starfrækt í Reykjavík en ekki á landsbyggðunum.

Ósanngjarnt viðbótargjald

Það er ánægjulegt að Isavia hafi nú frestað boðaðri gjaldtöku og gefið þannig svigrúm til að fara betur yfir málið, þó að mínu mati hefði verið sanngjarnara að hætta alveg við hana. Rökin fyrir boðaðri gjaldtöku eru haldlítil auk þess sem hún er ósanngjörn gagnvart íbúum Norðurlands. Sama á við um boðaða gjaldtöku á bílastæðum við flugvöllinn á Egilsstöðum gagnvart þeim sem verða að fara um þann flugvöll.

Ég á ekki von á öðru en að talsmenn sveitarfélaga á landsbyggðunum (jafnvel þingmenn sömuleiðis?) og beiti sér fyrir því að hætt verði alveg við boðað landsbyggðagjald Isavia.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20