Fara í efni
Umræðan

Friður um sálgæsluna

Góður og mætur krabbameinslæknir setti niður nokkur orð um stöðu sálgæslu á sjúkrahúsinu. Hann benti á sem rétt er að eftir hans eigin frumkvæði áttum við prestarnir á svæðinu fund og ræddum hvernig við gætum mætt þeirri erfiðu stöðu sem ríkir á sjúkrahúsinu. Það minnsta sem við gátum gert var að útbúa blöðung með kynningu á þeirri sálgæsluþjónustu sem við veitum og sem betur fer hefur það skilað því að fólk sem á þarf að halda hefur nýtt þetta tilboð og leitað samtals hjá prestunum á Akureyri.

Við búum þó í fjölhyggju samfélagi þar sem margt fólk kærir sig ekki um þjónustu sem veitt er af trúfélögum. Þar sem sjúkrahúsið er ekki með starfsmann á launaskrá sem sinnir andlegum og sálrænum stuðningi þýðir það að fólk þarf sjálft að leita eftir þessari hjálp. Ekki er hlaupið að því að fá tíma hjá sálfræðingi hér í bæ með stuttum fyrirvara, eða að fá slíka aðstoð upp á sjúkrahús til fólks sem er þar rúmliggjandi.

Sjúkrahús sálgæsla er ekki fyrst og fremst trúarleg þjónusta. En sá sem veitir slíka þjónustu þarf að geta fylgt fólki út á dýpi tilvistarspurninga, hjálpað því að finna sín eigin bjargráð og leita að styrk innan þeirra eigin heimsmyndar. Þegar ég leysti sjúkrahúsprestinn hér á Akureyri af um tíma voru fæst samtöl trúarleg, en þau voru svo til öll á einhvern hátt tilvistarleg. Af hverju ég? Hvað gerist næst? Hvernig mun fjölskyldan mín spjara sín án mín? Ef fólk átti trú gat ég hjálpað þeim að nýta þau bjargráð sem það átti í trúnni, ef það var ekki trúað leituðum við saman að því sem gæti gefið þeim styrk og frið í aðstæðunum. Oftast var það samt bara samtalið sem fólk vildi, að einhver gæfi sér tíma til að setjast niður og hlusta.

Það er munur á því að geta hringt í prest sem bókar samtal á næstu dögum, eða að hafa starfandi sálgæti inni á stofnunni sem gengur stofugang, ræðir við hjúkrunarfræðingana og fær að vita hver hefði mögulega gott af heimsókn og samtali. Það er ekki þjónusta sem við prestarnir getum veitt vegna persónuverndarlaga og öryggismála á spítalanum skilst mér, en það er þjónusta sem starfsmaður spítalans gæti veitt.

Ég skil það vel að starfsfólkið sem hvern dag setur hjarta og sál í þjónustuna við sjúklinga og aðstandendur svíði undan fyrirsögninni, en greinin er ekki skot á ykkur. Hún ávarpar það að hér á landsbyggðinni fáum við lakari sálræna þjónustu en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Að Sjúkrahúsið á Akureyri sem í orði segist iðka Fjölskylduhjúkrun, stefnu sem miðar að því að fjölskyldunni allri sé mætt og horft til andlegra þátta sjúklings og aðstandenda, sé ekki að fylgja þeirri stefnu eins vel og hægt væri.

Ég er þakklátur fyrir þau viðbrögð forstjóra sjúkrahússins að nú eigi að efla sálrænan stuðning á SAK. Það er tímabært og sjálfsagt að þessi þjónusta sé veitt á sjúkrahúsinu óháð lífsskoðun fólks.

Sindri Geir Óskarsson er sóknarprestur í Glerárkirkju

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00