Fara í efni
Umræðan

Foreldraofbeldi í íþróttum og vanhæfni viðbragðsaðila

Samúel Ívar Árnason skrifaði mjög áhrifamikinn pistil á Facebook síðu sína í dag um Arnar Gunnarsson, bróður sinn, kennara og handboltaþjálfara, sem týndist 3. mars og fannst látinn 2. apríl. Samúel lýsir í pistlinum ótrúlegri framkomu fólks við Arnar og talar um foreldraofbeldi í íþróttum og vanhæfni viðbragðsaðila.

Bræðurnir eru Akureyringar, hafa búið fjarri æskustöðvunum lengi en eiga fjölda ættmenna og vina í Eyjafirði. Samúel Ívar gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta pistilinn.
_ _ _

Addi er fundinn. Það fer að renna upp fyrir okkur að hann kemur aldrei aftur í heimsókn, hringir ekki framar, sendir ekki fleiri skilaboð. Engar skýjaborgir sem höfðu fundið sér fótfestu í huga okkar munu rætast. Það verða engir endurfundir, þetta er endanlegt.

Eftir standa fjölskylda og vinir í sorg og söknuði.

Á undanförnum vikum hef ég með dyggri aðstoð góðra manna reynt að fá svör við því hvers vegna sagan hans Adda endaði svona. Umtal/sögur um hann hafa borist okkur til eyrna, illkvittinn orðrómur og atburðarrás sem standast ekki nánari skoðun. Það er tímabært að rétta það umtal. Þið sem hafið áhuga á að fá innsýn inn í atburðarrásina sem endaði með þessum harmleik getið lesið áfram Þetta er samantekt byggð alfarið á þeim upplýsingum sem okkur hefur tekist að safna saman og kallast:

Foreldraofbeldi í íþróttum og vanhæfni viðbragðsaðila

Ég hef starfað við þjálfun og kennslu í Noregi og á Íslandi í yfir 30 ár og er í dag starfandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá HK. Eftir því sem árin hafa liðið og tíðarandinn breyst, kemur sífellt skýrar í ljós hve mikil áhrif foreldrar hafa á störf íþróttafélaga. Það jákvæða má sjá í fjáröflunum, sjálfboðaliðastörfum og öllu utanumhaldi árganga sem er talsvert betra en það var þegar ég var yngri. Í þá daga fór heill flokkur með þjálfara sínum í rútu frá Akureyri til Reykjavíkur (og öfugt ef keppt var fyrir norðan), gisti saman einhvers staðar og spilaði leiki. Fararstjóri datt inn nokkru síðar en annars voru allir iðkendur á ábyrgð þjálfarans á meðan á keppnisferðinni stóð. Nú fer nánast allur foreldraskarinn með og heldur utan um þetta með þjálfurum liðanna.

Neikvæða hliðin er helst sú að foreldrar hafa á tíðum sterkar skoðanir á því hvar barnið/ungmennið sitt stendur gagnvart öðrum iðkendum sama flokks. Sum hver bjóða sig fram til starfa fyrir félagið, meðal annars í barna og unglingaráðum og stjórnum deilda eða félaga. Því miður virðist hvatinn þar að baki oft vera að liðka fyrir framgangi eigin afkvæmis en ekki til að stuðla að faglegu og öflugu starfi félagsins í heild.

„Mitt barn er best, mitt barn á skilið að fá þetta eða hitt... HA!!! er mitt barn í B-liðinu? Burt með þjálfarann!“

Á verulegu undanhaldi er viðhorfið að ef einhver er ósáttur með stöðu sína eða afkvæmis síns innan liðs er bara ein leið fær. Að leggja harðar að sér, bæta sig og berjast fyrir því sem þig langar í. Margir foreldrar grípa frekar til þess ráðs að baktala þjálfara og vinna gegn honum leynt og/eða ljóst. Þannig frétti ég fyrr í vetur að foreldrar einhverra leikmanna í mínu liði hafi reynt að safna undirskriftum til að fá mig rekinn á haustmánuðum. Ekki vegna þess að ég hefði gerst brotlegur í starfi, heldur eingöngu vegna þess að afkvæmi þeirra voru ekki að fá tækifærin sem þeim þótti þau eiga rétt á. Þessir foreldrar ræddu aldrei við mig, iðkendurnir spurðu mig aldrei hvað þær þyrftu að bæta til að komast nær byrjunarliðinu eða fá fleiri tækifæri á vellinum. Við erum að tala um meistaraflokkslið í Olísdeildinni, ekki 7. flokk stúlkna. Firringin og frekjan nær alla leið, upp og niður alla aldursflokkana.

Flestir þjálfarar eru fagmenn og ég á enn eftir að hitta þjálfara sem tapar viljandi leikjum með því að láta leikmenn sem hann telur betri en aðra sitja á bekknum eða utan hóps út af engu. Hins vegar horfa þjálfarar á marga aðra þætti en hæfileika með boltann, því lið virkar ekki nema leikmenn virki saman. Stóru sigrarnir koma ekki með leikmönnum sem nenna ekki að leggja sig fram eða vinna illa með öðrum. Stundum stendur valið á milli tveggja álíka góðra leikmanna og þá spila talsvert fleiri þættir inn í ákvörðun þjálfara. Hvor mætir betur, hvor gerir aðra í kringum sig betri, hvor leggur sig meira fram, hvor gefur meira í þetta, hvor er betri í vörn, hvor er betri í sókn, hvor er að þínu mati ákveðnari og svo mætti lengi telja. Aðstæður geta líka breyst og þjálfarinn metur stöðuna á annan hátt einhverjum vikum seinna, það er það skemmtilega við þetta allt saman. Þetta virðast margir foreldrar eiga ákaflega erfitt með að skilja eða sætta sig við, telja sig annað hvort vita meira um handbolta en margreyndir þjálfarar sem vinna með hópinn mörgum sinnum í viku, eða ætla sér að beita áhrifum sínum eða völdum til að fá óverðskulduð „tækifæri“ fyrir börnin sín. Dæmin um slíka framkomu foreldra eru því miður allt of mörg og einskorðast ekkert frekar við eitt íþróttafélag en annað, ekkert frekar við eina íþróttagrein en aðra.

Arnar bróðir minn, sem starfaði hjá HK líkt og ég, gekk í gegnum talsvert grimmari öldusjó. Þar fór fólk úr hópi foreldra 3ja flokks drengja sem Arnar þjálfaði að vinna markvisst að því að losa sig við hann. Ástæða óánægjuradda í upphafi? C er ekki að fá sömu tækifæri og G eða Y, er í B-liðinu þegar foreldrinu finnst að hann eigi að vera í A-liðinu, spilar ekki stöðuna sem hann langar til eða er ekki í nægilega stóru hlutverki að þeirra mati. Fjölmargir fundir áttu sér stað og áreitið á Arnar nánast stanslaust allt tímabilið. Skapast ekki annars meiri sérfræðiþekking á íþróttinni á því að fylgja barninu sínu upp yngri flokkana en að starfa við þjálfun í áratugi? Það mætti að minnsta kosti halda það miðað við áganginn sem hann þurfti að sitja undir.

4. janúar þessa árs er haft samband við mann sem átti að koma inn sem aðstoðarþjálfari Arnars og meðal annars hjálpa til við að lægja öldurnar í 3ja flokki félagsins. Margreyndur þjálfari í þessu tilviki sem er klár í verkefnið. Hann fær þau skilaboð frá yfirþjálfara yngri flokka að barna og unglingaráð muni hafa samband við hann á næstu dögum til að ganga frá samningum. Það er aldrei klárað því svo virðist sem einhverjir innan félagsins séu staðráðnir í að losna við Arnar með öllum ráðum. 10.janúar er Arnar boðaður á fund þar sem ætlunarverkið mistekst. Á þeim fundi er ákveðið að leysa úr samskiptaflækjum milli hans og ákveðinna aðila í foreldrahópnum og horfa fram á veginn. Enn dregur þó barna og unglingaráð HK lappirnar með að ganga frá samningum við aðstoðarþjálfarann, hefur í raun aldrei samband við hann. Hvers vegna fæ ég ómögulega skilið því hann hefði sannarlega verið mikill fengur fyrir liðið og hópinn í heild sinni.

Viku seinna, eða 17. janúar berst ÍSÍ bréf um að Arnar hafi hagað sér ósæmilega gangvart iðkendum og brotið siðareglur félagsins. HK sé meðvitað um stöðuna en sé ekki að gera neitt í málinu. Innihald þessa bréfs er byggt á sögusögnum og dylgjum og standast nákvæmlega enga skoðun þegar kafað er í málið. HK fær tilkynningu frá ÍSÍ um að þeim hafi borist þetta bréf og eiga í einhverjum samskiptum við samskiptaráðgjafa ÍSÍ sem fer með málið fyrir hönd ÍSÍ, en ekkert úr þeim samskiptum er notað sem ástæða uppsagnar sem á sér loks stað 24. janúar á þessu ári. Þar eru ástæður uppsagnar sagðar „brot á siðareglum“ sem felst í að Arnar tók poka með sokkum og leyfði iðkendum að eiga, og „samskiptavandi milli Arnars og foreldra í hópnum“.

Uppsögnin og allt ferlið þar í kring er svo efni í farsa sem ég gæti talað um í marga klukkutíma. Í stuttu máli fer barna og unglingaráð HK fram hjá formanni handknattleiksdeildar félagsins við brottreksturinn. Samningur Arnars var nefnilega ekki við barna og unglingaráð, heldur við deildarstjórnina og þar er formaður handknattleiksdeildar æðstur. Vitandi að formaðurinn muni ekki samþykkja brottreksturinn fara þau fram hjá honum og fá undirskrift frá framkvæmdastjóra félagsins sem er einnig hluti af þessum foreldrahópi. Eftirmenn Arnars í þjálfuninni eru svo eiginmaður framkvæmdastjórans og tveir góðir vinir hans, annar þeirra starfandi yfirþjálfari hjá félaginu með afar skrautlega forsögu í sínum samskiptum við iðkendur. Faglega unnið eða hvað?

Meðhöndlun ÍSÍ á þessum ásökunum er svo fyrir neðan allar hellur og nauðsynlegt fyrir íþróttasambandið að fara vel yfir þetta mál til að tryggja að eitthvað álíka gerist aldrei aftur. Sambandið, í þessu tilfelli samskiptaráðgjafi ÍSÍ sem fær málið í hendurnar, rannsakar hvorki ásakanirnar markvisst eða af fagmennsku. Sú einfalda og auðvelda leið er valin að senda Arnari póst um að sambandinu hafi „borist erindi“ en málinu sé lokið vegna þess að „hann er ekki lengur starfandi hjá félaginu“. Arnar vissi ekkert um þetta mál fyrr en hann fær þennan póst frá samskiptaráðgjafa ÍSÍ, var ekki tilkynnt hverjar ásakanirnar voru og var því aldrei beðinn um að gefa sínar skýringar á þeim. Innihald bréfsins er honum hulið allt þar til hann fer á fund með þessum aðila daginn sem hann hverfur. Þið megið reyna að setja ykkur í þau spor að fá slíkt erindi til ykkar, fá engar upplýsingar um hvað verið er að saka ykkur um og velta fyrir ykkur hvernig þið mynduð bregðast við. Svona vinnubrögð eru óásættanleg með öllu. Ef þjálfari gerist sekur um einhver brot gagnvart iðkendum, líkt og Arnar var sakaður um eða gefið í skyn að hann hafi gert í þessu bréfi, er fráleitt að viðkomandi sleppi við frekari rannsókn vegna þess eins að hann sé hættur störfum hjá félaginu þar sem meint brot áttu sér stað. Sambandinu ber að mínu mati skylda til að kæra viðkomandi til lögreglu, í það minnsta að sjá til þess að málið sé rannsakað að fullu ef rökstuddur grunur er á sekt hans/hennar. Reynist viðkomandi sekur á hann ekkert að koma aftur að störfum með börnum og ungmennum. Reynist hann saklaus verða þau sem bera ábyrgð á rógburði að svara fyrir sínar gjörðir. Það á aldrei að vera í boði að bera slíkar ásakanir á borð ef þær eru ekki byggðar á staðreyndum og/eða atburðum, fólk verður að þurfa að standa fyrir máli sínu. Orð bera ábyrgð og það er löngu tímabært að við áttum okkur á því.

Óvildarmenn Arnars létu sér þó ekki nægja að ráðast á hann með bréfinu til ÍSÍ og hafa af honum starfið sem þjálfara hjá HK. Nei, það átti sko að ganga alla leið og rústa mannorði hans og atvinnumöguleikum með því að senda samhljóma bréf til Kópavogsskóla þar sem hann starfaði sem umsjónarkennari. Berst það bréf 1. febrúar, eða viku eftir að ætlunarverkinu um að losna við hann sem þjálfara liðsins heppnast. Tíminn hefur leitt í ljós að þar er um að ræða sömu dylgjurnar og sendar voru til ÍSÍ. Engar staðreyndir, engir atburðir, ekkert sem heldur vatni þegar rýnt er í það, falskt nafn og símanúmer skrifað undir. Þetta fólk þorir nefnilega ekki að standa á bak við þessa aðför undir eigin nafni eða nöfnum. Og höfum eitt alveg á hreinu, þetta er ekkert annað en aðför að mannorði Arnars og afskaplega grimmileg sem slík. Er skemmst frá því að segja að Kópavogsbær afgreiddi málið á rétt rúmum 2 sólarhringum og Arnar mættur aftur til starfa sem umsjónarkennari 5.bekkjar strax í kjölfarið. Ekki af því að bærinn vann málið illa, heldur vegna þess að innihald bréfsins var þess eðlis að það var einfalt að afgreiða það sem þvætting. Ef einhver fótur væri fyrir þeim ásökum sem stóðu í bréfunum tveim, er algerlega ljóst í mínum huga að hann hefði ekki fengið að mæta aftur til að kenna 11 ára börnum. Að halda öðru fram er hreinlega fráleitt.

Í dag virðist ekki skipta miklu máli hvort þú ert sekur eða saklaus þegar orðrómurinn fer af stað og þessi hópur hefur aldeilis séð til þess að orðrómur um að Arnar hefi hegðað sér ósæmilega gagnvart iðkendum sínum lifi vel í handboltasamfélaginu hið minnsta. Ég frétti síðast af slíku umtali fyrir viku síðan, rúmum mánuði eftir að hann hvarf. Það elska líka allir að heyra eitthvað krassandi um náungann, smjatta vel á því og segja öðrum hvað einhver á að hafa gert, eða hvað? Frásögnin breytist svo hægt og rólega í eitthvað sem hann eða hún gerði. Snjóboltinn fer að rúlla og sögurnar hlaða á sig fleiri krúsídúllum eftir því sem fleiri bera hana á milli sín og hver og einn segir hana oftar. Áður en þú veist af er allt orðið staðfest því þú ert búinn að heyra það svo oft og jafnvel „frá einhverjum sem þekkir vel til málsins“. Fram á sviðið stíga sjálfskipaðir sérfræðingar sem reyna að upphefja sjálfan sig og stöðu sína innan hreyfingarinnar með því að vera með upplýsingar „úr innsta hring“ að eigin sögn. Í raun hafa þessir sérfræðingar ekkert annað en eitthvað kjaftæði sem þeir hafa heyrt af frá fleiri en einum og tveimur.

Mér þykir einnig afskaplega sorglegt að fá fregnir af að einhverjir séu sannfærðir um sekt bróður míns vegna þess að hann hafði ekki þrek til að standa þessar árásir af sér, án þess að vita neitt til málsins. Arnar hafði staðið í stanslausum árásum í allan vetur og baráttuþrekið einfaldlega á þrotum. Ég hef velt við öllum þeim steinum sem mér er fært að gera, meðal annars mætt á fund með framkvæmdastjóra HK, aðila úr barna og unglingaráði og aðila úr aðalstjórn. Ég hef nánast grátbeðið þau um að fá frásagnir, staðfest atvik eða annað sem gæti runnið stoðum undir að Arnar hafi brotið af sér eða hagað sér ósæmilega gagnvart iðkendum sínum. Ekkert hefur borist þaðan, þau könnuðust ekki við neitt í þessa áttina er ég ræddi við þau. Því er ekki annað að sjá en að enginn fótur sé fyrir þessum ásökunum og þar af leiðandi er í raun eini óvissuþátturinn hve margir standa á bak við þær, samtímis blasir einnig við hvaðan skíturinn kemur þótt andlitin séu í felum.

Bróðir minn var ekki fullkominn frekar en ég eða aðrir, en hann nálgaðist þjálfun og kennslu af einskærri fagmennsku og ekki síst umhyggju fyrir þeim sem hann var að vinna með. Hann kvæntist aldrei né eignaðist börn, handboltinn kom í þeirra stað og var honum allt. Hann lá því vel við höggi þegar kjaftasögurnar náðu flugi og særðu hann að sama skapi dýpra en aðra sem eiga eitthvað annað sem er þeim dýrmætara. Þegar ráðist er á æru þína af slíkum krafti og offorsi getur verið erfitt að streitast á móti. Þetta smitar fljótt út frá sér og kunningjar þínir þurfa jafnvel að kanna málið áður en þeir eru tilbúnir að votta um það hver þú ert, fyrir hvað þú stendur, eða skrifa meðmælabréf fyrir þig.

Við sem þekktum hann tengjum ekki saman hljóð og mynd í þessu máli, þessar ásakanir eru svo fjarri manninum sem við þekktum og var okkur svo kær. Arnar var ekki allra og hleypti sömuleiðis ekki hverjum sem er inn í sinn innsta hring, en hann var traustur og tryggur, með sterkar skoðanir á málefnum, ófeiminn við að láta þær í ljós og taka rökræður, faglegur í allri sinni nálgun í leik og starfi. Hann var einstaklega laginn með börn og ungmenni, ljúfur og skemmtilegur.

Samkvæmt stjórnendum Kópavogsskóla á hann sérstakan stað hjá börnunum sem hann kenndi þetta skólaárið fram að andláti sínu. Þar eru allir miður sín yfir því að hafa misst hann. Ég meina, hvaða toppeintak af kennara getur endað tímana sína á því að kalla yfir hópinn „allir í frímó“ og fá til baka samhljóma svarað „og hlusta á Skímó!“. Eins hafa fyrrum samstarfsmenn, iðkendur og foreldrar úr Selfossi og Fjölni, þar sem Arnar starfaði í 10 og 4 ár, fært okkur sem næst honum standa heilan haug af fallegum sögum sem mála mynd af miklum fagmanni og mannvini. Einhver sem lét velferð iðkenda sinna sig mikið varða og gerði allt sem í hans valdi stóð til að hjálpa þeim innan vallar sem utan. Margir hverjir leituðu áfram til hans þótt hann væri löngu hættur að þjálfa þá og hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa þeim sem það gerðu.

Á endanum hafði Arnar minn ekki kraftinn til að standa af sér þennan storm, þrátt fyrir að hann hefði þéttan vinahóp á bak við sig, þar á meðal einstaklinga innan íþróttafélagsins HK. Þið sem stóðuð að baki þessum stormi megið bera skömmina að eilífu og ættuð að mínu mati að halda ykkur fjarri öllu íþrótta og tómstundastarfi héðan í frá, þið eruð ekki hæf til verksins. Feluleikur þeirra seku varpar einnig skugga á alla hina foreldrana í þessum hóp, sem liggja hvert og eitt undir grun um alvarlega aðför að mannorði Arnars á meðan svo er. Aðför sem ýtir honum hægt en örugglega að bjargbrúninni og að lokum fram af henni. Við þessa aðila vil ég að lokum segja. Það er vegna framkomu ykkar og gjörða að farinn er frá okkur einn allra færasti þjálfari landsins, afbragðs kennari, mannvinur og yndislegur drengur. Við sem þekktum hann munum sakna hans og syrgja svo lengi sem við lifum, sárin í hjörtum okkar munu aldrei gróa að fullu.

Samúel Ívar

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00