Ferðaþjónustan kemur saman að nýju
Stærsti viðburður ferðaþjónustunnar á Íslandi verður haldinn nú í vikunni. Fimmtudaginn 24. mars koma hátt í þúsund manns saman á ferðakaupstefnunni Mannamót Markaðsstofa landshlutanna sem haldin er árlega. Á Mannamótum koma ferðaþjónustufyrirtæki úr öllum landshlutum saman til að kynna þjónustu sína og vörframboð fyrir fólki í ferðaþjónustu sem staðsett er á höfuðborgarsvæðinu. Stór þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar eftir erfiðleika síðustu tveggja ára er að vinna þétt saman í nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Þarna myndast mikill suðupottur hugmynda og verkefna, bæði á milli landshluta en einnig innan svæða.
Mannamót var síðast haldið í janúar 2020 og má því gera ráð fyrir að í þetta sinn munum við sjá breytingar á fyrirtækjum og mannskap. Heimsfaraldur Covid-19 hefur tekið á og fyrirtæki þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og markaðsbresti. Á sumum svæðum tók innanlandsmarkaður að einhverju leyti við en á öðrum svæðum þurrkaðist ferðaþjónustan nánast út og mun taka tíma að ná fyrri stöðu.
Framundan er ár uppbyggingar og vaxtar. Bókanir fyrir sumarið líta vel út og mikill ferðavilji er greinilegur. Ferðaþjónustan hefur núna tækifæri til endurskipulagningar og þarf að leggja mikla áherslu á að byggja upp framboð þjónustu um allt land, fá aftur til sín starfsfólk sem hvarf til annarra starfa og hefja fjárfestingar á ný. Á sama tíma eru nýjar áherslur að birtast svo sem varðandi kröfur um sjálfbærni og breytt ferðahegðun.
Á Mannamóti gefst tækifæri til að ræða málin, skiptast á hugmyndum, efla viðskiptasambönd og kynna þjónustu eða ný verkefni. Þessi vettvangur hefur fest sig í sessi sem ein stærsta ferðakaupstefna á Íslandi og verða þar án efa miklir fagnaðarfundir við þetta tækifæri hjá samstarfsaðilum sem hafa lítið getað hist síðustu tvö árin. Endurreisn ferðaþjónustunnar er að hefjast af krafti.
Arnheiður Jóhannsdóttir er talskona Markaðsstofa landshlutanna.