Fara í efni
Umræðan

Fallorkan okkar

Við Akureyringar, ásamt nágrönnum okkar, eigum saman ansi flott fyrirtæki sem heitir Fallorka. Starfsemi félagsins snýst um framleiðslu og sölu á raforku. Til að framleiða raforkuna hefur Fallorka byggt vatnsaflsvirkjanir í Djúpadal og Glerárdal og reist vindmyllur og sólarsellur í Grímsey. Á síðustu tveimur árum hefur félagið einnig sett upp fjölda hleðslustöðva fyrir rafbíla.

Raforkunotkun heimila

Í dag eru tæplega 10.000 heimili á Akureyri (sem ættu auðvitað öll að kaupa raforku af Fallorku og þannig styrkja alvöru umhverfis- og loftslagslausnafyrirtæki í heimabyggð). Að meðaltali notar hvert heimili um 4.000 kWst af raforku á ári og rafbíll sem ekið er um 12.000 km á ári notar um 2.000 kWst. Árlegur raforkukostnaður dæmigerðs heimilis á Akureyri sem kaupir 6.000 kWst er samkvæmt vefsíðu Orkuseturs um 125.000 krónur, og skiptist í 73.000 krónur í dreifingu og fastagjald til Norðurorku og 52.000 krónur í raforkukaup af Fallorku. Það kostar sem sagt um 10 þúsund krónur á mánuði að fá raforku sem framleidd er í heimabyggð með endurnýjanlegri orku frá Fallorku og flutt og heimsend með Norðurorku. Fyrir þessa vöru er hægt að fá orku í alla lýsingu, kælingu og afþreyingu, auk orku á rafbílinn. Þetta eru um 2% prósent af útborguðum meðallaunum einstaklings. Líklega erum við að borga talsvert meira fyrir ýmsa þjónustu eins og síma, internet og áskriftir, þ.e. þjónustu sem við gætum ekki einu sinni notað án raforku. (Sem þýðir að ef Fallorka myndi hækka verðið um 5% hækkuðu raforkukaupin um 2.800 krónur á ári, það er nú allt og sumt. Það þýðir svo aftur að af öllu því sem gengur á í heimilisbókhaldi landsmanna á hverju ári ætti raforkuverð að vera mjög neðarlega á áhyggjulistanum.)

Til skýringar eru 4.000 kWst það sama og 4 MWst en eigin framleiðsla Fallorku á síðasta ári var um 45.000 MWst. Heimilin á Akureyri nota þá um 40.000 MWst til almennra nota og því má segja að með smá einföldun fáum við alla þá orku úr eigin auðlindum frá fyrirtæki í okkar eigu. En hvað þegar kominn verður einn rafbíll á hvert heimili, jafnvel tveir? Það þýðir væntanlega að heimilin munu kaupa á bilinu 60–70.000 MWst á ári. Raforkureikningur heimilanna mun vissulega hækka, jafnvel tvöfaldast, en heildarútgjöld heimila munu lækka verulega þegar olían verður endanlega fjarlægð úr innanlandssamgöngubókhaldi heimilisins (og þannig lækkar Fallorka verðbólguna).

Í dag eru tæplega 1.000 hreinir rafbílar og um 2.000 tengiltvinnbílar skráðir á Akureyri. Samkvæmt rannsóknum hlaða rafbílaeigendur um 90% heima. Ef við förum varlega í útreikninga hefur núverandi floti aukið raforkuviðskipti sín við Fallorku og Norðurorku um tæpar 80 milljónir á ári, að mestu með innviðum sem voru hvort eð er til staðar. Þegar allur fólksbílafloti bæjarins verður rafvæddur verður þessi tala um 250 milljónir á ári. Þetta lækkar eldsneytisútgjöld heimila á Akureyri um nokkra milljarða á hverju ári. Þannig getur orkan frá Fallorku lækkað (verðbólguna og) heimilisútgjöldin.

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: Dreifiveitur (eins og Norðurorka) eru bundnar ákveðnum lögum og reglum varðandi tekjumörk (vegna sérleyfa), sem þýðir að þegar tekjurnar aukast með tilkomu orkunotkunar rafbíla í raforkukerfi sem þegar er til staðar þarf hreinlega að lækka verðið eða alla vega draga úr hækkunum. Svo það sé sagt á mannamáli, þá eru dreifiveitum sett ströng skilyrði varðandi það hversu mikið þær mega hagnast á fjárfestingum.

Söguleg þróun

Fallorka hóf eigin sölu á rafmagni árið 2007, en fram til þess tíma var salan í gegnum Norðurorku. Árið 2008 er líklega stærsta árið í dreifingu á raforku í kerfi Norðurorku, en þeim toppi verður mögulega náð á þessu ári, 15 árum síðar. Fjöldi MWst sem flæða um ört vaxandi dreifikerfi Norðurorku hefur nánast staðið í stað hátt í 20 ár.

Hvernig má þetta vera og hvað þýðir það? Skýringin á þessu er fyrst og fremst bætt orkunýtni allra rafmagnstækja; ryksugna, ísskápa, sjónvarpa, LED lýsingar o.s.frv.

Árið 2008 dreifði Norðurorka um 118.000 MWst af raforku um svæðið. Í ársbyrjun það ár voru 7.454 íbúðir á Akureyri og 16.606 íbúar. Í ár er verið að dreifa svipað mörgum MWst um miklu stærra kerfi þar sem að baki liggja miklar fjárfestingar til um 10.000 heimila sem á búa um 20.000 manns Sem sagt, færri MWst á línueiningu og þar með minni tekjur á hvern metra af strengjum. Þetta er svipað og að leggja nýja vegi um landið fyrir alltaf sama fjölda af bílum, þ.a. annað hvort verður hver og einn bíll að borga meira eða bílunum að fjölga til að standa undir fjárfestingunni. Þetta er einmitt mjög áhugaverð samlíking því í samgöngum hefur akkúrat það andstæða gerst; umferð hefur aukist gríðarlega mikið síðan 2008 en innviðirnir heldur gefið eftir.

Græn sjálfbærari framtíð

Fyrir okkur sem eigum Fallorku og Norðurorku er því gríðarlega mikilvægt að fjölga MWst sem fara um fjárfestingarnar sem við höfum þegar lagt út fyrir. Besta leiðin til þess er að skipta úr olíubílum í rafbíla. Þannig græða allir, loftgæðin batna og bærinn verður hljóðlátari, hreinni og grænni.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er framkvæmdastjóri Vistorku ehf.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00