Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna
Inntak þessarar greinar er að gera fólki ljóst að samfélagið (ríkið) hefur komið bændum í þessa erfiðu stöðu nú með aðgerðarleysi og tómlæti eða beinlínis með aðgerðum sem unnið hafa gegn greininni. Stuðningur við greinina er orðinn í skötulíki þar sem veikburða tollvernd og sí minnkandi stuðningsgreiðslur við greinina duga hvergi til. Á sama tíma ætlar þjóðin greininni stórt hlutverk í að tryggja okkur fæðu- og matvælaöryggi og vera um leið grunnstoð í byggðafestu. Bændur munu ekki geta skaffað okkur áfram heilnæman mat ef ekki verður gripið til aðgerða nú og rekstrarumhverfi þeirra gert skaplegt og fyrirsjáanlegt og samkeppnisumhverfið sanngjarnt.
Mikið hefur þó verið rætt um slæma stöðu bænda á undanförnum vikum en minna komið fram af raunhæfum lausnum eða vilja til að bregðast strax við vandanum. Þó er nú að störfum nefnd þriggja ráðuneytisstjóra sem vonandi ná að greina og skilja vandann og koma fram með tillögur að aðgerðum sem gagnast.
Eins og ég fjallaði um í grein minni á Akureyri.net þann 21. október sl. Eiga bændur að vinna launalaust við að skaffa okkur matinn er staðan gríðarlega alvarleg og eitthvað sem bændur ráða engan veginn við að leysa nú.
Bændur hafa oft gengið í gegnum þrengingar og átt erfiðara en margar aðrar stéttir í samfélaginu að ná sanngjörnum launum fyrir vinnu sína. Við þekkjum sem dæmi erfiðleika sauðfjárbænda til margra ára, mjög sveiflukennda afkomu nautgripabænda, garðyrkjubænda og svínabænda sem dæmi. En nú eru mjólkurbændur einnig komnir í stórkostlegan rekstrarvanda.
Allt annað en þrengingar, ástandið er grafalvarlegt
Það sem er að gerast nú er allt annað og meira en þrengingar, atvinnugreinin í heild sinni er í miklum vanda, bæði vegna verðhækkana á aðföngum umfram þær hækkanir sem bændur sjálfir hafa fengið á sínar afurðir, en að lang mestu leyti er vandinn nú þó tilkominn vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar í kjölfar 14 stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Þannig standa mjólkurframleiðendur nú frammi fyrir gríðarlegum vanda, en þessi grein landbúnaðarins hefur þó haft mjög bærilega afkomu undanfarin ár. Bændur hafa á liðnum árum fjárfest í bættum aðbúnaði dýra og betri tækni, en um leið hefur verið hagrætt mikið í þeirri grein og þá ekki minnst við úrvinnslu afurðanna. Hagræðing nú sem svar við vandanum er því engin lausn, það er einfaldlega ekkert eftir til að hagræða á móti þessum hamförum í rekstraumhverfinu. Aukinn vaxtakostnaður bítur hart á þessari grein þar sem fjárfesting er mikil í slíkum rekstri sem hlutfall af veltu. Vaxtahækkanirnar einar og sér hafa í mörgum tilvikum þurrkað út launagreiðslugetu búanna. Allt tal um nýsköpun og nýja sprota dugir skammt þegar undirstaðan er svona veik eins og nú er raunin.
Ekkert af þessu er bændunum sjálfum að kenna
Staðan er algjörlega tilkomin vegna þess að við sem þjóð erum ekki að standa vörð um greinina og tryggja henni eðlilegt rekstrarumhverfi. Stuðningur við greinina er í skötulíki og þannig ekkert í líkingu við það sem var fyrir 10-15 árum síðan og heldur ekki nálægt því sem nágrannalönd og samkeppnislönd okkar gera til að styðja við og verja sína landbúnaðar- og matvælaframleiðslu. Samt ætlum við greininni að gegna lykilhlutverki í samfélaginu við að tryggja fæðu- og matvælaöryggi okkar sem þjóðar.
Við getum því ekki kennt bændum um þessa stöðu sem þeir eru komnir í nú. Skuldinni verður ekki skellt á að fjárfest hafi verið um of og fjármagnskostnaður þessvegna að sliga greinina. Nei, þetta vaxtaumhverfi er bara galið og ekkert sem réttlætir að það bitni á bændum með þessum hætti, enda hefur framleiðsla þeirra lítinn sem engan þátt átt í þeirri verðbólgu sem barist er við.
Íslenskur landbúnaður er vel rekinn og til fyrirmyndar
Bændur hafa vissulega fjárfest mikið í bættum aðbúnaði dýra og heilbrigði og gæðum varanna á liðnum árum en um leið gert reksturinn hagkvæmari. Heilt yfir er íslenskur landbúnaður til mikillar fyrirmyndar á alþjóðavísu og bú vel rekin þar sem nútíma tækni er beytt. Velferð dýra er hér til mikillar fyrirmyndar og reksturinn almennt hagkvæmur. Það dugir bara ekki til ef bændur þurfa svo að keppa við staðgengilsvörur af lakari gæðum, frá svæðum þar sem aðbúnaður dýra er allt annar og laun aðeins brot af því sem okkar samfélag sættir sig við.
Verðlag er hátt á Íslandi í samanburði við önnur lönd og því er hér dýrara að framleiða vörur og veita þjónustu. Laun eru hér há í samanburði í við flest af nágrannalöndum okkar og íslenskar landbúnaðarvörur því rétt eins og aðrar innlendar vörur dýrari í krónum talið en margar innfluttar vörur.
Matvara á Íslandi er þó alls ekki dýr ef verð hennar er borið saman við vörur nágrannalandanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum í hverju landi eins og sjá á meðfylgjandi mynd. Hér á landi var hlutfall matvara 12,9% af heildarneyslu árið 2021 meðan meðaltalið í Evrópusambandslöndunum var 14,3%.
Heimild: Eurostat
Stuðningur við landbúnaðinn er í skötulíki
Tollverndin hefur rýrnað mjög mikið að verðgildi á liðnum árum og tollfrelsi algert í innflutningi margra landbúnaðarvara þar sem ekkert raunhæft eftirlit er heldur með gæðum varanna eða við hvað aðstæður þær hafa verið framleiddar.
Við eru þjóða fremst í gæðum okkar vara, höfum lyft grettistaki í öllum aðbúnaði dýra og verlferð þeirra. Heilsufar dýranna er þannig einstaklega gott hér og lyfjanotkun mjög lítil. Þessar gæðavörur okkar þurfa svo í mörgum tilvikum að keppa í verði við innflutning á vörum af allt öðrum gæðum.
Upprunamerkingar eru engan vegin nógu góðar og því mikið um innfluttar vörur í verslunum sem neytendur telja vera innlenda framleiðslu eftir að þeim hefur verið pakkað hér í neytendaumbúðir. Upprunamerkingar þarf því að gera mun skýrari þannig að neytendur hafi vitneskju um hvað þeir eru að kaupa hverju sinni. Kannanir sýna að við viljum kaupa innlenda holla vöru, en vitum bara ekki alltaf hvað við erum að kaupa þegar í búðina er komið.
Bændur hafa í raun aldrei fengið krónu frá ríkunu
Eins og ég gat um hér að ofan þá erum við ekki að skapa landbúnaðinum- og matvælaframleiðslunni sanngjarnt samkeppnisumhverfi meðan við verjum ekki framleiðsluna fyrir innflutningi eins og allar aðrar þjóðir gera til að vernda og tryggja sína framleiðslu og þar með fæðuöryggið. Mikið af þeirri vöru sem hingað er flutt inn er líka umframvara á mörkuðum sem oft er boðin á lægra verði (dumping) en framleiðsla viðkomandi þjóða fyrir sinn heimamarkað. Slík vara getur því truflað eðlilega samkeppni ef tollalögjöfin er ekki að virka eða eftirlitið með slíkum innflutningi virkt.
Beingreiðslur ríkisins til bænda verða oft að umræðuefni á þann hátt að ríkið sé að dæla peningum í þessa atvinnugrein þó raunin sé hinsvegar allt önnur. Upphaflega voru þessar stuðningsgreiðslur settar á til að lækka vöruverð til neytenda til að bæta hag þeirra verst settu í samfélaginu, en síðar var þessum niðurgreiðslum breytt í beingreiðslur til bænda til að einfalda kerfið. Þessu hef ég áður gert grein fyrir í skrifum og bendi áhugasömum á grein mína „Bændur hafa aldrei fengið krónu frá ríkinu“ sem birtist í Bændablaðinu 27/8 2015 https://timarit.is/page/6646855#page/n33/mode/2up
Stuðningur við landbúnaðinn hefur líka fjarað út á liðnum árum. Til að taka dæmi af því hvernig það hefur gerst þá má nefna að við gerð búvörusamninga árið 2005 var ríkisstuðningur til framleiðslu mjólkur fyrir innanlandsmarkað festur í krónum talið við framleiðslu og sölu á 106 milljónum lítra mjólkur. Með vaxandi framleiðslu frá þeim tíma hafa því greiðslurnar þynnst út og deilist stuðningurinn nú út á 149 milljónir lítra mjólkur sem er greiðslumarkið eða kvótinn í dag. Heildarstuðningurinn við mjólkurframleiðsluna, þessa stóru atvinnugrein, var á síðasta ári einungis um 7,8 milljarðar. Segja má því einnig að niðurgreiðslur til neytenda á þessum matvörum hafi minnkað mjög á liðnum árum. Til samanburðar má sem dæmi nefna að rekstur RÚV kostaði samfélagið um 5,1 milljarð og rekstur Alþingis um 4,4 milljarða á síðasta ári.
En hvað er til ráða, hvað þarf að gera til að laga stöðuna?
Það er mjög margt sem þarf að gera til að laga rekstrarumhverfi bænda, en flest af því tekur lengri tíma að skila sér í bættri afkomu þannig að bráðaaðgerða er einnig þörf nú til að bregðast við stöðunni. Aðgerðir nú þurfa því að vera tvíþættar:
A) Bráðaaðgerðir til að bregðast við neyðarástandi sem nú hefur skapast.
B) Aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja sanngjarnt samkeppnisumhverfi til framtíðar.
A) Bráðaaðgerðir til að bregðast við ástandinu nú
Málið er einfalt, hér dugir ekkert nema peningar til að bæta bændum upp vonlausa stöðu. Á fundum með þingmönnum í liðinni viku kom fram að erfitt sé að sækja peninga í ríkissjóð við þær aðstæður sem eru nú í samfélaginu þar sem niðurskurðarhnífurinn er á lofti í öllum ráðuneytum. Staða málsins er hinsvegar þannig að mínu mati að ríkið hefur ekki efni á að gera það ekki, því skaðinn sem mun hljótast af mun kosta ríkið miklu meira þegar upp er staðið ef fjöldagjaldþrot í greininni yrði niðurstaðan. Mjög erfitt yrði líka að byggja þessa mikilvægu atvinnugrein upp aftur ef illa færi nú og margir bændur gæfust upp og hættu framleiðslu.
Einfaldasta og líklega eina raunhæfa leiðin til að bregðast hratt við nú og bjarga málum er að auka við beingreiðslurnar. Þar er kerfið allt fyrir hendi til að koma greiðslunum til skila til þeirra sem framleiða vörurnar og með því móti yrði aðgerðin líka sanngjörn og réttlát fyrir alla.
Samkvæmt mínum útreikningum vantar sem dæmi um 2,5 -3,0 milljarða inní mjólkurframleiðsluna á ársgrundvelli til að bjarga málum eða 200 – 250 milljónir á mánuði. Þetta þarf að gera strax og þarf að standa þar til aðrar langtímaaðgerðir hafa náð fram að ganga og veita þannig greininni vernd og styrk.
B) Aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja sanngjarnt samkeppnisumhverfi til framtíðar
Mikilvægt er einnig að hefja þegar í stað vinnu við að bæta rekstrarumhverfið og samkeppnisumverfi greinarinnar með aðgerðum sem gera greinina sjálfbærari og óháðari stuðningsgreiðslum, en um leið aðgerðir sem tryggja möguleika á nýliðun í greininni.
Þau atriði sem leggja þarf áherslu á að mínu mati eru:
- Skapa greininni sanngjarna alvöru tollvernd.
- Endurskoða stuðningsgreiðslurnar (beingreiðslurnar/niðurgreiðslur til neytenda) sem hafa rýrnað mjög mikið á liðnum árum.
- Þegar í stað þarf að veita kjötafurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum líkt og mjólkuriðnaðurinn hefur búið við lengi þannig að hægt sé að ná fram hagræðingu í greininni með samvinnu og samruna fyrirtækja.
- Tryggja þarf að nýliðun geti átt sér stað í greininni með því að koma aftur á lánum á hagstæðum kjörum til jarðakaupa.
- Tryggja þarf að nægt landbúnaðarland verði aðgengilegt fyrir matvælaframleiðsluna. Þannig þarf að setja hömlur á jarðakaup erlendra sem innlendra auðmanna. Krafa um búsetu á jörðum kemur vel til greina.
- Einnig þarf að verja landbúnaðarland fyrir uppkaupum jarða til skógræktar sem ætluð er til útflutnings á kolefnislosunarkvótum.
- Skilgreina þarf hlutverk landbúnaðarins og matvælaframleiðslunnar í samfélaginu með tilliti til fæðuöryggis, fæðusjálfstæðis, matvælaöryggis og byggðafestu og finna greininni eðlilegt endurgjald fyrir það hlutverk.
- Í meira mæli væri æskilegt að koma á fjárfestingastyrkjum þegar greinin þarf að fylgja eftir nýjum kröfum eða hertum reglum samfélagsins. Með því má draga úr langtíma skuldsetningu greinarinnar og þar með bæta rekstrarafkomuna til lengri tíma litið.
- Strangari kröfur þarf að setja um gæði og heilnæmi innfluttra matvæla og merkinga þeirra,
- Efla þar grunnrannsóknir í landbúnaði með því að styrkja rannskóknarþáttinn og þar með kennslu Landbúnaðarháskólannna í landbúnaðarvísindum.
Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri