Færsla á KA vellinum upp á Brekku er ótímabær
Menn fara betur með sitt eigið fé en fé annarra, þessi frasi flaug mér um hug fyrir um ári síðan þegar það gerðist að allir sex flokkar bæjarstjórnar fóru undir eina sæng af því að bæjarsjóður var í uppnámi. Það er kúnst að reka sveitarfélag og Akureyri er á þeim erfiða stað að vera nógu stór til að vera krafin um hátt þjónustustig en varla nógu stór til að standa undir rekstrinum. Því þarf að vanda til um hverja einustu krónu og hafa gott eftirlit með bæjarstjórn. Og af því að fjölmiðlar í bænum eru ritstjórnarlega veikir þá vex mikilvægi minnihlutans um að standa upplýsingavaktina, rýna með gagnrýnum hætti störf meirihlutans og upplýsa bæjarbúa um hvað hann er að aðhafast. Það þarf eitthvað meiriháttar tilefni til þess að minnihluti gangi úr stöðu sinni og gangi til liðs við meirihlutann, staða bæjarsjóðs hlýtur að hafa verið mjög alvarleg enda var sú skýring gefin að kórónuveirufaraldurinn væri að sliga bæjarsjóð. Í opinberum rekstri liggja menn ekki á óráðstöfuðu fé og þegar utanaðkomandi áhlaup verða þarf að skera niður kostnað, beita ráðdeild og auka kröfuna um félagslegan ávinning af því sem gert er. Fyrir kórónuveiru fréttist af hundruða milljóna framúrkeyrslu í framkvæmdum við Listasafnið á Akureyri, endurbætur á Sundlaug Akureyrar fóru sömuleiðis í hundraða milljóna framúrkeyrslu, endurbætur á búningsklefum í KA heimilinu áttu að kosta 40 milljónir en fóru langt upp í 100 milljónir og jafnvel litla brúin fyrir neðan Samkomuhúsið fór milljónatugi fram úr áætlun. Og af því að þessir peningar eru ekki til þá var þegar langt gengið í lántökum og niðurskurði í þjónustu og það má alveg velta því fyrir sér hvort aukinn niðurskurður upp á milljónatugi í grunnskólum bæjarins sé m.a. afleiðing þessarar óráðsíu.
En það dugar ekki að leggjast niður og deyja, bærinn þarf að halda áfram að þróast en lykilspurningarnar, fyrst svona var fyrir sjóðnum komið, hvað skal verja, hvað skal velja til framkvæmda og hvað getur beðið? Við hljótum að vilja fá sem mest fyrir peninginn sem til er. Og þegar Akureyrarbær skrifar upp á viljayfirlýsingu við KA um að færa heimavöllinn þeirra frá Eyrinni og upp á Brekku, í miðju fjárhagslegu öngstræti bæjarsjóðs, hlýt ég að spyrja mig hvort ráðstöfun á þeim tæpu sé það sem okkur vantar núna?
Ég er ekki að tala gegn fjárfestingu í íþróttauppbyggingu í bænum, þvert á móti. Ég hef verið að tala fyrir uppbyggingu á því sviði þar sem virðisaukinn er mestur, þar sem við fáum mest fyrir peninginn, þar sem allir bæjarbúar græða. Hver væri ávinningurinn af því að færa KA völlinn af Eyrinni upp á Brekku? Mun losna um aðra knattvelli þannig að fleiri komast að og geta nýtt betur? Mér skilst að svo verði ekki. Þótt við bætist gervigrasvöllur hjá KA (þar fyrir er annar eins völlur) sem er nothæfur allt árið til æfing og keppni þá verður, að mér skilst, enginn ávinningur af því fyrir aðra en KA. Um þúsund milljóna framkvæmd til handa KA gagnast þeim einum. Er það vegna þess að svo mikil fjölgun hefur verið á iðkendum í KA m.a. vegna Nausta- og Hagahverfis? Nei, þrátt fyrir þá uppbyggingu er KA lítið stærra félag en hitt fjölgreinafélagið í bænum, Þór. Fjöldi iðkenda á aldrinum 5 – 19 ára er í KA 1.095 og Þór 913. Eftir stendur ósvöruð spurningin; Hvers vegna losnar ekki um á öðrum sparksvæðum bæjarins við uppbyggingu á nýjum upphituðum flóðlýstum gervigrasvelli sem hægt er að nota til æfinga og keppni í 5 til 7 klst á dag, alla daga vikunnar, allt árið?
Svo þarf að taka tillit til þess að Akureyrarbær hefur nú þegar lagt um 200 milljónir í framkvæmdir við Akureyrarvöll til handa KA. Á að henda þeim peningum? Væri ekki nær, í ljósi alvarlegrar stöðu bæjarsjóðs, að taka upp undirlagið í haust, leggja nýtt gras sem kæmi upp gróið í vor? Þá þarf líka að taka tillit til þess að eftir allar framkvæmdir þarf að reka mannvirkið sem reist var. Sem dæmi jókst, skv. fréttum, rekstrarkostnaður Listasafns Akureyrar eftir framkvæmdir úr 40 milljónum á ári upp í 70 milljónir og dugar varla til. Nýr völlur og húsbyggingar í kringum það kallar á aukinn rekstrarkostnað. Það fellur á bæjarsjóð.
Á þessum tímapunkti í lífi bæjarsjóðs er í mínum huga augljóst að næsta stóra framkvæmd í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum á að vera hvar ávinningurinn er mestur. Röðin er komin að okkur, almenningi í bænum. Nú er komið að því að reisa íþróttahúsið okkar og gera það í tengslum við byggingu íþróttahúss á félagssvæði Þórs. Þar er félagslegi ávinningurinn mestur, þar getum við komið saman og eflt líkama og sál yfir daginn. Það er komið að því að lýðheilsa Akureyringa eigi sinn stað í íþróttaflóru Akureyrar. Þetta er skynsamlegasta skrefið í ráðstöfun bæjarsjóðs í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum og það skref sem skilar mestum ávinningi fyrir flesta.
Bæjarfulltrúarnir okkar hafa val. Fyrir um þúsund milljónir, ætla þeir að færa fótboltavöll KA frá Eyrinni upp á Brekku eða reisa bæjarbúum íþróttahús helgað lýðheilsu þeirra?
Geir Hólmarsson er áhugamaður um íþróttir og lýðheilsu.